Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 23, 2007

Það er komin Þorláksmessa

Hér í Systrabæ á Langholtsveginum stefnir allt í hrein jól. Eftir að hafa flengst um bæinn í gærkvöldi í ýmsum erindagjörðum komum við heim og tókum til hendinni. Týndir geisladiskar fundu glötuð hulstur og nótnaflóðið inni í vinnuherbergi rataði í möppur. Nú á bara eftir að skúra. Litli grís lofaði að sjá um það - enda þreif ég klósettið. Þetta kalla ég samvinnu í verki.

Ég sit nú við eldhúsborðið í túrkísbláa eldhúsinu okkar, drekk te og er á leiðinni að fara að æfa mig. Oft var þörf en nú er nauðsyn, Jarðarljóð Mahlers bíða á statífinu enda æfing með kammersveitinni Ísafold í dag. Jarðarljóðin verða flutt á tónleikum í Íslensku Óperunni þann 30. desember nk. Allir sem gaman hafa af botnlausri rómantík með snert af ólæknandi mikilmennskubrjálæði ættu að mæta og hlusta því þetta verk svíkur engan.

Litla systir er skipulagið uppmálað og á eldhúsborðinu liggur aðgerðalisti dagsins. Hann er ansi langur en stormsveipurinn systir mín verður ekki í vandræðum með það. Það sem mér er efst í huga er hins vegar Þorláksmessusammenkomst hjá Stefáni og frú þar sem ég ætla að reka inn trýnið í kvöld.

Svo koma jólin.


Víóluskrímslið - gleðileg jól

mánudagur, desember 10, 2007

Sjukskrevat

Í dag er mánudagur. Samkvæmt því ætti ég nú að þeysa um Reykjanesbæ þveran og endilangan á Litla Rauð og kenna börnum á strengjahljóðfæri til klukkan 20 í kvöld. Því er ekki að heilsa í dag. Ég er lasin heima.

Eins og sannur Íslendingur er ég með ofboðslegan móral yfir því að vera ekki í vinnunni þrátt fyrir drepsóttina. Enda ætlaði ég í vinnuna í morgun. Þegar ég sá tvöfalt þegar ég stóð upp úr rúminu ákvað ég hins vegar að það væri öruggast fyrir alla aðila að ég stýrði ekki ökutæki í dag. Morguninn fór í að láta vita af sér á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum og gera ráðstafanir fyrir næstu helgi enda jólatónleikar á næsta leiti.

Ég er semsagt sjukskrevat í dag. Oj barasta.Saga úr bransanum

Fyrir nokkrum vikum stóð ég og las að gefnu tilefni yfir litlu hljómsveitinni minni um rétta hegðun og almenna kurteisi. Þar sem ég stóð þarna úfin og eldrauð í framan eins og refsinorn af gamla skólanum læddist upp lítil hönd í hópnum.

,,Anna, átt þú börn?"

Þegar ég svaraði því neitandi kinkaði barnið kolli eins og til samþykkis. Svona ströng kona ætti alveg að láta svoleiðis vera...


Víóluskrímslið - beitt og barnlaust

föstudagur, nóvember 30, 2007

Ég á bíl

Hér með tilkynnist að ég hef eignast bifreið. Hún er 14 ára gömul, af gerðinni Hyundai Pony og hefur hlotið nafnið ,,litli Rauður". Einu sinni var þessi bíll nefnilega rauður. Nú er hann meira svona dökkbleikur. Litli Rauður mun fyrst og fremst gegna því hlutverki að koma mér í og úr vinnu enda langt að fara.

Litla Rauð fékk ég á kostaprís í gegnum leynileg sambönd. Planið er að keyra hann þangað til hann dettur í sundur. Það gæti í raun gerst hvenær sem er. Það er hluti af spennunni og skemmtuninni við það að eiga gamlan bíl. Litli Rauður hefur mikinn karakter. Hann gefur frá sér hljóð af ýmsu tagi og fretar hátt þegar tekið er af stað. Ef ég væri karlmaður illa vaxinn niður myndi ég varla keyra um á svona bíl. En sem betur fer þarf ég ekki að búa við slík örlög.

Ég á bíl. Það finnst mér ansi merkilegt. Ef almenningssamgöngur borgarinnar væru aðgengilegri og Keflavíkurrútan gengi oftar hefði ég nefnilega ekki þurft að eignast hann. Svona er góðærið á Íslandi í dag.

Víóluskrímslið - bless strætó á klukkutíma fresti

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Hversdagslegur Freudismi

Í menntaskóla las ég nokkur verka Freuds. Ekki kannaðist ég við margt freudískt í mínu fari nema stöku tilfelli af tippaöfund (sem kom einungis fram ef pissað var úti við erfiðar aðstæður) og freudískar missýnir sem glöddu samferðamenn mína yfirleitt meira en mig. Ég stimplaði Freud því sem afgreiddan og skipti yfir í viktoríanskar sápubókmenntir.

Undanfarið hafa freudísku missýnirnar plagað mig óvenju mikið. Á ferð minni um Laugaveg um liðna helgi sá ég veggspjald sem auglýsti nýja plötu Geirs Ólafssonar. Platan heitir víst ,,ÞETTA ER LÍFIÐ". Mér sýndist platan heita ,,ÞETTA ER BÚIÐ" og má af þessu ráða á freudískan hátt hvað mér finnst um Geir sem söngvara.

Um svipað leyti kom ég við í BYKO í opinberum erindagjörðum. Ég stóð við kassann og beið eftir afgreiðslu þegar ég rak augun í nammi sem á stóð ,,SATAN´S CANES" Við nánari athugun sá ég að á því stóð ,,SANTA´S CANES". Svörtu tískujólin síðan í fyrra eru mér greinilega enn í fersku minni.

Ég les því allt tvisvar þessa dagana. Hver veit nema freudíski fílíngurinn flakki yfir í aðrar heilastöðvar og valdi þar óbætanlegu tjóni.

Víóluskrímslið - varkárt og varfærið

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Súrrealískur húmor

Eins og lesendur vita læt ég helst aldrei neitt frá mér á prenti nema að hafa eitthvað að segja (fyrir utan öll verkefnin sem ég vann í uppeldisfræði úti í Hollandi). Innlegg hér eru því heldur af skornum skammti enda finnst mér takmarkað að halda að þið, kæru lesendur, hafið áhuga á að lesa hvað ég fékk mér í morgunmat.

Undanfarið hef ég brotið heilann um hvert næsta viðfangsefni mitt yrði. Mér datt m.a. annars í hug að deila með ykkur sögunni af því þegar við dr. Tót heimsóttum draug Gísla á Uppsölum, eða frásögninni af uppruna óbeitar minnar á stærðfræði, sem á rætur að rekja til kvölds eins fyrir 21 ári þar sem ég sat í stofunni heima og kláraði allt námsefni 6 ára bekkjar í stærðfræði á einu kvöldi með ömmu sem lét mig ekki komast upp með neitt múður - enda þurfti stærðfræðin að vera frá áður en haldið var í 7 ára bekk hálfu ári á undan áætlun.

Mér datt líka í huga að segja ykkur frá heimsókn okkar Annegretar í nektarsundlaugina á Yrjönkatu í Helsinki sælla minninga, Viking-blood göngunni yfir Kjöl eða tónleikunum sem urðu til þess að ég ákvað að verða tónlistarmaður.

Allt þetta verður að bíða betri tíma. Eftir að hafa séð upptöku af Laugardagslögunum síðan í gærkvöldi hef ég fengið tilviljanakennd hlátursköst í allan dag, verið með afar einfaldan texta á heilanum og í sífellu séð fyrir mér kjötfjöll berjandi bumbur og takandi hljómborðssóló með einum fingri.

Eurotrash hefur gert heila minn óstarfhæfan um hríð. Ég held með þessu lagi.

Víóluskrímslið - hohoho

þriðjudagur, október 23, 2007

You cannot become what you already are...
(þú getur ekki orðið það sem þú ert þegar)


Þegar ég bjó í Hollandi í Húsi hinna töfrandi lita lauk deginum oftar en ekki á því að fjölþjóðlega fjölskyldan safnaðist saman í ormétnu eldhúsinu og gerði upp daginn. Þetta voru góðar stundir og léttu okkur lífið enda vorum við öll útlagar í ókunnu landi.

Oftar en ekki kom einhver við í súpermarkaðnum á leiðinni heim og kippti með sér flösku af ódýru víni sem við deildum bróðurlega. Oftast komumst við þó að þeirri gáfulegu niðurstöðu að ein flaska væri ekki nóg og því urðu flöskurnar oftast tvær.

Þegar þessu hafði farið fram í nokkurn tíma sátum við systurnar einu sinni sem oftar saman við eldhúsborðið með rautt 2 evra glundur í glasi og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Luis bróðir kom heim og leiddi hjólið sitt gegnum eldhúsið með miklu brambolti. Þá sneri Lára sér að honum og spurði kankvíslega - enda orðin góðglöð af víninu - Luis, erum við að verða að alkóhólistum hér á þessu heimili?

Luis sneri sér við og svaraði: You cannot become what you already are. Svo dröslaði hann hjólinu út í bakgarð.

Það sló þögn á borðið. Það var eins og við gerðum okkur grein fyrir því í fyrsta sinn að það er ekki normalt að detta í það á hverjum degi. Næsta dag fórum við í Simon Levelt og birgðum okkur upp af tei. Samverustundirnar urðu ekkert verri fyrir vikið.

Í Hollandi er aðgengi að áfengi mun meira en hér og er vín og bjór selt jöfnum höndum í stórmörkuðum. Þar er þó aðeins um að ræða takmarkað úrval og eðalvín eru þar ekki á hverju strái. Mest fer fyrir ódýrum vínum af ýmsu tagi og svo bjór. Það að geta kippt með sér flösku af víni með daglegum innkaupum er óneitanlega þægilegt en það leiðir líka til þess að maður drekkur oftar og meira í einu. Það kemur að því að manni hættir að finnast það sniðugt enda er áfengi eiturlyf - þó það sé löglegt.

Mér þykir afskaplega vænt um lifrina í mér og helli mig ekki fulla á hverjum degi. Þess vegna finnst mér ekkert að því að þurfa að fara í sérverslun til þess að ná mér í rauðvín til hátíðabrigða með steikinni. Í vínbúðunum er gott úrval, ágætis þjónusta og opnunartíminn þess eðlis að jafnvel fólk eins og ég sem vinnur steiktan vinnutíma á góðan séns á að komast í ríkið. Auk þess er ég ekkert spennt fyrir Euroshopper bjórnum sem Bónus ætlar að flytja inn. Hvað þá Krónubjór eða Hagkaupsvíni.

Forsvarsmenn frumvarpsins góða ættu kannski að velta þessu fyrir sér betur en þeir hafa gert. Sérstaklega Sigurður Kári - en hann er kannski bara æstur í að missa prófið aftur.


Víóluskrímslið - lifum, lærum og njótum

þriðjudagur, október 09, 2007

Veisluhöld

Undanfarnar tvær helgar hafa einkennst af miklum veisluhöldum. Þessar veislur voru báðar með afbrigðum skemmtilegar þótt ólíkar væru.

Sú fyrri var síbúin brúðkaupsveisla þeirra Stefáns félaga míns og hans frómu ektakvinnu Guðrúnar. Þar var nóg að bíta og brenna og skemmtiatriði á hverju strái. Hið nýstofnaða tangóband Finlandia BigBand lék þar 3 lög fyrir dansi við mikinn fögnuð og fór dr. Tót þar á kostum á snerlinum. Hápunkti veislunnar var þó náð þegar brúðhjónin valhoppuðu í kringum veisluborðið við undirleik brúðarmarsins með kongaröð af kátum gestum á eftir sér. Svona eiga brúðkaup að vera!

Seinni veislan var villibráðarveisla sem við vinkonurnar Guðný og Sólrún lentum í fyrir slysni um helgina á ferðalagi okkar um Snæfellsnes. Þar borðuðum við sel og hval og fleira lostæti og stóð átið fram undir morgun. Þar hittum við lítinn hollenskan dreng sem kvaðst vinna þar á bóndabæ í grenndinni. Drengur sá hafði afar hollenskar hugmyndir um hlutverk kynjanna og átti bágt með að trúa því að til væru konur sem vildu og gætu verið fjárhagslega sjálfstæðar. Þegar hann rökstuddi þessa skoðun sína með því að vitna í hellisbúasamfélagið svaraði Guðný því til með setningu kvöldsins : "There is this thing called evolution, you know."

Næstu helgi á ég hins vegar ekki boð í neina veislu. Hvað gera bændur þá?

Þá held ég hana bara sjálf, sagði litla gula hænan. Hver vill koma í matarboð?

Víóluskrímslið - party on

miðvikudagur, október 03, 2007

Topp 5 mínus 1

Það er ýmislegt skemmtilegt við það að vera tónlistarkennari.

Til dæmis er afar notalegt að sitja heima einn dag í viku íklædd föðurlandi og lopapeysu drekkandi te í lítravís og undirbúa kennslu, útsetja námsefni, skrifa greinargerðir og meterslanga tölvupósta.

Það er líka svaka gaman þegar krakkarnir koma vel undirbúnir og þjóta í gegnum heimaverkefnin sín.

Það er fjör þegar krakkarnir standa sig vel á tónleikum og koma niður af sviðinu ljómandi af stolti.

Það er rosalega gaman þegar eitthvert barnanna sér ljósið og getur loksins gert eitthvað sem það hefur barist við í margar vikur.

Það er gaman að stjórna hljómsveit fullri af hressum krökkum, sjá þá vaxa með hverri raun og þroskast sem spilarar.

Þökk sé möppudýrum þessa lands er hins vegar ekki eins gaman að fá launaseðilinn sinn.


Víóluskrímslið - gaman i vinnunni

þriðjudagur, september 25, 2007

Heilög reiði

Lítið hefur farið fyrir ritlist vorri á öldum alnetsins undanfarið. Enda höfum vér haft um nóg annað að hugsa. Víóluskrímslið hefur sveiflast milli heilagrar reiði og botnlausrar örvæntingar í heilar tvær vikur og sér ekki fyrir endann á því ástandi.

Ástæða þessa er þess eðlis að ég sé mér ekki hag í því að skrifa hana hér þar sem hún stendur óvarin og fyrir allra augum. Þeir sem þekkja mig nógu vel til þess að hafa símanúmerið mitt undir höndum mega hins vegar vel hringja í mig og eyða nokkrum tíköllum í að hlusta á mig fremja gjörninginn

"Möppudýrum þessa lands úthúðað á 1000 mismunandi vegu á aðeins fimm mínútum!"

Þetta er ansi fróðlegur gjörningur og mun vekja undrun og hneykslan þeirra sem á hlýða.


Víóluskrímslið - þó að framtíð sé falin, grípum geirinn í hönd

laugardagur, september 15, 2007

Gefðu þeim blóm

Í kvöld fórum við Margrét og pabbi á tónleika með Herði Torfasyni. Skemmst er frá því að segja að ég grét, hló og grét svo úr hlátri.

Það er kúnst að halda fullum sal af fólki við efnið í hátt í þrjá tíma, einn og aðeins með tvo gítara að vopni. Herði tókst það og meira til. Ekki spillti fyrir að síðasta lag tónleikanna var eitt af uppáhaldslögum fjölskyldunnar, Karl R. Emba.

Þegar heim var komið beið mín símareikningur upp á rúm tuttugu þúsund krónur en það er gangverð á því að halda sambandi við opinberan ástmann, fjölskyldu og vini á 3 vikna ferðalögum erlendis og geðheilsunni þar með. Mér var ekki skemmt.

Vodafone fær engin blóm frá mér. Hvað þá rúsínupoka með hnetum.

Víóluskrímslið - dýrt er drottins orðið.

sunnudagur, september 09, 2007

Félagslíf

Þessa helgi hitti ég fjöldann allan af gömlum vinum og kunningjum við hin ýmsu tækifæri. Ekki þarf að fjölyrða um hvað fór fram á þeim samkomum en ég skemmti mér afskaplega vel á þeim öllum. 

Hápunktar helgarinnar voru margir en flutningur jazzklúbbsins á Prumpulaginu í stofunni heima sl. föstudagskvöld hlýtur að teljast einn magnaðasti gjörningur sem ég hef tekið þátt í lengi. 

Í Hollandi hefði ég vafalaust verið brennimerkt fyrir að vera orðin 27 ára og þykja Prumpulagið samt fyndið.

Það er gott að vera kominn heim.


Víóluskrímslið - trallarallarallarallarallarallarafimmtudagur, ágúst 30, 2007

Þrumukennarinn

Ég fór Reykjanesbæjarrúntinn í fyrsta sinn í dag og líkaði vel.

Í Njarðvíkurskóla stóð ég frammi á gangi að bíða eftir nemendum mínum þegar lítill gutti spurði mig hver ég væri. Ég svaraði því til að ég væri fiðlukennarinn.

VÁÁ... sagði sá litli og augun ætluðu alveg út úr andlitinu á honum. Ertu ÞRUMUKENNARI?

Mig tók sárt að þurfa að leiðrétta það. Mér finnst ÞRUMUKENNARI nefnilega hljóma afskaplega vel.

Víóluskrímslið - thundercat

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Í fréttum er þetta helst

Ég er komin heim. 3 vikna flakki er lokið og við tekur nýtt líf.

Hr. Schiffer var sprækur sem lækur á námskeiðinu í Morges þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldur og hafa nýlega farið í hjáveituaðgerð. Hr. Schiffer er frægur fyrir að öskra og æpa í kennslustundum en í þetta sinn æpti hann ekkert sérlega mikið. Kannski var honum ráðlagt að passa þrýstinginn. Tímarnir voru friðsælir og góðir en annað mátti segja um svefnaðstöðuna, sem var gluggalaust neðanjarðarbyrgi fullt af hávaðasömum spænskumælandi gelgjum á ýmsum aldri sem fóru í sturtu á sundfötunum. Víóluskrímslið hvessti sig ítrekað við hávaðaseggina, sem áttu helst við það vandamál að stríða að vera ófærir um að lækka róminn. Það hafði lítið að segja enda töluðu þeir ekkert þeirra mála sem ég kann og ekki get ég talað spænsku. Dvölin í Sviss var því svefnlaus að mestu leyti.

Frá Sviss hélt ég til H-lands, þar sem ég eyddi 3 dögum í að hitta vini og kunningja áður en haldið var á annað námskeið í Aardenburg. Þar var margt um manninn og stíft prógramm. Því var ég orðin ansi útvötnuð þegar ég lenti í Keflavík aðfaranótt mánudags. Pabbi og litli grís sáu aumur á mér og sóttu mig vestureftir. Það er gott að eiga góða að.

Þeir sem beðið hafa í ofvæni eftir fréttum af framtíðaráætlunum mínum fá forvitni sinni svalað hérmeð; Ég ákvað að slá mastersnámi á frest. Núverandi fyrirkomulag hefði krafist þess að til væru tvær Önnur - eða að sú eina sem til er flytti aftur til H-lands í tvö ár. Það er ekki inni í myndinni. H-lenskt kvef, sem ég tók með mér heim og nú hrjáir mig, minnir mig rækilega á það hvers vegna mig langar ekki að flytja þangað aftur. Sem staðfestingu á þessari ákvörðun skráði ég mig upp á nýtt í símaskrána undir starfsheitinu tónlistarkennari.

Við systur munum hefja búskap í risíbúð á Langholtsvegi í september ásamt viðhengjum. Stefnt er að reglulegu líferni, árangursríkri eldamennsku og almennum notalegheitum.

Það er kominn tími til þess að hafa tíma til að vera til.


Víóluskrímslið - elskum friðinn, strjúkum kviðinn

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Ferðalög

"Finnst þér gaman að ferðast svona milli landa" spurði pabbi mig í gærkvöldi þar sem við sátum og horfðum á Jay Leno með engu hljóði á meðan ég beið eftir þvottavélinni. Nei, ekki gat ég sagt það. Ferðalög þýða í mínum huga ekkert annað en endalausar setur á flugvöllum og lestarstöðum með búslóðina í ferðatösku í yfirvikt, níðþungan víólukassa á bakinu og ekki of netta tölvutösku mér við hlið. Mér finnst hins vegar rosalega gaman að koma á áfangastað.

Þegar ég ferðast er það yfirleitt vegna þess að ég er að fara eitthvað til þess að gera eitthvað. Vera í skóla. Spila í hljómsveit. Fara á námskeið. Spila á tónleikum. Ég er sjaldnast á leið í frí. Í Leifsstöð lít ég þá ferðalanga öfundaraugum sem sitja afslappaðir á barnum og hafa engan handfarangur meðferðis nema tollinn úr fríhöfninni. Einhvern tímann ætla ég líka að gera svoleiðis.

Í fyrramálið legg ég af stað í enn eitt ferðalagið. Förinni er heitið til Sviss þar sem ég mun dvelja í rúma viku á masterclass hjá víóluleikaranum Ervin Schiffer. Þaðan held ég til Hollands þar sem örlög mín næstu 2 árin munu ráðast á 15 mínútna fundi með yfirskipuleggjendum mastersdeildar. Ég fékk nefnilega póst um daginn þar sem mér var tjáð að fyrirkomulagi námsins hefði verið breytt síðan mér var hleypt inn í deildina í desember síðastliðnum - nú yrðu reglulegir fyrirlestrar og vinnustofur út skólaárið þar sem krafist væri skyldumætingar. Það er erfitt að þurfa að mæta í fyrirlestra í Hollandi á öllum þriðjudagsmorgnum í nóvember þegar maður er í 110% vinnu heima á gamla Íslandi.

Spennandi tímar framundan. Kveikir víóluskrímslið í konservatoríinu í hefndarskyni fyrir þennan absolút dílbreiker? Heldur það sínu striki með augljósum ívilnunum af hálfu skólastjórnar? Gefur það skít í Hollendingana, slær master á frest, byggir upp svakalegan fiðlubekk á tveimur vígstöðvum, spilar kammermúsík í gríð og erg, giggar eins og það eigi lífið að leysa og hefur samt tíma til að elda góðan mat um helgar?

Ó boj.


Víóluskrímslið - vöðvabólga í uppsiglingu

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Lifandi kristindómur og almenningssamgöngur Reykjavíkurborgar

Í dag sá ég ungan amrískan mormónadreng með nafnspjald í barminum áreita eldri konur með biblíutilvitnunum í strætó.

Örstuttu síðar keyrði strætó framhjá Helga Hós. þar sem hann stóð vaktina hnarreistur að vanda - en á skilti dagsins stóð "BRENNIÐ ÞIÐ KYRKUR KROSSLAFS DRAUGS".

Einu sinni stóð ég með ömmu í strætóskýli við Þjóðminjasafnið þegar meðlimur úr sléttgreidda trúboðahernum reyndi að gefa ömmu bækling um biblíulestur. Amma bað hann blessaðan að gefa hann frekar einhverjum sem hefði áhuga á að lesa slíkt því ekki nennti hún því.

Ekki ég heldur. Þá smíða ég mér frekar skilti.

Víóluskrímslið - leið 14

mánudagur, júlí 16, 2007

Bitte waschen sie sich

Í sundlaugum Reykjavíkur hanga víða veggspjöld sem gefa mönnum til kynna hvaða líkamshluta skuli þvo áður en gengið er til laugar.

Í sundi í gærmorgun tók ég eftir því að aðeins er tekið fram í franska textanum og þeim þýska að menn skuli þvo sér með SÁPU.

Ætli það sé að gefnu tilefni?!

Víóluskrímslið - mit seife

föstudagur, júlí 13, 2007

Draugar fortíðar


Valerie hin hollenska er komin og farin. Á ferð sinni um landið tók hún 757 myndir, aðallega af náttúruundrum og vegskiltum ýmiss konar. Sjálf er ég reynslunni ríkari eftir að hafa ekið um Vestfirðina sunnanverða, inn alla Barðaströnd og fyrir Vatnsnes. Nú finnst mér ég geta ekið hvaða vegleysu sem er.

Í tíu daga tjáði ég mig auk þessa nær eingöngu á hollensku og komst þá að því að almennri hollenskukunnáttu minni hefur töluvert farið aftur þessa 6 mánuði sem liðnir eru frá því að ég kom heim. Það á þó ekki við á öllum sviðum. Um daginn þurfti ég að hringja í launadeild Sveitarfélagins Skagafjarðar um daginn vegna smávægilegs erindis. Um leið og ég var komin í formlega gírinn og búin að stilla á virðulegu símaröddina fór ég ósjálfrátt að hugsa á hollensku og stamaði eins og idjót í símann. 4 ár af tuði hafa greinilega sett mark sitt á undirmeðvitundina.

Eftir að Valerie var farin tók ég til við að endurskipuleggja líf mitt - sem er pakkað ofan í kassa sem dreift er um alla borg. Í dag fór ég í gegnum fötin mín og skemmti mér konunglega við að rifja upp hin ýmsu tískutímabil sem víóluskrímslið hefur gengið í gegnum síðan í grunnskóla. Ýmsu var ég búin að gleyma eins og hinu skemmtilega Vinnufatabúðartímabili (sem ég gekk í gegnum í 10 bekk og fyrsta ár mitt í menntaskóla þegar ég gekk aðeins í karlmannsfötum úr Vinnufatabúðinni) gerviefnatímabilinu (vanmáttugri tilraun til þess að auka á kvenleika minn) og blúndutímabilinu (dittó). Flest fengu fötin að gista svartan ruslapoka sem gefinn verður Rauða Krossi Íslands við fyrsta tækifæri. Ýmsar flíkur fengu þó uppreisn æru og mun víóluskrímslið skarta þeim sem virðulegur kennari nú í haust. Sýnist þó kannski sumum sitt um virðuleikann.


Víóluskrímslið - 15 litir og engir tveir í stíl

þriðjudagur, júní 26, 2007

Rónatanið

Ég átti frí í dag. Síðustu viku hef ég unnið myrkranna á milli á sambýlinu og þurfti því alvarlega að hlaða batteríin. Til að fagna því að eiga frí fór ég með litla ME í skoðun. Þar kom í ljós að litli ME gengur ekki alveg heill til skógar. Eftir stutta heimsókn á dekkjaverkstæði breyttist ástandið þó ögn til hins betra. Næst þarf að leggja hann inn til frekari meðhöndlunar. Veslings litli ME.

Þrátt fyrir bágt heilsufarsástand litla ME þeyttist ég svo á honum austur í sveit til þess að ganga um ættaróðalið og fylgjast með foreldrum mínum klappa trjánum sem þau hafa gróðursett þar undanfarin ár. Veðrið var eins og best verður á kosið og brátt var ég komin úr peysunni og farin að hlaupa um eins og lamb á vori. Það reyndust afdrifarík mistök.

Í gær var ég föl og interessant. Í dag lít ég út eins og þýskur sauerkraut túristi í fjölskylduferð á Mallorca. Eftir daginn státa ég af æðislegum hlýrabolssólbruna sem hvaða róni sem er gæti verið stoltur af. Svona er að kunna ekki á tanið.

Víóluskrímslið - ái

sunnudagur, júní 24, 2007

Svífur yfir Esjunni

Dagurinn í dag var með eindæmum veðursæll og fagur. Eftir vinnu tók við lautarferð í Elliðaárdal í sérdeilis góðum félagskap fröken Stefaníu - og síðan skruppum við amma í bíltúr til Þingvalla og gengum þar góðan hring.

Á leiðinni til baka skein miðnætursólin svo skært í augun á mér að ég keyrði mest alla leiðina eftir minni.

Ég skutlaði ömmu heim, þáði mjólk og kleinu við rauða eldhúsborðið hennar og hélt svo sem leið lá heim á Langholtsveg. Esjan, Akrafjallið og Skarðsheiðin voru sveipuð dýrðarljóma og gullbrydd ský svifu hátt á himni. Yfir mig færðist rómantískt æði og ég hóf að kyrja ,,svífur yfir Esjunni" af miklum móð.

Þá laust niður í huga mér minningu um ískalda vetrarnótt fyrir 6 árum síðan þegar ég var á næturvakt og fór í næturgöngu með einhverfum pilti sem átti erfitt með svefn. Við höfðum gengið nokkra stund í algerri þögn þegar hann hóf skyndilega upp raust sína og söng fyrir mig ,,svífur yfir Esjunni" - öll erindin. Það var rosalegt.

Minningarnar ná stundum í skottið á manni þegar síst lætur.


Víóluskrímslið - sólroðið ský

miðvikudagur, júní 06, 2007

Elskum friðinn

Nú í lok maí voru 4 mánuðir síðan ég tók loksins bílpróf. Á þeim tíma hef ég brennt þvers og kruss um sveitir Skagafjarðar á bláu sveitarfélagsdruslunni, ekið sömu druslu nokkrum sinnum frá Króknum til Akureyrar og til baka og ekki má gleyma glæfraför að næturlagi sem farin var í apríl, þegar vansvefta víóluskrímslið keyrði litla ME (Ford Fiesta '99) frá Reykjavík til Sauðárkróks í þoku og ofsaveðri.

Ég er afar stolt af þessum afrekum mínum á sviði aksturs á þjóðvegum úti. Þó jafnast ekkert þessara afreka á við það að lifa að einn dag í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég kom suður í síðustu viku eftir skólaslit í Skagafirði hóf ég annasama viku á að keyra frá miðbæ Reykjavíkur til Keflavíkur á vinnufund í tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Eftir þá ferð velti ég því alvarlega fyrir mér að leggja ökuskírteininu og kaupa mér 36 gíra hjól og regnslá.

Á þessari rúmlega 50 kílómetra leið var svínað á mér þrisvar. Óþolinmóðir ökumenn flautuðu á mig unnvörpum fyrir að aka á löglegum hraða og óku svo nærri veslings litla ME að stuðararnir kysstu á honum rassgatið. Stefnuljós virtust ekki eiga upp á pallborðið hjá flestum sem sátu undir stýri og akstursstefna manna kom eftir því skemmtilega á óvart. Þegar ég renndi inn á bílastæði tónlistarskólans var ég eitt titrandi taugaflak.

Só sorrí. Ef hámarkshraði er 80 fer ég ekki hraðar en 80. Það er bara svoleiðis. Þær 2 mínútur sem sparast við það eitt að gefa í á milli staða nota ég bara til að bora í nefið á mér og það er alveg eins hægt að gera á rauðu ljósi. Þeir sem eru ósáttir við það að keyra á eftir litla ME á löglegum hraða mega bíta í sig.

Víóluskrímslið - gefur alltaf stefnuljós

miðvikudagur, maí 23, 2007

Hall of fame

Eftir spennuþrungna bið er loks komið í ljós hverjir gegna munu ráðherraembættum á næsta kjörtímabili. Samfylking teflir fram þremur konum og jafnmörgum körlum sem rímar vel við stefnu flokksins í jafnréttismálum.
Í ráðherrahópi Sjálfstæðismanna er aðeins ein kona. Karlmennirnir fimm halda uppi heiðri firrtra-miðaldra-viskíkarla-með-bindi með sóma. Verst að þeir eru ekki í neinu sambandi við raunveruleika vinnandi fólks í landinu. Þeir eiga að minnsta kosti ekki á hættu að þeirra kvóti verði seldur úr byggðarlaginu.
Einnig vakti athygli að Samfylkingin tekur við flestum þeim ráðuneytum sem styrr hefur staðið um á undanförnum kjörtímabilum. Viðskipta og iðnaðarráðuneyti auk umhverfisráðuneytis hafa ekki talist friðsamir vinnustaðir hingað til. Nýtt velferðarráðuneyti leggst auk þess á herðar Samfylkingar. Það verður skemmtilegt verkefni að moppa upp skítinn eftir drulluslag fráfarandi ríkisstjórnar í þeim málum.
Ég bíð spennt eftir málefnasamningnum.

Víóluskrímslið - tilbúið með kústinn

þriðjudagur, maí 15, 2007

Bananalýðveldi nr 1

Einu sinni sá ég veggjakrot í Hollandi sem var á þessa leið:

Ef kosningar breyttu einhverju væri eflaust búið að banna þær fyrir löngu.

Þegar ég komst að því á sunnudagsmorgun að ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar héldi eins manns meirihluta þrátt fyrir að vera með minnihluta atkvæða á bak við sig varð mér hugsað til þessarar staðhæfingar. Litla systir skrýðist eflaust BANANA REPUBLIC NO. 1 bolnum sínum Íslandi til heiðurs þessa dagana.

Ég gerði mér ferð suður um síðastliðna helgi til þess að kjósa. Auk þess fórum við dr. Tót á tangónámskeið þar sem við komumst að því að hvorugu okkar voru gefnar neitt sérstaklega þokkafullar hreyfingar í vöggugjöf. Í mínu tilfelli vissi ég reyndar allt um það. Risessan gladdi augu og eyru og kosninganóttinni var eytt heima hjá félaga Stefáni og frú, þar sem við fylgdumst skjálfandi með stjórninni og Guðmundi Steingrímssyni falla og detta inn á víxl.

Nú taka við dagar óvissu fyrir íslenska þjóð. Á maður að fara að safna fúleggjum til að vera við öllu búinn?

Víóluskrímslið - á nálum

fimmtudagur, maí 03, 2007

Miðaldra hressileiki

Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega fullt af peningum. Að minnsta kosti hefur hann keypt upp for- og baksíður í öllum héraðsblöðum hér um slóðir til þess að auglýsa sig. Á aðal-auglýsingamyndinni sést listi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í norð-vestur kjördæmi. Helmingur fólksins á myndinni er gráhærðir stútungskarlar í jakkafötum. Hinn helmingurinn er myndarlegar, vel til hafðar konur sem líta ekki út fyrir að vera meira en á fertugsaldri.
Einn skólaliðanna í Varmahlíðarskóla hafði á orði í morgun að myndin liti út eins og Viagra auglýsing.
Þá er nú fokið í flest skjól.
Bohemian Rhapsody
Í gærkvöldi var ég farþegi í bíl þar sem kveikt var á FM 95,7. Ég hlusta aldrei á FM 95,7. Í gær var ég minnt á ástæðuna fyrir því.
R&B rassadilli-raddflúrsútgáfa af Bohemian Rhapsody hljómaði þar á öldum ljósvakans, mér til mikillar hrellingar.
Suma hluti á bara að láta í friði.
Víóluskrímslið - verndum snilldina

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Minn eigin persónulegi sauðsskapur

Mér er sagt að ég geti stundum verið afar utan við mig. Ég tek sjaldnast eftir því - nema þegar ég geng á staura, helli sjóðandi vatni yfir höndina á mér, fæ flautukór í hausinn því ég gleymi að taka af stað á grænu, hrasa um gangstéttarbrúnir, læsi mig úti og fleira skemmtilegt.

Það kemur einfaldlega stundum fyrir að ég er svo þungt hugsi yfir einhverju sem hvílir á mér þá stundina að ég tek ekki alveg nógu vel eftir því sem er að gerast í kringum mig. Eins og í dag.

Í hádeginu kom ég við í veitingasölu KS í Varmahlíð og fékk mér þar hádegisverð. Ég fékk fínt rúnstykki á disk og skyrdrykk á bakka og var heldur kát með mitt. Rúnstykkið bragðaðist vel enda með miklu smjöri og skyrdrykkurinn var langt frá því að vera á síðasta söludegi. Ég var því afar sátt þar sem ég sat og át, með útsýni yfir í Blönduhlíðina í sól og blíðu. Á meðan ég snæddi renndi ég yfir verkefni næstu vikna í höfðinu. Stigspróf og útskriftir eru á næsta leiti og krakkarnir mis vel á vegi stödd. Skipulagningin sóttist vel, þegar ég renndi niður síðustu dropunum af skyrdrykknum (með jarðarberjabragði) var ég búin að skapa hernaðaráætlun fyrir allan hópinn.

Ég var voða montin. Svona á að gera þetta, hugsaði íslenski vinnualkinn, nota hádegisverðinn til þess að skipuleggja vinnuna. Ég var svo ánægð með þetta að ég ákvað að létta undir með afgreiðslufólkinu og fleygja sjálf af bakkanum mínum. Það var ekki fyrr en ég heyrði hávaðann í ruslatunnunni að ég áttaði mig á því að ég hafði fleygt disknum undan rúnstykkinu í ruslið.

Nei andskotinn....hugsaði ég og flissaði örlítið yfir mínum eigin sauðsskap. Ég leit í kringum mig til þess að athuga hvort einhver hefði orðið vitni að þessu afreki. Enginn virtist hafa orðið var við neitt. Ég gjóaði augunum ofan í ruslið en diskurinn var horfinn sjónum. Ég leit aftur í kringum mig. Ofan í ruslið. Svo hljóp ég út.

Það var nú gott að þetta var bara diskur.


Víóluskrímslið - vandráður viðutan

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Óperur
Óperur eru merkilegt listform. Allt frá þeim dögum þegar geldingarnir sigruðu heiminn klæddir kvenfötum og riddarabrynjum á víxl til okkar tíma þar sem karlar og konur þenja raddböndin hægri vinstri og allt um kring hafa þær heillað fjöldann allan af tónlistarunnendum og enn fylla kassastykkin óperuhús um allan heim.
Óperur hafa oftar en ekki svakalega flókinn söguþráð. Til dæmis gæti ópera auðveldlega verið á þessa leið:

Kona verður ástfangin af manni sem kemur svo í ljós að er bróðir hennar. Eftir mikinn grát og gnístran tanna, margar hálftíma kveðjusenur, nokkur skrímsli, óveður með vindvél, svikular vinkonur, undirförula vonbiðla, trygga garðyrkjumenn með gúmmíendur og misheppnaða sjálfsmorðstilraun aðalpersónunnar með klósetthreinsi kemur í ljós að hinn heittelskaði reynist vera hálfbróðir systur frænda hennar í fimmta lið og þá brestur á mikil gleði. Óperan endar með tvöföldu brúðkaupi elskendanna og garðyrkjumannsins og gúmmíandarinnar hans og fagna hlutaðeigendur með svaka löngu tríói þar sem tístið í gúmmíöndinni leikur stórt hlutverk.

Það er ekkert skrítið að óperur skuli vera mönnum hugleiknar þegar þær bjóða upp á svona fjör.

Þessa dagana stendur ópera Skagafjarðar fyrir vasauppfærslu af La Traviata. Þar koma fram afturbata vændiskonur, siðavandir feður, óðir ástmenn, stanslaus partí og svall, dularfullir samningar, heitrof, geðveiki og svo deyja allir úr berklum. Að ekki sé minnst á DÖMUBINDALAGIÐ víðsfræga!

Ég held að ég geti lofað mönnum góðri skemmtun á sunnudag komanda. Allir á óperuna!

Víóluskrímslið - MIMI


laugardagur, apríl 21, 2007

Nú er sumar, gleðjist gumar

Gleðilegt sumar!

Það var ekki sumarlegt um að litast á Öxnadalsheiðinni í morgun. Ég var þar á ferð klukkan átta í morgun á leiðinni á æfingu á Akureyri fyrir uppsetningu Óperu Skagafjarðar á La Traviata. Það var snjór og krap en þó komst ég ei í hátíðarskap. Öllu skemmtilegri sjón en snjórinn var litla lambið sem ég rak augun í komin hálfa leið út í Varmahlíð. Þó mátti litlu muna að illa færi þar sem ég glápti svo stíft á lambið að ég var næstum farin útaf veginum.

Mig vantar stundum auka augu.

Í fyrramálið klukkan 11 stundvíslega heldur Strengjadeild Tónlistarskóla Skagafjarðar vortónleika þar sem fram koma heilar 4 hljómsveitir skipaðar nemendum mínum. Það verða án efa hressandi tónleikar.

Mig vantar stundum fleiri tíma í sólarhringinn.

Þegar ég var að skoða skóladagatalið í fyrradag rann upp fyrir mér að kennslu fer senn að ljúka. Og ég sem á eftir að kenna þeim svo margt.

Mig vantar stundum auka daga í árið.


Víóluskrímslið - sömar

föstudagur, apríl 13, 2007

Ungfrú Reykjavík

Mér finnst fegurðarsamkeppnir frábært skemmtiefni enda afar fyndin og sérkennileg fyrirbæri. Útsending Skjás Eins á Ungfrú Reykjavík var þar engin undantekning. Það fyndnasta var þó ekki stúlkurnar sjálfar, með sín heltönuðu skinn og frosnu flúrljósabros, heldur áhorfendurnir. Frammíköllin, píkuskrækirnir og gólin voru slík að mér fannst ég vera að horfa á íþróttakappleik af grófustu sort.

Ég vona að þetta sé vísbending um hugarfarsbreytingu. Nú hlýtur næsta skref að vera það að stúlkurnar fái að klæðast fötum í keppninni.


Mjá

Nú um helgina lít ég eftir kattasafni Hönnu og co. þar sem þau eru öll fyrir sunnan. Áðan sat ég og horfði á fréttirnar með aldursforsetann, hann Rúfus, á hnjánum. Þegar sýnt var frá aðalfundi Sjálfstæðisflokksins stóð hann upp og fór. Svo kom hann aftur þegar Eurovision þátturinn byrjaði. Kettir eru óvitlausir.


Fjaran

Í dag átti ég frí. Það gerist ekki oft. Þessvegna fór ég út í fjöru að leika mér í morgun. Íklædd mínum ljóta jogginggalla með hettuna á hausnum og rauðan prjónatrefil um hálsinn hef ég eflaust ekki komið neitt sérlega virðulega fyrir. Mér er skítsama. Það var svo gott veður og Drangey ljómaði við sjónarrönd.


Víóluskrímslið - glad

laugardagur, mars 31, 2007

Þak yfir höfuðið

Ég stæri mig af því að vera glaðlynd að eðlisfari. Þrátt fyrir þann meðfædda kost kemur stundum fyrir að yfir mig hellist svakalegt þunglyndi og botnlaus örvænting. Þetta ástand kemur yfir mig um það bil einu sinni í viku og stendur yfir í um fimmtán mínútur, eða eins langan tíma og það tekur mig að blaða í gegnum fasteignablað Moggans og sannfærast um það að fólki eins og mér sé ekki ætlað að eignast nokkurn tímann þak yfir höfuðið nema selja sál sína bönkunum eða líkamann hæstbjóðanda.

Lengi hef ég beðið þess í ofvæni að bólan springi og fasteignaverðið lækki. Í hverri viku hef ég gripið fasteignablaðið föstum tökum og lesið það spjaldanna á milli - aðeins til þess að sökkva ofan í sandleðjufen örvæntingar eftir lesturinn. Verðið lækkar ekki, það bara hækkar. Og hækkar og hækkar.

Líf mitt liggur um þessar mundir í geymslum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, pakkað ofaní kassa af ýmsum stærðum og gerðum skreyttum póststimplum frá þremur löndum. Bækurnar lifa lúxuslífi í hillunum inni hjá dr. Tót en restin safnar ryki og tekur upp pláss hjá velviljuðum ættingjum. Eftir flakk síðustu ára hlakka ég mikið til þess að eignast fastan samastað og geta tekið uppúr kössunum.

Helvítis fasteignablaðið virðist þó ekki styðja þau áform mín.


Víóluskrímslið - líst ekki á blikuna

miðvikudagur, mars 28, 2007

Hið æðsta takmark

Í dag skein sól í Skagafirði og létt yfir mönnum eftir því. Síðasti nemandi min í dag, fimm ára skotta, var engin undantekning frá þeirri reglu.

Hún hló mest allan tímann enda fádæma glaðlynt barn. Milli hláturskasta spilaði hún eitt og eitt lag. Eitt þeirra laga var ofurhittarinn "halti grái hérinn" sem við spiluðum nokkrum sinnum yfir - eða öllu heldur, hún spilaði, ég söng.

Við fórum í gegnum hérann tvisvar sinnum. Þegar við byrjuðum á héranum í þriðja sinn hætti skotta skyndilega að spila. "Ég kann alveg hérann," sagði hún. "Viltu hætta að kenna mér!" Svo spilaði hún hérann, alveg sjálf.

Þá varð ég montin.

Víóluskrímslið - takmarki náð

mánudagur, mars 19, 2007

ZERO

Afhverju ekki ... sjónvarp með ZERO hallærislegum auglýsingum?

Afhverju ekki ... auglýsingaherferðir með ZERO ranghugmyndum?

Af hverju ekki ... umhverfi með ZERO hálfvitalegri karlrembu?

Öhöömurlegt.

Víóluskrímslið - hætt að kaupa kók

mánudagur, mars 12, 2007

Blessuð börnin

Ég hef aldrei talið mig vera neitt sérstaklega móðurlega manneskju. Þrátt fyrir það hef ég afskaplega gaman af börnum - sem ég á ekki.

Það er gaman að fá börn vina og vandamanna lánuð, fara með þeim í dagsferðir og göngutúra, á söfn, í náttúruskoðun og útilegur og skila þeim svo aftur drulluskítugum, úttauguðum af þreytu og með magnaðar ísklessur í fötunum. Það er líka gaman að kenna börnum.

Börn hafa nefnilega svo skemmtilega sýn á lífið. Þau eru fordómalaus og órög við að segja sína skoðun. Vísindalegar athuganir þeirra á umheiminum blandast oft á tíðum góðum skammti af ímyndunarafli og þau eru síforvitin um allt sem um er að vera í kringum þau.

Í morgun var ég að kenna einni sex ára sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Eftir að hafa spilað í gegn lögin og skalana sem hún átti að æfa heima horfði hún stíft á mig og spurði svo:"Hvenær fékkstu þessa peysu?" Ég sagðist hafa fengið peysuna í jólagjöf fyrir tveimur árum síðan. Hún glennti upp augun í forundran. "Passarðu ennþá í hana!"

Ég útskýrði að þegar maður væri kominn á minn aldur hætti maður að stækka á langveginn. Hins vegar gæti maður bætt við sig á þverveginn. Barnið sætti sig við þessa skýringu og sagði svo spekingslega: "já, það gerist þegar maður borðar mikið af fitu."

Börn eru skemmtileg. Ég held hins vegar að ég láti öðrum eftir næturvökurnar að svo komnu máli.

Víóluskrímslið - Barnafræðari

mánudagur, mars 05, 2007

Að tala tungum

Um síðastliðna helgi átti ég því láni að fagna að fá að spila með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á Akureyri. Þar urðu bæði fagnaðarfundir milli mín og fólks sem ég hef ekki séð lengi og eins kynntist ég hópi af tónlistarmönnum sem ég hafði aldrei áður hitt.

Meðal þeirra var sellóleikari frá Póllandi að nafni Pavel sem flutti til Íslands fyrir sjö árum og ætlaði sér að vera í ár. Eins og margir ílengtist hann á Íslandi og var á skömmum tíma kominn í fulla kennslu enda prýðis músíkant og almennilegur með afbrigðum. Yfir hádegismatnum á laugardaginn sagði Pavel hljómsveitarmeðlimum söguna af því þegar hann áttaði sig á mikilvægi þess að læra íslensku.

Þannig var, að eftir komuna til Íslands var Pavel fljótt farinn að fást við kennslu. Eitt sinn kom það fyrir að til hans kom nemandi, sex ára stelpuskott, og var mikið niðri fyrir. Hún sagði Pavel eitthvað á íslensku sem hann skildi ekki og var mjög óðamála. Pavel vissi ekki alveg hvernig hann ætti að taka á þessu svo hann sagði bara "jájá" og bjóst til að hefja tímann. Barnið var þó ekki af baki dottið en ítrekaði setninguna aftur og aftur og varð æstari í hvert sinn. Pavel fannst þetta nú eitthvað skrítið en hugsaði með sér að barnið hlyti nú að róast, sagði aftur "jájá" og hélt áfram að undirbúa tímann. Þá varð telpan eldrauð í framan eins og hún ætlaði að springa. Pavel hætti þá að lítast á blikuna, bankaði upp á í næstu stofu og bað kennarann þar að túlka fyrir sig. Þegar kennarinn hafði hlustað á stelpuna í tvær sekúndur sagði hann "já, hún þarf bara að fara á klósettið." "Jájá", sagði Pavel við stelpuna, sem tók sprettinn eftir ganginum eins og skrattinn væri á hælunum á henni. Þá sagði Pavel að loks hefði runnið upp fyrir honum ljós um nauðsyn þess að læra íslensku.

Ég er alveg sammála Pavel. Ætli maður sér að dvelja langdvölum í öðru landi en sínu eigin er sjálfsagt að maður læri tungumál þess lands. Ekki aðeins er það þægilegt fyrir heimamenn, sem geta þá átt samskipti við mann á sínu eigin máli, heldur léttir það manni sjálfum lífið til mikilla muna. Öll samskipti við yfirvöld í viðkomandi landi verða auðveldari. Maður getur betur fylgst með fréttum og ástandinu í kringum sig, er öruggari í skóla og á vinnumarkaðnum og getur tjáð sig við alla, ekki bara þá sem kunna ensku.

Þegar ég bjó í Hollandi lærði ég hollensku eins fljótt og ég gat, ekki af fagurfræðilegum ástæðum, heldur praktískum. Það leiddi til þess að ég átti mun auðveldara með að laga mig að samfélaginu og eiga samskipti við fólk en erlendir samstúdentar mínir sem ekki töluðu hollensku. Ég er viss um að ég hefði farið mikils á mis hefði ég ekki lært málið. Að minnsta kosti hefði ég ekki náð kennaraprófinu.

Það að kunna tungumál þess lands þar sem maður dvelur er lykilatriði í að komast inn í samfélagið. Til þess að sitja við sama borð og heimamenn er nauðsynlegt að geta átt samskipti við þá á því máli sem ráðandi er í þjóðfélaginu. Mállaus útlendingur er veikur fyrir á margan hátt, auðveldara er að svindla á honum, erfiðara er fyrir hann að sækja rétt sinn til vinnu, skóla og launa og málleysið gerir mönnum oftar en ekki ókleift að fá sömu tækifæri og heimamenn. Sem fyrrum nýbúi í H-landi gerði ég mér grein fyrir þessu og ákvað að bregðast við.

Nýbúum sem komnir eru til Íslands til þess að vera enginn greiði gerður með því að "sleppa þeim við" að læra íslensku á þeim forsendum að hún sé of erfið og óskiljanleg. Með því er verið að búa til óþarfa stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Föllum ekki í þá gryfju sem aðrar þjóðir hafa grafið sér í innflytjendamálum, heldur lærum af reynslu annarra. Bjóðum upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir innflytjendur og það á kristilegum tímum, ekki klukkan tíu á kvöldin þegar fólki hættir til að sofna ofan í bækurnar. Tölum íslensku við fólk sem við vitum að er að læra hana. Verum þolinmóð og hættum að skipta yfir í enskuna um leið og viðmælandinn þarf að hugsa sig um. Hjálpum til við að kenna fólki á kerfið og allar óskrifuðu reglurnar í samfélaginu. Með því aðstoðum við það fólk sem komið er til Íslands til að vera einna best. Þetta virkaði að minnsta kosti fyrir mig.


Víóluskrímslið - fyrrum nýbúi í H-landi

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Kyrrlátt kvöld við fjörðinn

Gærdagurinn var fyrsti kennsludagur eftir vetrarfrí. Ég var í roknastuði og krakkarnir líka. Eftir langan kennsludag í Varmahlíð var stuðið hvergi nærri á undanhaldi og því snuddaðist ég inn á Krók, tók bensín á Sveitarfélagsdruslu nr. 1 og stalst til að skreppa í búð í leiðinni. Þegar ég kom heim var klukkan næstum orðin átta að kvöldi. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Þegar 9-5 þjóðfélagið er á leið heim til sín að elda mat og horfa á barnaefnið eru tónlistarkennarar yfirleitt rétt að hefja sinn vinnudag. Það hentar mér (barnlausri grasekkju sem á erfitt með að fara á fætur á morgnana) sérdeilis ágætlega. Öðrum ekki.

Ég kveikti á sjónvarpinu og hlustaði á íþróttafréttir yfir súrmjólk og seríósi. Samt hef ég engan áhuga á íþróttum. Kastljósið lofaði hins vegar góðu og ákvað ég að sitja sem fastast og fylgjast með því. Ég fylgdist spennt með ofsaakstri ungs manns með lögguna á hælunum og hugsaði hlýlega til allra jeppakallanna sem reglulega svína á mér á leiðinni út í Varmahlíð. Þegar ungar meyjar með bláa augnskugga hófu samhæfðan dans fór ég fram að ná í meiri súrmjólk. Að dansinum loknum hófust umræður um málefni alsheimersjúklinga.

Þegar þar var komið var stuðið runnið af mér. Í stað þess að dansa um með súrmjólkurskálina svo seríósið þeyttist um stofugólfið hlunkaðist ég í sófann og á mig sóttu hugsanir um allt það sem aflaga fer í þessum heimi. Umræðurnar í sjónvarpinu bættu ekki ástandið. Gaggið í hæstvirtum heilbrigðisráðherra sem átti þar vondan málstað að verja fór auk þess óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég tók hljóðið af tækinu.

Þögnin umvafði þreyttan tónlistarkennarann sem í þeirri svipan gerði stórkostlega uppgötvun. Umræðuþættir eru miklu skemmtilegri án hljóðs. Það er ekki eins og menn hafi eitthvað að segja af viti hvort eð er og maður getur skemmt sér við að fylgjast með fólki gefa hvert öðru illt auga í laumi. Jafnvel íþróttir verða skemmtilegra sjónvarpsefni án hljóðs. Þögnin gerði að minnsta kosti kraftaverk fyrir ensku mörkin. Ungir karlmenn sem hlaupa á eftir bolta á nærfötunum verða að miklum mun áhugaverðari þegar hljóðið er tekið af þeim.

Víóluskrímslið - uss

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Að halda haus

Eftir að ég fór að kenna varð mér ljóst að mér hafði verið veitt gríðarlegt vald yfir nemendum mínum og að ég bæri ábyrgð eftir því. Ég segi vald, vegna þess að góður kennari getur haft gríðarleg áhrif á líf barns sem hann kennir. Sem kennari reyni ég að vera börnunum góð fyrirmynd. Ég krefst gagnkvæmrar virðingar í tímum, er föst fyrir en sanngjörn og hækka aldrei róminn nema til þess að hrósa fólki. Auk þess passa ég alltaf að það sjáist ekki framan í mér hvað ég borðaði í hádeginu.

Stundum getur verið erfitt að halda ímynd hins alvitra kennara fyrir framan blessuð börnin. Ekki síst ef eitthvað stórkostlegt veltur upp úr þeim. Eins og í gærkvöldi, þegar ég var að sýna litlum forvitnum snáða hvernig taktmælir virkar. Ég byrjaði á að sýna honum hvernig taktmælirinn sló 60 slög á mínútu og leyfði honum svo að finna út hversu hratt hjartað í honum slægi. Drengurinn stillti svo taktmælinn á 208 slög á mínútu. "Getur einhver verið með svona hraðan hjartslátt?" spurði hann. Ég svaraði því játandi, en bætti við að væri viðkomandi í kyrrstöðu þætti mér skynsamlegast að fara með hann á sjúkrahús. Annars hugar hélt snáðinn áfram að skrúfa til stillinn á taktmælinum og hitti þá á stillinguna sem gefur tóninn A440. (Fyrir þá sem ekki til þekkja hljómar þessi tónn eins og flöt lína á hjartalínuriti.) Hann leit upp og sagði alvarlegur: "Nú held ég að það sé of seint."

Stundum getur líkaminn einnig brugðist manni í baráttunni við virðuleikann. Aðfaranótt mánudags fékk ég kveisu sem hefur verið að ganga meðal krakkanna. Eitilhörð hélt ég á mánudegi að það versta væri liðið hjá og ákvað að drífa mig út í Varmahlíð. Fyrsti tíminn gekk vel. Sá næsti líka. Í þriðja tíma var farið að síga á ógæfuhliðina og í fjórða tíma var ég farin að biðja vesalings nemandann heldur oft að "hita nú upp næsta lag á meðan ég skryppi aðeins fram". Eftir nokkur órómantísk faðmlög við Gustavsberg ákvað ég að fara heim. Það var skynsamleg ákvörðun.

Svona verður maður stundum að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Víóluskrímslið - rússíbani

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Suðuþvottur

Þegar maður kemur dauðþreyttur heim eftir langan dag á maður ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en að hvíla sig. Ætli maður að vera sniðugur og koma einhverju í verk í slíku ástandi endar það yfirleitt með ósköpum.

Í gærkvöld kom ég heim í steiktum ofþreytufíling og setti í þvottavél. Einum og hálfum tíma síðar áttaði ég mig á því að ég hafði soðið fulla vél af vægþvotti. Bómullin slapp að mestu en eðlileg afföll urðu á peysum úr gerviefnum. Nú á ég nokkrar peysur sem líta út eins og kúbísk listaverk.

Þar sem ég á ekki mikið af fötum og get seint talist tískufrík er þetta tilfinnanlegur missir. Sérstaklega þótti mér sorglegt að sjóða nýju fínu rauðu peysuna með stuttu ermunum og kaðlamynstrinu sem litli grís gaf mér í jólagjöf. Það er dagljóst að ég þarf að skreppa í tískuvöruverslanir Hjálpræðishersins og Rauða krossins þegar ég kem suður næst.

Héðan í frá ætla ég aldrei að setja í þvottavél nema ég sé sérstaklega vel upplögð. Eða ganga bara í bómull það sem eftir er.


Víóluskrímslið - soðið, ekki steikt

mánudagur, febrúar 12, 2007

Skrautlegi dagurinn

Þegar ég mætti til kennslu í Varmahlíðarskóla síðastliðinn fimmtudag mætti mér krakkaskari í furðufötum, hver öðrum skrautlegri. Ég hugsaði lítt út í það enda aldrei að vita hvað þessum krökkum dettur í hug. Þess í stað fór ég beint upp í stofu, gekk frá draslinu mínu og hélt svo af stað að sækja fyrsta nemanda dagsins.

Stúlkan sú var heldur en ekki skrautlega klædd. Þegar ég hrósaði henni fyrir smekklegt fataval sagði hún mér upprifin að hún væri í skrautlegum fötum því að í dag væri SKRAUTLEGI DAGURINN. Svo mældi hún mig út og spurði: "hvernig vissir þú að skrautlegi dagurinn væri í dag?" Ég horfði niður á sjálfa mig og taldi 7 liti. Sagði svo barninu að hjá mér væru allir dagar skrautlegir.

Einu sinni fór ég á Schiphol að sækja dr. Tót í helgarfrí. Ég hafði gert mitt besta til að vera eins sæt og ég mögulega gat og hafði meðal annars keypt nýjar röndóttar sokkabuxur í tilefni heimsóknarinnar. Þegar dr. Tót kom fram í móttökusalinn fékk hann ofbirtu í augun af litavalinu - að eigin sögn. Mér persónulega finnst ekkert að því að vera í 15 litum sem passa ekkert endilega saman.

Það er nóg um svarta og grá tóna á veturna. Litir létta lund. Upp með rauðu bindin og grænu sokkana.


Víóluskrímslið - eins og regnbogi meistarans

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Skín við sólu Skagafjörður

Þau undur og stórmerki gerðust í morgun að ég tók bílpróf. Og náði því. Þeir sem eiga leið um þjóðveg 75 Sauðárkrókur-Varmahlíð á mánudögum og fimmtudögum næstu vikur og mánuði mega því fara að vara sig á bláleitri Toyotu með skjaldarmerki Skagafjarðarhrepps í afturglugganum.

Þegar ég svo fór á skrifstofu sýslumanns í hádeginu að sækja bráðabirgðaakstursleyfið sem nauðsynlegt er að hafa í farteskinu næstu vikuna spurði afgreiðsludaman hvort ég væri orðin sautján. Er það furða að maður sé enn spurður um skilríki í Ríkinu.

Síðustu vikur hafa verið annasamar með afbrigðum. Mér líkar vel í nýja starfinu. Krakkarnir 37 eru hressir og taka mér með miklu jafnaðargeði, líka þegar ég dengi í þá tækniæfingum með dulúðlegum heitum eins og "fingraleikfimi" og "jarðgangaborun". Fyrir utan kennsluna hefur mér tekist að þrífa íbúðina hátt og lágt, fara í reisu á Akureyri og Húnavelli með Valorrahöll og á þorrablót með Hönnu og hennar fólki - þaðan sem við fórum reyndar áður en menn fóru að slást og brjóta klósett.

Svo fann ég þessa prýðilegu hlaupabraut í flæðarmálinu.

Þetta verður alveg skidegodt.


Víóluskrímslið - Egon

laugardagur, janúar 13, 2007

Af illri nauðsyn

Ég er að fara að taka bílpróf. Eftir að hafa þrjóskast við í tíu ár verður ekki lengur hjá því komist. Ég er búin að ráða mig í vinnu út á land og öllum þeim sem eitthvað þekkja til almenningssamgangna á Íslandi ætti að vera ljóst að vilji maður komast leiðar sinnar þar án þess að eiga á hættu að verða úti í blindbyl við það eitt að bíða eftir rútunni hjá sjoppunni í Varmahlíð verður maður að geta ekið bíl. Djöfuls helvíti.

Ófáir hafa rekið upp stór augu við þessar fréttir enda gera flestir ráð fyrir því að allir Íslendingar taki bílpróf 17 ára gamlir að því gefnu að þeir séu andlega heilir. Ekki ég. Þegar ég var 17 áttum við ekki bíl. Þegar ég var 20 hafði fjölskyldan eignast slíkt farartæki en þá var ég flutt að heiman og hafði ekki efni á að borga bílpróf af þeim stórupphæðum sem ég fékk fyrir að vinna á næturvöktum á heimilum fyrir fatlaða. Auk þess var ég heppin með strætóleiðir.

Í H-landi nýtti ég mér almenningssamgöngur enda landið flatt og vel til þess fallið að leggja um það lestarteina þvers og kruss. Ekki þurfti ég því á bílprófi að halda þar frekar en annars staðar.

Nú duga engar afsakanir. Bílprófið skal tekið og sveitarfélagsbíllinn á Sauðárkróki keyrður tvisvar í viku fram á vor. Ég get ekki sagt að mér finnist ég hafa öðlast aukna lífsfyllingu við þetta. Kannski er það bara vegna þess að ég verð aldrei aftur stikkfrí við heimferð af öldurhúsum og get ekki framar notið útsýnisins ótrufluð á ferð um landið.

Öss bara.

Víóluskrímslið - þræll blikkbeljunnar

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Gleðilegt ár lömbin mín

Me.


Matur

Í morgun stóð ég í bókabúð og flissaði að myndasögu um dýrasta mat í heimi. Svo fór ég út í búð og fannst hún ekki lengur fyndin.


Kinderwens?

Hvers vegna í ósköpunum senda hollenskir lyfsalar væmna bæklinga um barneignir með lyfseðilsskyldum getnaðarvörnum? Þurfi ég einhvern tímann að fara aftur í apótek þar í landi ætla ég fyrst að stimpla "nei, mig langar ekki að eignast börn" á ennið á mér. Eða fá mér bol með slíkri áletrun. Ég er ekki með það stórt enni.

Hálka

Ég þarf að læra upp á nýtt að ganga í hálku. Það er meira en að segja það.


Víóluskrímslið - allt að gerast