Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, júní 26, 2007

Rónatanið

Ég átti frí í dag. Síðustu viku hef ég unnið myrkranna á milli á sambýlinu og þurfti því alvarlega að hlaða batteríin. Til að fagna því að eiga frí fór ég með litla ME í skoðun. Þar kom í ljós að litli ME gengur ekki alveg heill til skógar. Eftir stutta heimsókn á dekkjaverkstæði breyttist ástandið þó ögn til hins betra. Næst þarf að leggja hann inn til frekari meðhöndlunar. Veslings litli ME.

Þrátt fyrir bágt heilsufarsástand litla ME þeyttist ég svo á honum austur í sveit til þess að ganga um ættaróðalið og fylgjast með foreldrum mínum klappa trjánum sem þau hafa gróðursett þar undanfarin ár. Veðrið var eins og best verður á kosið og brátt var ég komin úr peysunni og farin að hlaupa um eins og lamb á vori. Það reyndust afdrifarík mistök.

Í gær var ég föl og interessant. Í dag lít ég út eins og þýskur sauerkraut túristi í fjölskylduferð á Mallorca. Eftir daginn státa ég af æðislegum hlýrabolssólbruna sem hvaða róni sem er gæti verið stoltur af. Svona er að kunna ekki á tanið.

Víóluskrímslið - ái

sunnudagur, júní 24, 2007

Svífur yfir Esjunni

Dagurinn í dag var með eindæmum veðursæll og fagur. Eftir vinnu tók við lautarferð í Elliðaárdal í sérdeilis góðum félagskap fröken Stefaníu - og síðan skruppum við amma í bíltúr til Þingvalla og gengum þar góðan hring.

Á leiðinni til baka skein miðnætursólin svo skært í augun á mér að ég keyrði mest alla leiðina eftir minni.

Ég skutlaði ömmu heim, þáði mjólk og kleinu við rauða eldhúsborðið hennar og hélt svo sem leið lá heim á Langholtsveg. Esjan, Akrafjallið og Skarðsheiðin voru sveipuð dýrðarljóma og gullbrydd ský svifu hátt á himni. Yfir mig færðist rómantískt æði og ég hóf að kyrja ,,svífur yfir Esjunni" af miklum móð.

Þá laust niður í huga mér minningu um ískalda vetrarnótt fyrir 6 árum síðan þegar ég var á næturvakt og fór í næturgöngu með einhverfum pilti sem átti erfitt með svefn. Við höfðum gengið nokkra stund í algerri þögn þegar hann hóf skyndilega upp raust sína og söng fyrir mig ,,svífur yfir Esjunni" - öll erindin. Það var rosalegt.

Minningarnar ná stundum í skottið á manni þegar síst lætur.


Víóluskrímslið - sólroðið ský

miðvikudagur, júní 06, 2007

Elskum friðinn

Nú í lok maí voru 4 mánuðir síðan ég tók loksins bílpróf. Á þeim tíma hef ég brennt þvers og kruss um sveitir Skagafjarðar á bláu sveitarfélagsdruslunni, ekið sömu druslu nokkrum sinnum frá Króknum til Akureyrar og til baka og ekki má gleyma glæfraför að næturlagi sem farin var í apríl, þegar vansvefta víóluskrímslið keyrði litla ME (Ford Fiesta '99) frá Reykjavík til Sauðárkróks í þoku og ofsaveðri.

Ég er afar stolt af þessum afrekum mínum á sviði aksturs á þjóðvegum úti. Þó jafnast ekkert þessara afreka á við það að lifa að einn dag í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég kom suður í síðustu viku eftir skólaslit í Skagafirði hóf ég annasama viku á að keyra frá miðbæ Reykjavíkur til Keflavíkur á vinnufund í tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Eftir þá ferð velti ég því alvarlega fyrir mér að leggja ökuskírteininu og kaupa mér 36 gíra hjól og regnslá.

Á þessari rúmlega 50 kílómetra leið var svínað á mér þrisvar. Óþolinmóðir ökumenn flautuðu á mig unnvörpum fyrir að aka á löglegum hraða og óku svo nærri veslings litla ME að stuðararnir kysstu á honum rassgatið. Stefnuljós virtust ekki eiga upp á pallborðið hjá flestum sem sátu undir stýri og akstursstefna manna kom eftir því skemmtilega á óvart. Þegar ég renndi inn á bílastæði tónlistarskólans var ég eitt titrandi taugaflak.

Só sorrí. Ef hámarkshraði er 80 fer ég ekki hraðar en 80. Það er bara svoleiðis. Þær 2 mínútur sem sparast við það eitt að gefa í á milli staða nota ég bara til að bora í nefið á mér og það er alveg eins hægt að gera á rauðu ljósi. Þeir sem eru ósáttir við það að keyra á eftir litla ME á löglegum hraða mega bíta í sig.

Víóluskrímslið - gefur alltaf stefnuljós