Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, september 25, 2007

Heilög reiði

Lítið hefur farið fyrir ritlist vorri á öldum alnetsins undanfarið. Enda höfum vér haft um nóg annað að hugsa. Víóluskrímslið hefur sveiflast milli heilagrar reiði og botnlausrar örvæntingar í heilar tvær vikur og sér ekki fyrir endann á því ástandi.

Ástæða þessa er þess eðlis að ég sé mér ekki hag í því að skrifa hana hér þar sem hún stendur óvarin og fyrir allra augum. Þeir sem þekkja mig nógu vel til þess að hafa símanúmerið mitt undir höndum mega hins vegar vel hringja í mig og eyða nokkrum tíköllum í að hlusta á mig fremja gjörninginn

"Möppudýrum þessa lands úthúðað á 1000 mismunandi vegu á aðeins fimm mínútum!"

Þetta er ansi fróðlegur gjörningur og mun vekja undrun og hneykslan þeirra sem á hlýða.


Víóluskrímslið - þó að framtíð sé falin, grípum geirinn í hönd

laugardagur, september 15, 2007

Gefðu þeim blóm

Í kvöld fórum við Margrét og pabbi á tónleika með Herði Torfasyni. Skemmst er frá því að segja að ég grét, hló og grét svo úr hlátri.

Það er kúnst að halda fullum sal af fólki við efnið í hátt í þrjá tíma, einn og aðeins með tvo gítara að vopni. Herði tókst það og meira til. Ekki spillti fyrir að síðasta lag tónleikanna var eitt af uppáhaldslögum fjölskyldunnar, Karl R. Emba.

Þegar heim var komið beið mín símareikningur upp á rúm tuttugu þúsund krónur en það er gangverð á því að halda sambandi við opinberan ástmann, fjölskyldu og vini á 3 vikna ferðalögum erlendis og geðheilsunni þar með. Mér var ekki skemmt.

Vodafone fær engin blóm frá mér. Hvað þá rúsínupoka með hnetum.

Víóluskrímslið - dýrt er drottins orðið.

sunnudagur, september 09, 2007

Félagslíf

Þessa helgi hitti ég fjöldann allan af gömlum vinum og kunningjum við hin ýmsu tækifæri. Ekki þarf að fjölyrða um hvað fór fram á þeim samkomum en ég skemmti mér afskaplega vel á þeim öllum. 

Hápunktar helgarinnar voru margir en flutningur jazzklúbbsins á Prumpulaginu í stofunni heima sl. föstudagskvöld hlýtur að teljast einn magnaðasti gjörningur sem ég hef tekið þátt í lengi. 

Í Hollandi hefði ég vafalaust verið brennimerkt fyrir að vera orðin 27 ára og þykja Prumpulagið samt fyndið.

Það er gott að vera kominn heim.


Víóluskrímslið - trallarallarallarallarallarallara