Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, júní 06, 2007

Elskum friðinn

Nú í lok maí voru 4 mánuðir síðan ég tók loksins bílpróf. Á þeim tíma hef ég brennt þvers og kruss um sveitir Skagafjarðar á bláu sveitarfélagsdruslunni, ekið sömu druslu nokkrum sinnum frá Króknum til Akureyrar og til baka og ekki má gleyma glæfraför að næturlagi sem farin var í apríl, þegar vansvefta víóluskrímslið keyrði litla ME (Ford Fiesta '99) frá Reykjavík til Sauðárkróks í þoku og ofsaveðri.

Ég er afar stolt af þessum afrekum mínum á sviði aksturs á þjóðvegum úti. Þó jafnast ekkert þessara afreka á við það að lifa að einn dag í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég kom suður í síðustu viku eftir skólaslit í Skagafirði hóf ég annasama viku á að keyra frá miðbæ Reykjavíkur til Keflavíkur á vinnufund í tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Eftir þá ferð velti ég því alvarlega fyrir mér að leggja ökuskírteininu og kaupa mér 36 gíra hjól og regnslá.

Á þessari rúmlega 50 kílómetra leið var svínað á mér þrisvar. Óþolinmóðir ökumenn flautuðu á mig unnvörpum fyrir að aka á löglegum hraða og óku svo nærri veslings litla ME að stuðararnir kysstu á honum rassgatið. Stefnuljós virtust ekki eiga upp á pallborðið hjá flestum sem sátu undir stýri og akstursstefna manna kom eftir því skemmtilega á óvart. Þegar ég renndi inn á bílastæði tónlistarskólans var ég eitt titrandi taugaflak.

Só sorrí. Ef hámarkshraði er 80 fer ég ekki hraðar en 80. Það er bara svoleiðis. Þær 2 mínútur sem sparast við það eitt að gefa í á milli staða nota ég bara til að bora í nefið á mér og það er alveg eins hægt að gera á rauðu ljósi. Þeir sem eru ósáttir við það að keyra á eftir litla ME á löglegum hraða mega bíta í sig.

Víóluskrímslið - gefur alltaf stefnuljós

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig langar að geta þess til gamans að það er vanalega regla að hraðamælar í bílum séu með 10% skekkju - þ.e. hann sýnir 10% meiri hraða en bíllinn er á.

Breyttir jeppar (eins og jeppinn sem ég er á í vinnunni) eru oftast með leiðrétta mæla sem er gert um leið og stærri dekk eru sett undir. Þannig að þegar ég er á 90 á honum þá er ég akkúrat á níutíu.

Hins vegar er ég aðeins á 81. kílómetra hraða þegar hraðamælirinn á fólksbílnum mínum sýnir 90. Þannig að þegar ég er á 100 þá veit ég að ég er á raunverulegu hámarkshraða.

Þetta er regla a.m.k. öllum á þeim bíltegundum sem ég þekki að hraðmælarnir séu svona. Ætli þetta hafi ekki eitthvað að gera með að framleiðendur vilja vera vissir um að vera ekki lögsóttir eða eitthvað svoleiðis ef að hraðamælar sýndu óvart minni hraða en bíllinn er raunverulega á.

Það er mjög auðvelt að athuga þetta með því að gá hvað hraðamælirinn sýnir þegar maður keyrir fram hjá einu af þeim skiltum sem eru staðsett um alla borg (oft við skóla) og sýna hraðann á bílum sem keyra fram hjá og blikka ef maður er yfir hámarkshraða. T.d. sýna skiltin mér alltaf 30 þegar hraðamælirinn í bílnum er nokkurn veginn á 33.

Bið að heilsa, kveðja Ísi.

Nafnlaus sagði...

Ísi minn! Sjaldséðir hvítir hrafnar:) Jú, ég vissi þetta með skekkjumörkin og geri ráð fyrir þeim. Enda dinglar nálin á litla ME yfirleitt rétt neðan í 60 þegar hann er á 50. Ég læt ekki hanka mig á svona löguðu!
Víóluskrímslið

Nafnlaus sagði...

Já auðvitað vissirðu þetta - það er samt merkilegt hvað þetta kemur oft flatt upp á marga...

Annars kann maður varla við að krúsa mikið um þjóðvegina þar sem maður er hræddur um að híað sé á furðufuglinn sem keyrir um landið án þess að vera með einbýlishús í eftirdragi.

Það er stutt í að bílar með einbýlishús í eftirdragi og einbýlishúsið með hjólhýsi í eftirdragi verði sjáanlegir á vegunum.


Bið að heilsa Míní-ME og Tóta.

E.s. Reyndar er ég ekkert svo hvítur núna (a.m.k. sums staðar). Nei ekki vegna drullu og skíts heldur sólar...

Nafnlaus sagði...

Velkominn í umferðarmaraþon Reykjavíkur. Mundu olbogaréttinn, óþolinmæði, frekjugang, fuckmerki, vera alltaf 3cm fyrir aftan næsta bíl. Það er síðan alveg nauðsynlegt að taka framm úr bíl ef það er stutt í það að þú þarft að taka beygju. Aka Skólavörðustíginn á minnst 80km hraða. Mjög vinsælt er líka að nota flautuna ósparlega þegar beðið er eftir farþega. Ég þarf greinilega ekki að segja þér frá stefnuljósum og hámarkshraða. Kær kveðja Stefán

Nafnlaus sagði...

jei, merkt á rss listann minn, takk :)