Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, október 23, 2007

You cannot become what you already are...
(þú getur ekki orðið það sem þú ert þegar)


Þegar ég bjó í Hollandi í Húsi hinna töfrandi lita lauk deginum oftar en ekki á því að fjölþjóðlega fjölskyldan safnaðist saman í ormétnu eldhúsinu og gerði upp daginn. Þetta voru góðar stundir og léttu okkur lífið enda vorum við öll útlagar í ókunnu landi.

Oftar en ekki kom einhver við í súpermarkaðnum á leiðinni heim og kippti með sér flösku af ódýru víni sem við deildum bróðurlega. Oftast komumst við þó að þeirri gáfulegu niðurstöðu að ein flaska væri ekki nóg og því urðu flöskurnar oftast tvær.

Þegar þessu hafði farið fram í nokkurn tíma sátum við systurnar einu sinni sem oftar saman við eldhúsborðið með rautt 2 evra glundur í glasi og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Luis bróðir kom heim og leiddi hjólið sitt gegnum eldhúsið með miklu brambolti. Þá sneri Lára sér að honum og spurði kankvíslega - enda orðin góðglöð af víninu - Luis, erum við að verða að alkóhólistum hér á þessu heimili?

Luis sneri sér við og svaraði: You cannot become what you already are. Svo dröslaði hann hjólinu út í bakgarð.

Það sló þögn á borðið. Það var eins og við gerðum okkur grein fyrir því í fyrsta sinn að það er ekki normalt að detta í það á hverjum degi. Næsta dag fórum við í Simon Levelt og birgðum okkur upp af tei. Samverustundirnar urðu ekkert verri fyrir vikið.

Í Hollandi er aðgengi að áfengi mun meira en hér og er vín og bjór selt jöfnum höndum í stórmörkuðum. Þar er þó aðeins um að ræða takmarkað úrval og eðalvín eru þar ekki á hverju strái. Mest fer fyrir ódýrum vínum af ýmsu tagi og svo bjór. Það að geta kippt með sér flösku af víni með daglegum innkaupum er óneitanlega þægilegt en það leiðir líka til þess að maður drekkur oftar og meira í einu. Það kemur að því að manni hættir að finnast það sniðugt enda er áfengi eiturlyf - þó það sé löglegt.

Mér þykir afskaplega vænt um lifrina í mér og helli mig ekki fulla á hverjum degi. Þess vegna finnst mér ekkert að því að þurfa að fara í sérverslun til þess að ná mér í rauðvín til hátíðabrigða með steikinni. Í vínbúðunum er gott úrval, ágætis þjónusta og opnunartíminn þess eðlis að jafnvel fólk eins og ég sem vinnur steiktan vinnutíma á góðan séns á að komast í ríkið. Auk þess er ég ekkert spennt fyrir Euroshopper bjórnum sem Bónus ætlar að flytja inn. Hvað þá Krónubjór eða Hagkaupsvíni.

Forsvarsmenn frumvarpsins góða ættu kannski að velta þessu fyrir sér betur en þeir hafa gert. Sérstaklega Sigurður Kári - en hann er kannski bara æstur í að missa prófið aftur.


Víóluskrímslið - lifum, lærum og njótum

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli Sigurður Kári sé ekki aðallega að spá í verðið.. einkasala bíður ekki upp á mikla samkeppni.. einnig ræður ríkið hverjir mega flytja inn vín. Oftast eru það rík fyrirtæki .. og vinir þeirra. Ég fengi seint leyfi til að flytja inn ódýran weissbier sama hvort hann væri seldur í búð eða vínbúð.. Ég verð nú bara að segja að mér ofbýður verðið á veigum hér á landinu okkar góða.
M