Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Minn eigin persónulegi sauðsskapur

Mér er sagt að ég geti stundum verið afar utan við mig. Ég tek sjaldnast eftir því - nema þegar ég geng á staura, helli sjóðandi vatni yfir höndina á mér, fæ flautukór í hausinn því ég gleymi að taka af stað á grænu, hrasa um gangstéttarbrúnir, læsi mig úti og fleira skemmtilegt.

Það kemur einfaldlega stundum fyrir að ég er svo þungt hugsi yfir einhverju sem hvílir á mér þá stundina að ég tek ekki alveg nógu vel eftir því sem er að gerast í kringum mig. Eins og í dag.

Í hádeginu kom ég við í veitingasölu KS í Varmahlíð og fékk mér þar hádegisverð. Ég fékk fínt rúnstykki á disk og skyrdrykk á bakka og var heldur kát með mitt. Rúnstykkið bragðaðist vel enda með miklu smjöri og skyrdrykkurinn var langt frá því að vera á síðasta söludegi. Ég var því afar sátt þar sem ég sat og át, með útsýni yfir í Blönduhlíðina í sól og blíðu. Á meðan ég snæddi renndi ég yfir verkefni næstu vikna í höfðinu. Stigspróf og útskriftir eru á næsta leiti og krakkarnir mis vel á vegi stödd. Skipulagningin sóttist vel, þegar ég renndi niður síðustu dropunum af skyrdrykknum (með jarðarberjabragði) var ég búin að skapa hernaðaráætlun fyrir allan hópinn.

Ég var voða montin. Svona á að gera þetta, hugsaði íslenski vinnualkinn, nota hádegisverðinn til þess að skipuleggja vinnuna. Ég var svo ánægð með þetta að ég ákvað að létta undir með afgreiðslufólkinu og fleygja sjálf af bakkanum mínum. Það var ekki fyrr en ég heyrði hávaðann í ruslatunnunni að ég áttaði mig á því að ég hafði fleygt disknum undan rúnstykkinu í ruslið.

Nei andskotinn....hugsaði ég og flissaði örlítið yfir mínum eigin sauðsskap. Ég leit í kringum mig til þess að athuga hvort einhver hefði orðið vitni að þessu afreki. Enginn virtist hafa orðið var við neitt. Ég gjóaði augunum ofan í ruslið en diskurinn var horfinn sjónum. Ég leit aftur í kringum mig. Ofan í ruslið. Svo hljóp ég út.

Það var nú gott að þetta var bara diskur.


Víóluskrímslið - vandráður viðutan

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Óperur
Óperur eru merkilegt listform. Allt frá þeim dögum þegar geldingarnir sigruðu heiminn klæddir kvenfötum og riddarabrynjum á víxl til okkar tíma þar sem karlar og konur þenja raddböndin hægri vinstri og allt um kring hafa þær heillað fjöldann allan af tónlistarunnendum og enn fylla kassastykkin óperuhús um allan heim.
Óperur hafa oftar en ekki svakalega flókinn söguþráð. Til dæmis gæti ópera auðveldlega verið á þessa leið:

Kona verður ástfangin af manni sem kemur svo í ljós að er bróðir hennar. Eftir mikinn grát og gnístran tanna, margar hálftíma kveðjusenur, nokkur skrímsli, óveður með vindvél, svikular vinkonur, undirförula vonbiðla, trygga garðyrkjumenn með gúmmíendur og misheppnaða sjálfsmorðstilraun aðalpersónunnar með klósetthreinsi kemur í ljós að hinn heittelskaði reynist vera hálfbróðir systur frænda hennar í fimmta lið og þá brestur á mikil gleði. Óperan endar með tvöföldu brúðkaupi elskendanna og garðyrkjumannsins og gúmmíandarinnar hans og fagna hlutaðeigendur með svaka löngu tríói þar sem tístið í gúmmíöndinni leikur stórt hlutverk.

Það er ekkert skrítið að óperur skuli vera mönnum hugleiknar þegar þær bjóða upp á svona fjör.

Þessa dagana stendur ópera Skagafjarðar fyrir vasauppfærslu af La Traviata. Þar koma fram afturbata vændiskonur, siðavandir feður, óðir ástmenn, stanslaus partí og svall, dularfullir samningar, heitrof, geðveiki og svo deyja allir úr berklum. Að ekki sé minnst á DÖMUBINDALAGIÐ víðsfræga!

Ég held að ég geti lofað mönnum góðri skemmtun á sunnudag komanda. Allir á óperuna!

Víóluskrímslið - MIMI


laugardagur, apríl 21, 2007

Nú er sumar, gleðjist gumar

Gleðilegt sumar!

Það var ekki sumarlegt um að litast á Öxnadalsheiðinni í morgun. Ég var þar á ferð klukkan átta í morgun á leiðinni á æfingu á Akureyri fyrir uppsetningu Óperu Skagafjarðar á La Traviata. Það var snjór og krap en þó komst ég ei í hátíðarskap. Öllu skemmtilegri sjón en snjórinn var litla lambið sem ég rak augun í komin hálfa leið út í Varmahlíð. Þó mátti litlu muna að illa færi þar sem ég glápti svo stíft á lambið að ég var næstum farin útaf veginum.

Mig vantar stundum auka augu.

Í fyrramálið klukkan 11 stundvíslega heldur Strengjadeild Tónlistarskóla Skagafjarðar vortónleika þar sem fram koma heilar 4 hljómsveitir skipaðar nemendum mínum. Það verða án efa hressandi tónleikar.

Mig vantar stundum fleiri tíma í sólarhringinn.

Þegar ég var að skoða skóladagatalið í fyrradag rann upp fyrir mér að kennslu fer senn að ljúka. Og ég sem á eftir að kenna þeim svo margt.

Mig vantar stundum auka daga í árið.


Víóluskrímslið - sömar

föstudagur, apríl 13, 2007

Ungfrú Reykjavík

Mér finnst fegurðarsamkeppnir frábært skemmtiefni enda afar fyndin og sérkennileg fyrirbæri. Útsending Skjás Eins á Ungfrú Reykjavík var þar engin undantekning. Það fyndnasta var þó ekki stúlkurnar sjálfar, með sín heltönuðu skinn og frosnu flúrljósabros, heldur áhorfendurnir. Frammíköllin, píkuskrækirnir og gólin voru slík að mér fannst ég vera að horfa á íþróttakappleik af grófustu sort.

Ég vona að þetta sé vísbending um hugarfarsbreytingu. Nú hlýtur næsta skref að vera það að stúlkurnar fái að klæðast fötum í keppninni.


Mjá

Nú um helgina lít ég eftir kattasafni Hönnu og co. þar sem þau eru öll fyrir sunnan. Áðan sat ég og horfði á fréttirnar með aldursforsetann, hann Rúfus, á hnjánum. Þegar sýnt var frá aðalfundi Sjálfstæðisflokksins stóð hann upp og fór. Svo kom hann aftur þegar Eurovision þátturinn byrjaði. Kettir eru óvitlausir.


Fjaran

Í dag átti ég frí. Það gerist ekki oft. Þessvegna fór ég út í fjöru að leika mér í morgun. Íklædd mínum ljóta jogginggalla með hettuna á hausnum og rauðan prjónatrefil um hálsinn hef ég eflaust ekki komið neitt sérlega virðulega fyrir. Mér er skítsama. Það var svo gott veður og Drangey ljómaði við sjónarrönd.


Víóluskrímslið - glad