Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, desember 24, 2005

Jólakveðja víóluskrímslisins


Ég óska öllum vinum og vandamönnum, nær og fjær,
gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.


Víóluskrímslið - jólaklukkur klingja

þriðjudagur, desember 20, 2005

Ég er glöð og ég er góð


...því ÉG er komin heim. Ég bý nú í besta yfirlæti í ROTTUHOLUNNI hinni einu og sönnu og sef eins og steinn við undirleik hagléls á þakinu.

Áhugasömum skal tilkynnt að sem fyrr ná má sambandi við vort virðulega sjálf í síma 6943592.


Víóluskrímslið - heima er bezt

laugardagur, desember 17, 2005

Litla systir

Litli grís á afmæli í dag. Hún er heilla 23 ára gömul. Ég er tæpum þremur árum eldri. Þessvegna mun ég aldrei hætta að kalla hana litlu systur - þó við séum báðar strangt til tekið ekkert sérlega litlar lengur.


Víóluskrímslið - hún á ammli í dag...
Sörpræs

Ég var göbbuð í gærkvöldi.

Ég hafði mælt mér mót við vinkonu mína og hélt að við ætluðum í sund. Við fórum ekki í sund.

Þegar ég kom heim í gær gekk ég grunlaus í gegnum eldhúsið og inn í þvottahús til þess að ná í sundbolinn minn. Eldhúsið var skreytt í hólf og gólf. "Hver ætli eigi afmæli" sagði ég við sjálfa mig. Ég hafði varla sleppt orðinu þegar hópur manns stökk út úr þvottahúsinu og æpti á mig

SÖRPRÆS

og svo var blásið í lúðra.

Mér brá svo mikið að ég hló og hló. Svo fékk ég bjór, heilmargar heillaóskir og marga pakka. Eins gott að ég var nýbúin að kaupa mér aðra tösku.

Í ljós kom að Melanie hafði staðið fyrir þessu mikla partísamsæri vina minna og að undirbúningur hefði staðið yfir í á aðra viku. Þeim fannst magnað að mig skyldi ekki hafa grunað neitt enda voru víst vísbendingar á hverju strái. Ég hins vegar fatta aldrei neitt svona auk þess sem ég er oft auðtrúa með afbrigðum.

Það var mikið fjör í partíinu og þeir síðustu fóru klukkan að ganga fjögur í nótt. Ég dundaði mér við að setja tómar bjórflöskur í kassa áður en ég fór í rúmið. Það var nett skemmtilegt.


Víóluskrímslið - sörpræsd?

miðvikudagur, desember 14, 2005

Síðustu dagar Sókratesar

Ég kem heim á sunnudaginn. Því miður missi ég af aðventutónleikum Mugisons, Hjálma og Trabants á NASA. Þar hefði mér þótt gaman að vera. Til að bæta mér skaðann að nokkru leyti hlóð ég plötunni Song Review með Stevie Wonder inn á tölvuna mína, hlusta á hana öllum stundum og syng hástöfum með með nýju kvefuðu viskíröddinni minni. Það var eins og við manninn mælt að þegar lýsið mitt kláraðist fékk ég kvef.

Nú er bara að rumpa af síðustu verkefnunum, fara í eins og eitt tæknipróf og flytja. Auk þess þarf að kveðja heilan helling af fólki sem hefur bitið það í sig að það muni sakna mín á meðan ég er í burtu. Það er töluverðum vandkvæðum bundið þar eð það komast ekki fleiri en 5 manns inn í eldhúskytruna í Húsi hinna töfrandi lita - svo vel sé.

Þessvegna verður matarboð annað kvöld og föstudagskvöld og partí á laugardag. Jibbíkóla.

Brátt mun H-land hverfa mér sjónum í heila 9 mánuði og Finnland tekur við með sínum þúsund vötnum. Þegar einn félaga minna spurði mig hvort ég myndi sakna H-lands vafðist mér tunga um tönn. Svo laust svarinu niður í kollinn á mér eins og eldingu. " Nei, " sagði ég, " ég mun ekki sakna landsins baun. En ég mun sakna ykkar allra. "

Það er líka alveg rétt.

Það væri alveg eftir mér að fara að grenja í þessu fjandans partíi.


Víóluskrímslið - Ebony, Ivory

mánudagur, desember 12, 2005

Mahler

Um skeið hefur hópur rótlausra ungmenna verið til töluverðra vandræða á torginu fyrir framan konservatoríið. Allan daginn hanga börnin á torginu og í portinu við skólann og dunda sér við að reykja hass, drekka ódýran bjór, rífast, ergja vegfarendur og reyna að leika listir sínar á hjólabretti. Ég segi reyna vegna þess að það er ekki sjálfgefið að halda jafnvægi á hjólabretti þegar fólk er búið að reykja hass og drekka bjór ofan í það allan daginn.

Bæjaryfirvöld höfðu reynt ýmislegt til að fá krakkana burt af torginu en ekki haft erindi sem erfiði. Þar til þau duttu niður á töfralausn sem reynd hafði verið í Rotterdam með góðum árangri. Klassíska tónlist.

Svo virðist sem klassísk tónlist hafi svipuð áhrif á þennan þjóðfélagshóp og hátíðnihljóð hafa á rottur. Enda hurfu ungmennin rótlausu eins og hendi væri veifað þegar Mahlersinfóníur hófu að hljóma úr hátölurum umhverfis torgið. Allan daginn.

Mikið var vinalegt að koma út úr skólanum á autt torgið (almennir borgarar virðast forðast Mahler jafnmikið og vandræðabörnin) og labba yfir það án þess að eiga það á hættu að fá framan á sig skakkan hjólabrettadreng eða drukkna smástelpu í leit að vandræðum. Mahler blífur!

En Adam var ekki lengi í paradís. Það leið ekki á löngu áður en mér var farið að líða eins og Mahlerhrjáðum götukrökkum heima hjá mér.

Undanfarnar 2 vikur hefur Luis nefnilega æft bassapartinn í Jólaóratóríu Bachs ALLAN DAGINN. Eins og Jólaóratórían er stórkostlegt verk er bassaparturinn einn og sér ekkert sérstakur. Þó ljótt sé frá að segja fæ ég æluna upp í háls núorðið um leið og Luis byrjar að stilla bassann. Þar er illa farið með góða músík.

Ég ætti kannski að fá mér hjólabretti.


Víóluskrímslið - helvítis IV V I6/4 V I alltaf hreint

laugardagur, desember 10, 2005



hefur það sannast enn á ný að við Íslendingar erum fallegastir, sterkastir, gáfaðastir og bestastir í öllu.

Það er ekkert annað.

Ungfrú Heimi óska ég góðs gengis í lögfræðináminu.


Víóluskrímslið - stefnir á heimsyfirráð

föstudagur, desember 09, 2005

Sjónvarp

Ég flutti að heiman haustið 1999. Síðan þá hef ég ekki átt sjónvarp. Ekki get ég sagt að ég hafi saknað þess mikið enda fanatískur bókasafnari - eins og allir þeir sem einhvern tímann hafa hjálpað mér að flytja hafa kynnst.

Ég geri heldur ekki ráð fyrir að eignast sjónvarp í bráð. Það sem helst fælir mig frá því er sú staðreynd að maður getur ekki verið sinn eiginn dagskrárgerðarmaður. Ekki er enn sjálfgefið að kveikja á sjónvarpinu og sjá aðeins fram á sérvalda nördadagskrá að hætti víóluskrímslisins sem inniheldur vel gerðar bíómyndir með sögulegu ívafi, heimildamyndir og alvöru sjónvarpsþáttaraðir. Eins og Jeeves og Wooster.

Önnur ástæða þess að sjónvarp er ekki nauðsynlegt á mínu heimili er skynsamlegasta fjárfesting sem ég hef ráðist í fyrir utan hljóðfærin mín, kjöltutölvan Herbert. Með Herbert að vopni get ég fylgst með fréttum, séð stöku vandamálakastljós og svalað sorpþörfinni með flakki um öldur alnetsins. Ekki spillir fyrir að Herbert er búinn allri nýjustu nútímatækni og ekki þarf nema létta snertingu með vísifingri hægri handar til þess að hann geri allt sem ég vil.

Í dag steig ég stórt skref í þróun eigin dagskrárgerðar og fjárfesti í mínum fyrsta dvd disk, BBC sjónvarpsþáttaröðinni um Kládíus Rómarkeisara og hans fjölskylduvandamál. 10 klukkutímar af sagnfræði stendur á hulstrinu. Sagnfræði, einmitt. Gerist það nördalegra? Eða betra?


Víóluskrímslið - ég held ekki

miðvikudagur, desember 07, 2005

Spennulosun

Keðjan datt fjórum sinnum í röð af hjólinu mínu í örstuttri bæjarferð í dag.

Þegar það gerðist í fjórða skiptið var mér nóg boðið. Ég stökk af hjólinu, grýtti því utan í vegginn á ráðhúsinu og sparkaði ítrekað í það með tilheyrandi munnsöfnuði.

Ég sparkaði í góða stund í hjólið og losnaði þar með við heilmikla spennu og stress. Svo kom rigning og ég nennti þessu ekki lengur.

Nú er andlegt ástand mitt afar stöðugt. Hins vegar er hjólinu ekki viðbjargandi. Það verður ekki bæði sleppt og haldið...


Víóluskrímslið - ofbeldishneigt
Skemmdarstarfsemi

Í skólanum mínum er haldið úti söngleikjadeild. Fyrir þá sem ekki vita er söngleikjadeild staður þar sem náttúruröddum er umturnað og breytt í eitthvað annað - og verra.

Á loftinu í Húsi hinna töfrandi lita býr 19 ára piltungur sem í haust hóf nám við téða söngleikjadeild. Þá hafði hann fallega hlýja baritónrödd sem helst minnti á Pál Óskar í ljúfum ballöðufíling. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Eftir nokkurra mánaða "skólun" er kominn leiðinlegur hvellur frekjuhljómur í þessa annars fallegu rödd. Náttúrulegt víbratóið er orðið að kindajarmi, slepjuleg glissandó eru daglegt brauð og glassúrinn drýpur af hverri nótu.

Þar fór góður biti í hundskjaft.


Víóluskrímslið - Hollywood, Hollywooood

þriðjudagur, desember 06, 2005

BAT

Brabants Afval Team (ruslalið Brabant héraðs) kom við nú í hádeginu og sótti sófann minn og kommóðuna. Áður höfðum við Melanie stefnt heilsu okkar og sálarheill í voða við að koma draslinu niður stigann án þess að brjóta handriðið af í leiðinni.

Nú eru sófinn og kommóðan á leið til Stichting La Poubelle sem er stofnun sem hefur það að markmiði að halda Tilburgskum rónum á lífi með matargjöfum og öðru skyldu. Sófinn á eftir að sóma sér vel í þeim félagsskap enda sérdeilis flottur.


Skrímslablómið

Pálmatréð mitt hefur vaxið heilmikið í haust. Nú er svo komið að efstu blöðin beyglast upp við loftið í herberginu. Ef þetta heldur svona áfram verð ég að saga gat á loftið eins og gert var í jólabókinni um Snúð og Snældu.


Rétt ókomin - farin

Í gærkvöldi var ég spurð að því hvernig mér fyndist að vera að fara burt innan tveggja vikna. Ég játaði að ég væri ekki farin að velta því fyrir mér. Það fannst viðstöddum afar undarlegt. Kannski er ég einhverf eftir alltsaman.


Víóluskrímslið - smoke on the water

sunnudagur, desember 04, 2005

Tækniundur nútímans

Ég sit hér í ruslahaugnum sem á að heita herbergið mitt og flokka dótið mitt. Ófáar ferðir hafa þegar verið farnar niður stigann með ferska ruslapoka á leið í sína síðustu ferð. Magnað hvað manni tekst að safna miklu af drasli á því að vera fastur á sama stað í nokkur ár.

Undir tiltektinni malar ríkisútvarpið rás eitt góðan dag. Enn eitt undur alnetsins sem gleður gömul bráðum 26 ára hjörtu.


Drengjasópran

Þegar ég hlustaði á engiltæra rödd Ísaks Ríkharðssonar drengjasóprans í Kastljósinu á öldum internetsins í fyrrakvöld gat ég ekki annað en samglaðst drengnum yfir því að vera fæddur á Íslandi á 20. öld en ekki á Ítalíu fyrir 300 árum.

Við vitum öll hvað hefði gerst.


Smákökur

Við Annegret brettum upp ermar í gærkvöldi og bökuðum smákökur. H-lenskir sambýlingar mínir áttu ekki til orð. Til hvers að baka kökur ef maður getur keypt þær út í búð?

Þetta lýsir þjóð sem kann hvorki að elda né njóta þess að borða. Enda er þjóðarrétturinn kartöflumús með káli.


Víóluskrímslið - piparkökur best

fimmtudagur, desember 01, 2005

Gleðilega hátíð

Gleðilegan fullveldisdag. Foreldrar mínir eiga grilljón ára brúðkaupsafmæli í dag enda eru þau sniðugt fólk sem lét pússa sig saman á degi sem auðvelt er að muna eftir. Í ár fá þau stóra gjöf í tilefni dagsins, litli grís kemur heim frá fjarlægum löndum til að skemmta fjölskyldunni með upplestri á aðventunni.


Bitri víóluleikarinn

Ég skilaði af mér síðustu verkefnunum í útsetningakúrsi kennaranema í fyrradag. Kennarinn leit flissandi yfir möppuna. Svo spurði hann mig hvort ég væri haldin áfallaröskun eftir að hafa spilað of margar Haydn sinfóníur um ævina. Það er nokkuð til í því. Ég sem bitur víóluleikari er löngu búin að fá leiða á hryllilega óspennandi úmbí-úmbí pörtum á meðan helv.... fyrsta fiðla fær allt skemmtilega stöffið.

Ég lít á mig sem réttsýnan útsetjara og gef öllum séns. Þessvegna fá aðrar fiðlur oftar en ekki laglínuna á móti öðru óbói... og annað horn fær sóló. Víólurnar glansa með öðru klarinetti og kontrabassarnir fá ástæðu til að mæta á æfingar.

Kennaranum fannst þetta skemmtilega kommúnísk afstaða. Og gaf mér 9,5.


Víóluskrímslið - gerir lífið skemmtilegra