Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, október 12, 2006

Bjánahrollur

Ég fór á tónleika í gær. Hin unga og upprennandi Sinfóníuhljómsveit Amsterdam (Amsterdam Sinfonie Orkest) lék þar sellókonsert Dvoráks og fjórðu sinfóníu Brahms með miklum glæsibrag og ekki spillti fyrir að Lára vinkona mín leiddi sellóin eins og herforingi. Einleikarinn var lítill bólugrafinn Frakki með svo rosalegar krullur að með léttu mætti festa hann í loftið á salnum með frönskum rennilás. Hann kunni sitt fag og vel það. Mikið finnst mér alltaf gaman að hlusta á fólk sem veit hvað það er að gera.

Tónlistin var góð. Góðir spilarar. Ekkert út á það að setja. Hins vegar var framsetningin svo fáránleg að ég sat með lokuð augun alla tónleikana til þess að gefast ekki bjánahrollinum á vald. Hér í H-landi er nefnilega mjög í tísku að "tónlistarmenn myndi persónulegt samband" við tónleikagesti til þess að auka á upplifun þeirra síðarnefndu og eru ýmsar leiðir farnar til þess að ná því takmarki. Í gærkvöldi óð myndatökumaður baksviðs með vídeóvél fyrir tónleikana og terroriseraði sviðsstjórann sem þurfti í smáatriðum að lýsa séróskum sólistans og segja nokkrar gamansögur til þess að skemmta lýðnum frammi í sal. Herlegheitunum var varpað upp á risastórt tjald sem hékk fyrir ofan sviðið. Þegar tónleikarnir hófust færðist myndavélin upp á svið og fengu tónleikagestir að fylgjast náið með hreyfingum sólistans allan konsertinn. Viðkomandi sólisti var einn þeirra sem gretta sig herfilega við hverja einustu stillingaskiptingu og virðast vera að fá hjartaslag í lok hverrar I-V-I kadensu með trillu. Reglulega var varpað upp myndum af Dvorák og tilvitnunum í hljómsveitarstjórann, að því er virtist til að benda tónleikagestum á hvað þeim ætti að finnast í það og það skiptið.

Eftir hlé fengu hljómsveitarmeðlimir að finna fyrir Britney Spears fílingnum þegar myndavélin fór að flakka um sveitina og súmma inn á hvern þann sem var með sóló. Það hefði ekki verið sem verst, hefðu tæknimennirnir ekki verið að klína textum yfir skjáinn í gríð og erg. Tímasetningin var stórkostleg, þegar klarinetturnar voru með sóló stóð: "Brahms hélt svo mikið upp á horn að hann skrifaði öll fallegustu sólóin fyrir það hljóðfæri" og þegar einn slagverksleikaranna hóf að berja þríhornið eins og andsetinn gaf að líta: "pákurnar gefa hljómsveitarverkum aukinn lit og kraft."

Að öðru leyti var myndavélin föst á hljómsveitarstjóranum sem var einn þeirra sem stjórna aðallega með andlitinu og virðast geta gefið mismunandi hljóðfærahópum inn með því að reka út úr sér tunguna í rétta átt. Ég er yfirleitt við hinn enda borðsins þegar svona stendur á og er of upptekin við að skila af mér partinum mínum sómasamlega til að finnast eitthvað athugavert við slíkt athæfi en núna leið mér eins og hefði farið edrú á djammið. Tónleikagestir fylgdust spenntir með hverri hreyfingu hljómsveitarstjórans á meðan ég sökk lengra og lengra ofan í sætið og óskaði þess augnablik að hægt væri að kveikja og slökkva á sýn manns að vild.

Að öllum líkindum var þessi framsetning valin til þess að færa tónlistina nær hinum almenna hlustanda sem vanur er múltímedía umhverfi þar sem öll skynjun er fléttuð saman. Ég höndlaði hana hins vegar mjög illa. Þegar ég fer á tónleika af þessu tagi fer ég til að hlusta, ekki til þess að horfa á grettur hljómsveitarstjórans eða fá að vita hvað fyrsta horn borðar í morgunmat.

Auk þess finnst mér ekki gaman þegar mér er sagt hvað mér eigi að finnast eða fyrir hvers konar hughrifum ég eigi að finna á tónleikum. Þess gerist heldur ekki þörf. Maður þarf ekki að vita neitt um tónlist til þess að geta notið hennar eða haft á henni skoðun. Tónlist er eins og vín. Ég veit ekkert um vín - en ég veit hvað mér finnst gott og hvað ekki.

Hvað finnst ykkur?


Víóluskrímslið - ringlað

Engin ummæli: