Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, desember 19, 2008

Jólaóða konan

Ég er komin í jólafrí. Næstu daga verður jólast af krafti sem aldrei fyrr. Þegar hef ég náð að afreka ýmislegt á jólasviðinu, er búin að baka smákökur - og borða þær, búa til konfekt - og borða það, búa til músastiga með dyggri aðstoð kattanna og hengja upp seríur. Flestir jólapakkarnir eru komnir í hús. Auk þess eru jólakortin handgerð í ár.

Dr. Tót hefur löngum gefið sig út fyrir að vera and-jólalegur með afbrigðum. Mér skilst að tilvist mín og jólastuð séu orðin daglegur brandari á kaffistofunni á heilsugæslunni í Borgarnesi, þar sem dr. Tót eyðir miklum tíma þessa dagana. Það gerir þó ekkert til þess að draga úr mér í jólaundirbúningnum, nei þvert á móti. Þegar dr. Tót kemur heim eftir vaktina um helgina mun hann hitta fyrir hamingjusamt jólaskrímsl og jólaskreytta íbúð.

Jólin eru mér lífsnauðsynleg. Það er frábært að fá tækifæri til að klippa skammdegið í tvennt og gera sér dagamun þegar myrkrið ætlar alla lifandi að drepa, ekki síst nú þegar góðar fréttir eru ekki á hverju strái. Auk þess kemst maður hvergi í betra samband við almættið í sjálfum sér en á jólanótt með bók í hönd og konfekt í seilingarfjarlægð.

Víóluskrímslið - jólin alls staðar

Engin ummæli: