Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, desember 30, 2008

Laugardagskvöld

Þökk sé drengjunum í Baggalúti hef ég legið í stanslausum hláturskrampa í umþaðbil 2 mínútur og 43 sekúndur.

Enda er textinn við lagið ,,Laugardagskvöld" hlaðinn svo mörgum dæmum um vafasamt málfar að annað eins hefur varla heyrst síðan Bó Hall leystist upp í læðing og lífgaði tímans svörð.

Appelsínugult og aflitað með afbrigðum!

Víóluskrímslið - það var sagt mér að það væri partí hérna...

laugardagur, desember 27, 2008

Gleðileg jól!

Á þriðja degi jóla er loks svo komið að mér hefur tekist að snúa sólarhringnum við. Hér er lesið fram á miðjar nætur (í fjarveru dr. Tóts sem er á bakvakt í Borgarnesi) og vaknað um hádegi - oftar en ekki með sofandi kött á hausnum. Fátt býður upp á meiri sálarfrið en að stinga nefinu í sofandi kattarbelg og deila draumum um harðfisk og samankrumpuð sælgætisbréf sem gaman er að troða undir sófa.

Aðfangadagskvöldi eyddum við dr.Tót á bakvaktinni, átum þrímælt og tókum upp margar góðar gjafir þar til löngu eftir miðnætti. Öllu var tjaldað til til þess að gera læknabústaðinn sem heimilislegastan. Þegar búið var að slökkva öll rafmagnsljós og kveikja á ótal kertum var orðið ansi hátíðlegt. Rauða glimmer- ferðajólatréð gerði heilmikið fyrir stemmninguna.

Í dag er rétt rúm vika eftir af fríinu. Ég ætla að liggja í leti fram á síðasta dag. Enda verður spýtt í lófana þegar skólinn byrjar aftur. Það verður fjör.

Víóluskrímslið - vill meiri Sturlungu

föstudagur, desember 19, 2008

Jólaóða konan

Ég er komin í jólafrí. Næstu daga verður jólast af krafti sem aldrei fyrr. Þegar hef ég náð að afreka ýmislegt á jólasviðinu, er búin að baka smákökur - og borða þær, búa til konfekt - og borða það, búa til músastiga með dyggri aðstoð kattanna og hengja upp seríur. Flestir jólapakkarnir eru komnir í hús. Auk þess eru jólakortin handgerð í ár.

Dr. Tót hefur löngum gefið sig út fyrir að vera and-jólalegur með afbrigðum. Mér skilst að tilvist mín og jólastuð séu orðin daglegur brandari á kaffistofunni á heilsugæslunni í Borgarnesi, þar sem dr. Tót eyðir miklum tíma þessa dagana. Það gerir þó ekkert til þess að draga úr mér í jólaundirbúningnum, nei þvert á móti. Þegar dr. Tót kemur heim eftir vaktina um helgina mun hann hitta fyrir hamingjusamt jólaskrímsl og jólaskreytta íbúð.

Jólin eru mér lífsnauðsynleg. Það er frábært að fá tækifæri til að klippa skammdegið í tvennt og gera sér dagamun þegar myrkrið ætlar alla lifandi að drepa, ekki síst nú þegar góðar fréttir eru ekki á hverju strái. Auk þess kemst maður hvergi í betra samband við almættið í sjálfum sér en á jólanótt með bók í hönd og konfekt í seilingarfjarlægð.

Víóluskrímslið - jólin alls staðar

miðvikudagur, desember 03, 2008

Ég mótmæli öll

Í dag er miðvikudagur. Miðvikudagar eru undirbúningsdagar, ég útset, tónflyt og tíni til gögn til ljósritunar, skipulegg hljómsveitastarf, spjalla við foreldra og gramsa í nótnasöfnum. Yfirleitt gengur mér vel að koma mér að verki enda finnst mér gaman í vinnunni. Í dag var annað uppi á teningnum.

Ekki það að verkefnin sem biðu væru leiðinleg eða óáhugaverð. Síður en svo. Ég var meira að segja búin að hlakka til þeirra flestra. Hins vegar gekk ekkert að koma mér að verki. Ég settist við tölvuna til að vinna við útsetningu en datt ekkert í hug. Það var bara eitthvað sem var ekki eins og það átti að vera.

Kannski var það myrkrið, kuldinn eða sú staðreynd að Melroses te var uppselt í Bónus þegar ég kom þar um hádegið. Kannski hafði það áhrif að atvinnuleysið er farið að klóra í innsta hring fjölskyldunnar. Kannski var það tilhugsunin um að tónlistarskólar eru ekki lögbundnar stofnanir og hægt að leggja þá niður með einu pennastriki á bæjarstjórnarfundi. Kannski tilhugsunin um að allar áætlanir um framtíðina eru í uppnámi og að vel geti farið svo að við verðum fangar í eigin landi um ókomna tíð.

Hverju sem um var að kenna var doðinn slíkur að ég gat étið heilan pakka af Remi súkkulaðikexi án þess að það hefði minnstu áhrif. Þess vegna ætla ég að fara á Austurvöll á laugardaginn með tæplega áttræðri ömmu minni og hrópa ókvæðisorð að stjórnvöldum. Það hressir bætir og kætir.

Víóluskrímslið - fullt af heift