Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, nóvember 30, 2007

Ég á bíl

Hér með tilkynnist að ég hef eignast bifreið. Hún er 14 ára gömul, af gerðinni Hyundai Pony og hefur hlotið nafnið ,,litli Rauður". Einu sinni var þessi bíll nefnilega rauður. Nú er hann meira svona dökkbleikur. Litli Rauður mun fyrst og fremst gegna því hlutverki að koma mér í og úr vinnu enda langt að fara.

Litla Rauð fékk ég á kostaprís í gegnum leynileg sambönd. Planið er að keyra hann þangað til hann dettur í sundur. Það gæti í raun gerst hvenær sem er. Það er hluti af spennunni og skemmtuninni við það að eiga gamlan bíl. Litli Rauður hefur mikinn karakter. Hann gefur frá sér hljóð af ýmsu tagi og fretar hátt þegar tekið er af stað. Ef ég væri karlmaður illa vaxinn niður myndi ég varla keyra um á svona bíl. En sem betur fer þarf ég ekki að búa við slík örlög.

Ég á bíl. Það finnst mér ansi merkilegt. Ef almenningssamgöngur borgarinnar væru aðgengilegri og Keflavíkurrútan gengi oftar hefði ég nefnilega ekki þurft að eignast hann. Svona er góðærið á Íslandi í dag.

Víóluskrímslið - bless strætó á klukkutíma fresti

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Hversdagslegur Freudismi

Í menntaskóla las ég nokkur verka Freuds. Ekki kannaðist ég við margt freudískt í mínu fari nema stöku tilfelli af tippaöfund (sem kom einungis fram ef pissað var úti við erfiðar aðstæður) og freudískar missýnir sem glöddu samferðamenn mína yfirleitt meira en mig. Ég stimplaði Freud því sem afgreiddan og skipti yfir í viktoríanskar sápubókmenntir.

Undanfarið hafa freudísku missýnirnar plagað mig óvenju mikið. Á ferð minni um Laugaveg um liðna helgi sá ég veggspjald sem auglýsti nýja plötu Geirs Ólafssonar. Platan heitir víst ,,ÞETTA ER LÍFIÐ". Mér sýndist platan heita ,,ÞETTA ER BÚIÐ" og má af þessu ráða á freudískan hátt hvað mér finnst um Geir sem söngvara.

Um svipað leyti kom ég við í BYKO í opinberum erindagjörðum. Ég stóð við kassann og beið eftir afgreiðslu þegar ég rak augun í nammi sem á stóð ,,SATAN´S CANES" Við nánari athugun sá ég að á því stóð ,,SANTA´S CANES". Svörtu tískujólin síðan í fyrra eru mér greinilega enn í fersku minni.

Ég les því allt tvisvar þessa dagana. Hver veit nema freudíski fílíngurinn flakki yfir í aðrar heilastöðvar og valdi þar óbætanlegu tjóni.

Víóluskrímslið - varkárt og varfærið

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Súrrealískur húmor

Eins og lesendur vita læt ég helst aldrei neitt frá mér á prenti nema að hafa eitthvað að segja (fyrir utan öll verkefnin sem ég vann í uppeldisfræði úti í Hollandi). Innlegg hér eru því heldur af skornum skammti enda finnst mér takmarkað að halda að þið, kæru lesendur, hafið áhuga á að lesa hvað ég fékk mér í morgunmat.

Undanfarið hef ég brotið heilann um hvert næsta viðfangsefni mitt yrði. Mér datt m.a. annars í hug að deila með ykkur sögunni af því þegar við dr. Tót heimsóttum draug Gísla á Uppsölum, eða frásögninni af uppruna óbeitar minnar á stærðfræði, sem á rætur að rekja til kvölds eins fyrir 21 ári þar sem ég sat í stofunni heima og kláraði allt námsefni 6 ára bekkjar í stærðfræði á einu kvöldi með ömmu sem lét mig ekki komast upp með neitt múður - enda þurfti stærðfræðin að vera frá áður en haldið var í 7 ára bekk hálfu ári á undan áætlun.

Mér datt líka í huga að segja ykkur frá heimsókn okkar Annegretar í nektarsundlaugina á Yrjönkatu í Helsinki sælla minninga, Viking-blood göngunni yfir Kjöl eða tónleikunum sem urðu til þess að ég ákvað að verða tónlistarmaður.

Allt þetta verður að bíða betri tíma. Eftir að hafa séð upptöku af Laugardagslögunum síðan í gærkvöldi hef ég fengið tilviljanakennd hlátursköst í allan dag, verið með afar einfaldan texta á heilanum og í sífellu séð fyrir mér kjötfjöll berjandi bumbur og takandi hljómborðssóló með einum fingri.

Eurotrash hefur gert heila minn óstarfhæfan um hríð. Ég held með þessu lagi.

Víóluskrímslið - hohoho