Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, desember 03, 2008

Ég mótmæli öll

Í dag er miðvikudagur. Miðvikudagar eru undirbúningsdagar, ég útset, tónflyt og tíni til gögn til ljósritunar, skipulegg hljómsveitastarf, spjalla við foreldra og gramsa í nótnasöfnum. Yfirleitt gengur mér vel að koma mér að verki enda finnst mér gaman í vinnunni. Í dag var annað uppi á teningnum.

Ekki það að verkefnin sem biðu væru leiðinleg eða óáhugaverð. Síður en svo. Ég var meira að segja búin að hlakka til þeirra flestra. Hins vegar gekk ekkert að koma mér að verki. Ég settist við tölvuna til að vinna við útsetningu en datt ekkert í hug. Það var bara eitthvað sem var ekki eins og það átti að vera.

Kannski var það myrkrið, kuldinn eða sú staðreynd að Melroses te var uppselt í Bónus þegar ég kom þar um hádegið. Kannski hafði það áhrif að atvinnuleysið er farið að klóra í innsta hring fjölskyldunnar. Kannski var það tilhugsunin um að tónlistarskólar eru ekki lögbundnar stofnanir og hægt að leggja þá niður með einu pennastriki á bæjarstjórnarfundi. Kannski tilhugsunin um að allar áætlanir um framtíðina eru í uppnámi og að vel geti farið svo að við verðum fangar í eigin landi um ókomna tíð.

Hverju sem um var að kenna var doðinn slíkur að ég gat étið heilan pakka af Remi súkkulaðikexi án þess að það hefði minnstu áhrif. Þess vegna ætla ég að fara á Austurvöll á laugardaginn með tæplega áttræðri ömmu minni og hrópa ókvæðisorð að stjórnvöldum. Það hressir bætir og kætir.

Víóluskrímslið - fullt af heift

Engin ummæli: