Gæludýr
Þeir lesendur sem voru fastagestir í Rottuholunni á dýrðarárunum 1999-2002 muna eflaust eftir páfagaukaelliheimilinu í eldhúsinu. Þar rak ég hjúkrunarheimili fyrir eldri gára sem auk fæðis og húsnæðis nutu þar félagskapar hvers annars og flugu hringi um eldhúskytruna, mörgum mennskum gestum til almennrar hrellingar.
Mér þótti afar vænt um þau Tístu, Kíkí, Pásu, Kasper og Friðgerði. Þegar ég gisti í rottuholunni í sumar rakst ég á uppþornað drit í eldhúsinu sem mér hafði af einhverjum ástæðum sést yfir þegar ég yfirgaf íbúðina haustið 2002. Þá hlýnaði mér um hjartarætur.
Síðan þá hef ég ekki átt þess kost að eiga gæludýr enda býður óreglulegt líferni og sífellt flakk milli landa ekki upp á slíkt. Ég hef þess í stað hænt að mér spörfugla með matargjöfum og notið heimsókna katta úr nágrenninu sem stundum hefur þóknast að heiðra mig með návist sinni. Það jafnast þó ekki á við það að eiga sitt eigið gæludýr.
Ég hlakka til að koma heim því þá ætla ég að fá mér kött. Ekki mús eða fisk, fugl eða úlf, heldur bröndótt fjósafress sem á að heita Bismarck. Hann skal vera feitur og fallegur, skapgóður og mjálmgefinn. Á hann ætla ég að festa bjöllu og spjald og við getum malað saman á kvöldin.
Víóluskrímslið - mjá.
Illgirni og almenn mannvonska
mánudagur, október 30, 2006
fimmtudagur, október 26, 2006
Þau munu erfa landið
Þegar ég hljóp meðfram síkinu í eftirmiðddaginn í dag í nýju hlaupaskónum mínum með bleiku röndinni kom hópur gelgreiddra strákorma á hjólum á móti mér. Þar sem ég geystist fram hjá þeim á svo gríðarlegum hraða að merkið á joggingpeysunni sem pabbi fékk í fimmtugsafmælisgjöf sást varla æpti einn þeirra á eftir mér:
Hí á þig þú þarna með litlu brjóstin!
Blessuð börnin.
Víóluskrímslið - tollir í tískunni
Þegar ég hljóp meðfram síkinu í eftirmiðddaginn í dag í nýju hlaupaskónum mínum með bleiku röndinni kom hópur gelgreiddra strákorma á hjólum á móti mér. Þar sem ég geystist fram hjá þeim á svo gríðarlegum hraða að merkið á joggingpeysunni sem pabbi fékk í fimmtugsafmælisgjöf sást varla æpti einn þeirra á eftir mér:
Hí á þig þú þarna með litlu brjóstin!
Blessuð börnin.
Víóluskrímslið - tollir í tískunni
mánudagur, október 23, 2006
Góðir vinir
Um síðastliðna helgi hitti ég fimm manns sem ég hafði ekki séð í marga mánuði. Þetta voru þau Anna Hinkkanen, Annegret, Luis, Laura og síðast en ekki síst dr. Tót - sem þökk sé æðri máttarvöldum gat stungið af til Amsterdam yfir helgina.
Öll tókum við vandræðalaust upp þráðinn þar sem frá var horfið. Það er nefnilega þannig með sumt fólk að sama hversu langur tími líður á milli þess að maður hittir það líður manni ávallt eins og það hafi síðast gerst í gær.
Víóluskrímslið - jibbíkóla
Um síðastliðna helgi hitti ég fimm manns sem ég hafði ekki séð í marga mánuði. Þetta voru þau Anna Hinkkanen, Annegret, Luis, Laura og síðast en ekki síst dr. Tót - sem þökk sé æðri máttarvöldum gat stungið af til Amsterdam yfir helgina.
Öll tókum við vandræðalaust upp þráðinn þar sem frá var horfið. Það er nefnilega þannig með sumt fólk að sama hversu langur tími líður á milli þess að maður hittir það líður manni ávallt eins og það hafi síðast gerst í gær.
Víóluskrímslið - jibbíkóla
miðvikudagur, október 18, 2006
Fyrir áhugamenn um germanska menningu
mæli ég með þessu hér. Ekki spillir fyrir hvað lagið er skemmtilegt og grípandi.
Aaaadolf....
Víóluskrímslið - ich kapituliere nicht!
mæli ég með þessu hér. Ekki spillir fyrir hvað lagið er skemmtilegt og grípandi.
Aaaadolf....
Víóluskrímslið - ich kapituliere nicht!
mánudagur, október 16, 2006
laugardagur, október 14, 2006
Dagar víns og rósa
Það rann upp fyrir mér áðan þegar ég var að sækja hjólið mitt á viðgerðarverkstæði í þriðja sinn í þessum mánuði að dögum víns og rósa hefur fækkað í lífi mínu undanfarið. Flestir þeirra sem hafa haft það fyrir sið að lyfta með mér glasi af góðu víni yfir spjalli og skemmtisögum eru horfnir af landi brott eða fluttir í sollinn í Amsterdam, Utrecht og Rotterdam og ég hef absolút engan áhuga á að fara á kojufyllerí með sjónvarpsfréttirnar einar sem félagsskap.
Hvað rósirnar varðar er ekki til blómavasi þar sem ég bý og ég tími ekki að kaupa mér einn. Sýnisdæmi um sjálfskaparvíti og gagnslausa sjálfsvorkunn.
Samt fannst mér þessi líking um daga víns og rósa ansi smellin og flissaði með sjálfri mér í svona 7 og hálfa mínútu. Svo fór ég og keypti mér hnetur.
Víóluskrímslið - segðu það með blómum
Það rann upp fyrir mér áðan þegar ég var að sækja hjólið mitt á viðgerðarverkstæði í þriðja sinn í þessum mánuði að dögum víns og rósa hefur fækkað í lífi mínu undanfarið. Flestir þeirra sem hafa haft það fyrir sið að lyfta með mér glasi af góðu víni yfir spjalli og skemmtisögum eru horfnir af landi brott eða fluttir í sollinn í Amsterdam, Utrecht og Rotterdam og ég hef absolút engan áhuga á að fara á kojufyllerí með sjónvarpsfréttirnar einar sem félagsskap.
Hvað rósirnar varðar er ekki til blómavasi þar sem ég bý og ég tími ekki að kaupa mér einn. Sýnisdæmi um sjálfskaparvíti og gagnslausa sjálfsvorkunn.
Samt fannst mér þessi líking um daga víns og rósa ansi smellin og flissaði með sjálfri mér í svona 7 og hálfa mínútu. Svo fór ég og keypti mér hnetur.
Víóluskrímslið - segðu það með blómum
fimmtudagur, október 12, 2006
Bjánahrollur
Ég fór á tónleika í gær. Hin unga og upprennandi Sinfóníuhljómsveit Amsterdam (Amsterdam Sinfonie Orkest) lék þar sellókonsert Dvoráks og fjórðu sinfóníu Brahms með miklum glæsibrag og ekki spillti fyrir að Lára vinkona mín leiddi sellóin eins og herforingi. Einleikarinn var lítill bólugrafinn Frakki með svo rosalegar krullur að með léttu mætti festa hann í loftið á salnum með frönskum rennilás. Hann kunni sitt fag og vel það. Mikið finnst mér alltaf gaman að hlusta á fólk sem veit hvað það er að gera.
Tónlistin var góð. Góðir spilarar. Ekkert út á það að setja. Hins vegar var framsetningin svo fáránleg að ég sat með lokuð augun alla tónleikana til þess að gefast ekki bjánahrollinum á vald. Hér í H-landi er nefnilega mjög í tísku að "tónlistarmenn myndi persónulegt samband" við tónleikagesti til þess að auka á upplifun þeirra síðarnefndu og eru ýmsar leiðir farnar til þess að ná því takmarki. Í gærkvöldi óð myndatökumaður baksviðs með vídeóvél fyrir tónleikana og terroriseraði sviðsstjórann sem þurfti í smáatriðum að lýsa séróskum sólistans og segja nokkrar gamansögur til þess að skemmta lýðnum frammi í sal. Herlegheitunum var varpað upp á risastórt tjald sem hékk fyrir ofan sviðið. Þegar tónleikarnir hófust færðist myndavélin upp á svið og fengu tónleikagestir að fylgjast náið með hreyfingum sólistans allan konsertinn. Viðkomandi sólisti var einn þeirra sem gretta sig herfilega við hverja einustu stillingaskiptingu og virðast vera að fá hjartaslag í lok hverrar I-V-I kadensu með trillu. Reglulega var varpað upp myndum af Dvorák og tilvitnunum í hljómsveitarstjórann, að því er virtist til að benda tónleikagestum á hvað þeim ætti að finnast í það og það skiptið.
Eftir hlé fengu hljómsveitarmeðlimir að finna fyrir Britney Spears fílingnum þegar myndavélin fór að flakka um sveitina og súmma inn á hvern þann sem var með sóló. Það hefði ekki verið sem verst, hefðu tæknimennirnir ekki verið að klína textum yfir skjáinn í gríð og erg. Tímasetningin var stórkostleg, þegar klarinetturnar voru með sóló stóð: "Brahms hélt svo mikið upp á horn að hann skrifaði öll fallegustu sólóin fyrir það hljóðfæri" og þegar einn slagverksleikaranna hóf að berja þríhornið eins og andsetinn gaf að líta: "pákurnar gefa hljómsveitarverkum aukinn lit og kraft."
Að öðru leyti var myndavélin föst á hljómsveitarstjóranum sem var einn þeirra sem stjórna aðallega með andlitinu og virðast geta gefið mismunandi hljóðfærahópum inn með því að reka út úr sér tunguna í rétta átt. Ég er yfirleitt við hinn enda borðsins þegar svona stendur á og er of upptekin við að skila af mér partinum mínum sómasamlega til að finnast eitthvað athugavert við slíkt athæfi en núna leið mér eins og hefði farið edrú á djammið. Tónleikagestir fylgdust spenntir með hverri hreyfingu hljómsveitarstjórans á meðan ég sökk lengra og lengra ofan í sætið og óskaði þess augnablik að hægt væri að kveikja og slökkva á sýn manns að vild.
Að öllum líkindum var þessi framsetning valin til þess að færa tónlistina nær hinum almenna hlustanda sem vanur er múltímedía umhverfi þar sem öll skynjun er fléttuð saman. Ég höndlaði hana hins vegar mjög illa. Þegar ég fer á tónleika af þessu tagi fer ég til að hlusta, ekki til þess að horfa á grettur hljómsveitarstjórans eða fá að vita hvað fyrsta horn borðar í morgunmat.
Auk þess finnst mér ekki gaman þegar mér er sagt hvað mér eigi að finnast eða fyrir hvers konar hughrifum ég eigi að finna á tónleikum. Þess gerist heldur ekki þörf. Maður þarf ekki að vita neitt um tónlist til þess að geta notið hennar eða haft á henni skoðun. Tónlist er eins og vín. Ég veit ekkert um vín - en ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki.
Hvað finnst ykkur?
Víóluskrímslið - ringlað
Ég fór á tónleika í gær. Hin unga og upprennandi Sinfóníuhljómsveit Amsterdam (Amsterdam Sinfonie Orkest) lék þar sellókonsert Dvoráks og fjórðu sinfóníu Brahms með miklum glæsibrag og ekki spillti fyrir að Lára vinkona mín leiddi sellóin eins og herforingi. Einleikarinn var lítill bólugrafinn Frakki með svo rosalegar krullur að með léttu mætti festa hann í loftið á salnum með frönskum rennilás. Hann kunni sitt fag og vel það. Mikið finnst mér alltaf gaman að hlusta á fólk sem veit hvað það er að gera.
Tónlistin var góð. Góðir spilarar. Ekkert út á það að setja. Hins vegar var framsetningin svo fáránleg að ég sat með lokuð augun alla tónleikana til þess að gefast ekki bjánahrollinum á vald. Hér í H-landi er nefnilega mjög í tísku að "tónlistarmenn myndi persónulegt samband" við tónleikagesti til þess að auka á upplifun þeirra síðarnefndu og eru ýmsar leiðir farnar til þess að ná því takmarki. Í gærkvöldi óð myndatökumaður baksviðs með vídeóvél fyrir tónleikana og terroriseraði sviðsstjórann sem þurfti í smáatriðum að lýsa séróskum sólistans og segja nokkrar gamansögur til þess að skemmta lýðnum frammi í sal. Herlegheitunum var varpað upp á risastórt tjald sem hékk fyrir ofan sviðið. Þegar tónleikarnir hófust færðist myndavélin upp á svið og fengu tónleikagestir að fylgjast náið með hreyfingum sólistans allan konsertinn. Viðkomandi sólisti var einn þeirra sem gretta sig herfilega við hverja einustu stillingaskiptingu og virðast vera að fá hjartaslag í lok hverrar I-V-I kadensu með trillu. Reglulega var varpað upp myndum af Dvorák og tilvitnunum í hljómsveitarstjórann, að því er virtist til að benda tónleikagestum á hvað þeim ætti að finnast í það og það skiptið.
Eftir hlé fengu hljómsveitarmeðlimir að finna fyrir Britney Spears fílingnum þegar myndavélin fór að flakka um sveitina og súmma inn á hvern þann sem var með sóló. Það hefði ekki verið sem verst, hefðu tæknimennirnir ekki verið að klína textum yfir skjáinn í gríð og erg. Tímasetningin var stórkostleg, þegar klarinetturnar voru með sóló stóð: "Brahms hélt svo mikið upp á horn að hann skrifaði öll fallegustu sólóin fyrir það hljóðfæri" og þegar einn slagverksleikaranna hóf að berja þríhornið eins og andsetinn gaf að líta: "pákurnar gefa hljómsveitarverkum aukinn lit og kraft."
Að öðru leyti var myndavélin föst á hljómsveitarstjóranum sem var einn þeirra sem stjórna aðallega með andlitinu og virðast geta gefið mismunandi hljóðfærahópum inn með því að reka út úr sér tunguna í rétta átt. Ég er yfirleitt við hinn enda borðsins þegar svona stendur á og er of upptekin við að skila af mér partinum mínum sómasamlega til að finnast eitthvað athugavert við slíkt athæfi en núna leið mér eins og hefði farið edrú á djammið. Tónleikagestir fylgdust spenntir með hverri hreyfingu hljómsveitarstjórans á meðan ég sökk lengra og lengra ofan í sætið og óskaði þess augnablik að hægt væri að kveikja og slökkva á sýn manns að vild.
Að öllum líkindum var þessi framsetning valin til þess að færa tónlistina nær hinum almenna hlustanda sem vanur er múltímedía umhverfi þar sem öll skynjun er fléttuð saman. Ég höndlaði hana hins vegar mjög illa. Þegar ég fer á tónleika af þessu tagi fer ég til að hlusta, ekki til þess að horfa á grettur hljómsveitarstjórans eða fá að vita hvað fyrsta horn borðar í morgunmat.
Auk þess finnst mér ekki gaman þegar mér er sagt hvað mér eigi að finnast eða fyrir hvers konar hughrifum ég eigi að finna á tónleikum. Þess gerist heldur ekki þörf. Maður þarf ekki að vita neitt um tónlist til þess að geta notið hennar eða haft á henni skoðun. Tónlist er eins og vín. Ég veit ekkert um vín - en ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki.
Hvað finnst ykkur?
Víóluskrímslið - ringlað
þriðjudagur, október 10, 2006
Berlín
Ég var hjá litlu systur í Berlín um helgina og skemmti mér vel. Þau Róbert eru búin að koma sér val fyrir í gríðarflottri íbúð með meiri lofthæð en ég mun nokkru sinni búa við ef fram heldur sem horfir.
Að sjálfsögðu sátum við ekki auðum höndum. Við fórum á stórgott gigg með hljómsveitinni Brainpolice þar sem 3 kynslóðir slömmuðu í takt og undurfagra tónleika með norska drengjakórnum Sölvguttene í Berliner Dom. Auk þess fórum við á nútímalistasafnið Hamburger Bahnhof, testofu þar sem hægt er að fá gott te og rússneska kjötsúpu, á flóamarkað þar sem ég keypti mér marglita afar anníska hliðartösku til að geyma nestið mitt í og í partí þar sem hægt var að klifra upp á þak og skoða stjörnurnar.
Síðast en ekki síst fórum við Margrét og Róbert á myrkraveitingastaðinn Nocti Vagus þar sem snætt er í kolniðamyrkri og maður verður að reiða sig á öll önnur skynfæri til þess að sjá til þess að maturinn fari upp í mann en ekki á gólfið. Tveir ærsladraugar voru meðal gesta og skemmtu okkur með hrekkjum. Við vorum að mestu látin í friði en það gilti ekki um nokkra gesti staðarins sem draugarnir lögðu í hálfgert einelti, sennilega vegna þess að viðkomandi gestir ráku upp svakaleg öskur og píkuskræki í hvert sinn sem draugur potaði í þá. Það var svo ekki fyrr en búið var að leiða okkur aftur upp í ljósið að okkur var tjáð að ið hefðum m.a. borðað krókódíl og strút þarna í myrkrinu. Stórgott.
Þegar ég kom heim var bara ein könguló eftir í íbúðinni. Fegurðardrottningar eiga greinilega ekki skap saman til lengdar.
Víóluskrímslið - snúið aftur til hversdagsleikans
Ég var hjá litlu systur í Berlín um helgina og skemmti mér vel. Þau Róbert eru búin að koma sér val fyrir í gríðarflottri íbúð með meiri lofthæð en ég mun nokkru sinni búa við ef fram heldur sem horfir.
Að sjálfsögðu sátum við ekki auðum höndum. Við fórum á stórgott gigg með hljómsveitinni Brainpolice þar sem 3 kynslóðir slömmuðu í takt og undurfagra tónleika með norska drengjakórnum Sölvguttene í Berliner Dom. Auk þess fórum við á nútímalistasafnið Hamburger Bahnhof, testofu þar sem hægt er að fá gott te og rússneska kjötsúpu, á flóamarkað þar sem ég keypti mér marglita afar anníska hliðartösku til að geyma nestið mitt í og í partí þar sem hægt var að klifra upp á þak og skoða stjörnurnar.
Síðast en ekki síst fórum við Margrét og Róbert á myrkraveitingastaðinn Nocti Vagus þar sem snætt er í kolniðamyrkri og maður verður að reiða sig á öll önnur skynfæri til þess að sjá til þess að maturinn fari upp í mann en ekki á gólfið. Tveir ærsladraugar voru meðal gesta og skemmtu okkur með hrekkjum. Við vorum að mestu látin í friði en það gilti ekki um nokkra gesti staðarins sem draugarnir lögðu í hálfgert einelti, sennilega vegna þess að viðkomandi gestir ráku upp svakaleg öskur og píkuskræki í hvert sinn sem draugur potaði í þá. Það var svo ekki fyrr en búið var að leiða okkur aftur upp í ljósið að okkur var tjáð að ið hefðum m.a. borðað krókódíl og strút þarna í myrkrinu. Stórgott.
Þegar ég kom heim var bara ein könguló eftir í íbúðinni. Fegurðardrottningar eiga greinilega ekki skap saman til lengdar.
Víóluskrímslið - snúið aftur til hversdagsleikans
þriðjudagur, október 03, 2006
Meindýr
Á meðan ég bjó á Íslandi var mér aldrei neitt sérstaklega illa við skordýr. Þegar við Margrét vorum litlar létu mamma og pabbi okkur nefnilega leika okkur með köngulær og ánamaðka til að gera okkur að sterkum og mögnuðum valkyrjum. Það tókst ágætlega.
Þegar ég flutti svo til H-lands komst ég að því að skordýr geta verið ferlega hvimleið og leiðinleg. Mér þótti ekki gaman að stíga berfætt á stökka kakkalakka í morgunsturtunni (gleraugnalaus og allslaus) og ekki fannst mér sjarmerandi að finna maura í matnum mínum. Moskítóflugur hafa haldið fyrir mér vöku margar nætur og silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig nótt og dag. Verst var ástandið í Húsi hinna töfrandi lita, sem eftir á að hyggja getur vart talist mannabústaður.
Nú bý ég í aldeilis ágætri stúdentaíbúð þar sem lítið ber á fyrrnefndum kvikindum enda eru pípulagnirnar í góðu standi. Auk þess límdi ég moskítónet fyrir svefnherbergisgluggann ekki alls fyrir löngu. Eftir standa aðeins tvær sortir, köngulærnar og bévítans ávaxtaflugurnar.
Mér þykir vænt um köngulær. Þær veiða leiðinlegar flugur sem annars færu í taugarnar á mér og sitja rólegar í vefnum sínum þess á milli. Nú búa hjá mér 4 boldungs köngulær og ég fæ ekki betur séð en þar séu þrjár mismunandi tegundir á ferð. Að sjálfsögðu hef ég nefnt þær allar, í stofunni býr Hólmfríður, Linda P í eldhúskróknum, Unnur Birna er í vinstra baðherbergishorninu og Anna Margrét rétt fyrir utan svefnherbergisgluggann.
Um ávaxtaflugur gegnir öðru máli. Þær fjölga sér eins og kanínur og vaða um allt hús á frekjunni einni saman. Þrátt fyrir að fegurðardrottningarnar fjórar geri sitt besta til að vernda mig og heimili mitt gegn þessum skaðræðisdýrum sér ekki högg á vatni eftir daginn. Því tók ég til minna ráða nú í dag. Öllum ávöxtum var troðið í steríla plastsekki og bundið fyrir. Svo tók ég fram handryksuguna.
Hversu margar ávaxtaflugur létu lífið í því eðla tæki veit ég ekki fyrir víst. Hitt veit ég þó að mér þótti afar mikil skemmtun í að ganga frá kvikindunum.
Ég skildi akkúrat nógu margar eftir í kvöldmatinn handa gæludýrunum og skolaði svo ánægð úr síunni. Á morgun ryksuga ég aftur.
Stundum er gaman að vera til.
Víóluskrímslið - lord of the flies
Á meðan ég bjó á Íslandi var mér aldrei neitt sérstaklega illa við skordýr. Þegar við Margrét vorum litlar létu mamma og pabbi okkur nefnilega leika okkur með köngulær og ánamaðka til að gera okkur að sterkum og mögnuðum valkyrjum. Það tókst ágætlega.
Þegar ég flutti svo til H-lands komst ég að því að skordýr geta verið ferlega hvimleið og leiðinleg. Mér þótti ekki gaman að stíga berfætt á stökka kakkalakka í morgunsturtunni (gleraugnalaus og allslaus) og ekki fannst mér sjarmerandi að finna maura í matnum mínum. Moskítóflugur hafa haldið fyrir mér vöku margar nætur og silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig nótt og dag. Verst var ástandið í Húsi hinna töfrandi lita, sem eftir á að hyggja getur vart talist mannabústaður.
Nú bý ég í aldeilis ágætri stúdentaíbúð þar sem lítið ber á fyrrnefndum kvikindum enda eru pípulagnirnar í góðu standi. Auk þess límdi ég moskítónet fyrir svefnherbergisgluggann ekki alls fyrir löngu. Eftir standa aðeins tvær sortir, köngulærnar og bévítans ávaxtaflugurnar.
Mér þykir vænt um köngulær. Þær veiða leiðinlegar flugur sem annars færu í taugarnar á mér og sitja rólegar í vefnum sínum þess á milli. Nú búa hjá mér 4 boldungs köngulær og ég fæ ekki betur séð en þar séu þrjár mismunandi tegundir á ferð. Að sjálfsögðu hef ég nefnt þær allar, í stofunni býr Hólmfríður, Linda P í eldhúskróknum, Unnur Birna er í vinstra baðherbergishorninu og Anna Margrét rétt fyrir utan svefnherbergisgluggann.
Um ávaxtaflugur gegnir öðru máli. Þær fjölga sér eins og kanínur og vaða um allt hús á frekjunni einni saman. Þrátt fyrir að fegurðardrottningarnar fjórar geri sitt besta til að vernda mig og heimili mitt gegn þessum skaðræðisdýrum sér ekki högg á vatni eftir daginn. Því tók ég til minna ráða nú í dag. Öllum ávöxtum var troðið í steríla plastsekki og bundið fyrir. Svo tók ég fram handryksuguna.
Hversu margar ávaxtaflugur létu lífið í því eðla tæki veit ég ekki fyrir víst. Hitt veit ég þó að mér þótti afar mikil skemmtun í að ganga frá kvikindunum.
Ég skildi akkúrat nógu margar eftir í kvöldmatinn handa gæludýrunum og skolaði svo ánægð úr síunni. Á morgun ryksuga ég aftur.
Stundum er gaman að vera til.
Víóluskrímslið - lord of the flies
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)