Heima er bezt Mikið er gott að vera kominn heim. Miðnætursólin sem gægist inn um gluggann núna á sinn hlut í því. Maður nennir ekki að fara að sofa. Reglulegt H-lenskt líferni mitt er farið norður og niður enda ógerningur að halda slíku við í landi þar sem sólin sest ekki. Annegret vinkona mín og bekkjarsystir hélt í gær til H-lands eftir tveggja vikna dvöl. Okkur tókst að koma heilmiklu í verk. Við stunduðum víóluhátíðina 2005 af miklu kappi og fengum að spila fyrir Lars Anders Tomter. Það var gaman. Ekki síður skemmtilegt var að halda tónleika í Víðistaðakirkju sem voru ágætlega sóttir. Síðast en ekki síst lögðumst við í ferðalög með mömmu og pabba á trukknum. Sólheimaglottið fór ekki af Annegret allan þann tíma sem hún dvaldist á Íslandi. Mér tókst meira að segja að fá hana til að borða harðfisk. Henni fannst hann góður og gerði sér ferð í Kolaportið til að kaupa meira. Það fannst mér merkilegt fyrir þær sakir að Annegret hefur verið ströng grænmetisæta í meira en fimm ár. Mér leið eins og ég hefði afhommað einhvern. Svakalegt. Þegar Annegret var komin aftur til H-lands sendi hún mér skilaboð um að þar væri allt dimmt. Kannski að harðfiskurinn og súkkulaðikúlurnar sem hún birgði sig upp af í Bónus hjálpi eitthvað til við að berjast gegn skammdegisþunglyndinu sem henni finnst öruggt að sé í uppsiglingu eftir birtufyllerí síðustu vikna. Vonum það. Næstu daga og vikur ætla ég að vera sniðug og æfa mig áður en ég byrja að vinna í lok mánaðarins. Þá tekur við vaktapartí þar sem ég vaki á mínum eðlilega tíma - eða á næturnar. Með hliðsjón af öllu þessu ofboðslega annríki sem mun að öllum líkindum felast í því að gera eins lítið og mögulegt er, er einsýnt að ég hef engan tíma fyrir reglulegar skýrslugerðir. Ég kveð því í bili. Gleðilega hátíð með morgni. Sjáumst í útlegðinni í haust.
Víóluskrímslið - lifið heil |
Illgirni og almenn mannvonska
föstudagur, júní 17, 2005
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)