Síðustu dagar Sókratesar
Ég kem heim á sunnudaginn. Því miður missi ég af aðventutónleikum Mugisons, Hjálma og Trabants á NASA. Þar hefði mér þótt gaman að vera. Til að bæta mér skaðann að nokkru leyti hlóð ég plötunni Song Review með Stevie Wonder inn á tölvuna mína, hlusta á hana öllum stundum og syng hástöfum með með nýju kvefuðu viskíröddinni minni. Það var eins og við manninn mælt að þegar lýsið mitt kláraðist fékk ég kvef.
Nú er bara að rumpa af síðustu verkefnunum, fara í eins og eitt tæknipróf og flytja. Auk þess þarf að kveðja heilan helling af fólki sem hefur bitið það í sig að það muni sakna mín á meðan ég er í burtu. Það er töluverðum vandkvæðum bundið þar eð það komast ekki fleiri en 5 manns inn í eldhúskytruna í Húsi hinna töfrandi lita - svo vel sé.
Þessvegna verður matarboð annað kvöld og föstudagskvöld og partí á laugardag. Jibbíkóla.
Brátt mun H-land hverfa mér sjónum í heila 9 mánuði og Finnland tekur við með sínum þúsund vötnum. Þegar einn félaga minna spurði mig hvort ég myndi sakna H-lands vafðist mér tunga um tönn. Svo laust svarinu niður í kollinn á mér eins og eldingu. " Nei, " sagði ég, " ég mun ekki sakna landsins baun. En ég mun sakna ykkar allra. "
Það er líka alveg rétt.
Það væri alveg eftir mér að fara að grenja í þessu fjandans partíi.
Víóluskrímslið - Ebony, Ivory
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli