Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Kyrrlátt kvöld við fjörðinn

Gærdagurinn var fyrsti kennsludagur eftir vetrarfrí. Ég var í roknastuði og krakkarnir líka. Eftir langan kennsludag í Varmahlíð var stuðið hvergi nærri á undanhaldi og því snuddaðist ég inn á Krók, tók bensín á Sveitarfélagsdruslu nr. 1 og stalst til að skreppa í búð í leiðinni. Þegar ég kom heim var klukkan næstum orðin átta að kvöldi. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Þegar 9-5 þjóðfélagið er á leið heim til sín að elda mat og horfa á barnaefnið eru tónlistarkennarar yfirleitt rétt að hefja sinn vinnudag. Það hentar mér (barnlausri grasekkju sem á erfitt með að fara á fætur á morgnana) sérdeilis ágætlega. Öðrum ekki.

Ég kveikti á sjónvarpinu og hlustaði á íþróttafréttir yfir súrmjólk og seríósi. Samt hef ég engan áhuga á íþróttum. Kastljósið lofaði hins vegar góðu og ákvað ég að sitja sem fastast og fylgjast með því. Ég fylgdist spennt með ofsaakstri ungs manns með lögguna á hælunum og hugsaði hlýlega til allra jeppakallanna sem reglulega svína á mér á leiðinni út í Varmahlíð. Þegar ungar meyjar með bláa augnskugga hófu samhæfðan dans fór ég fram að ná í meiri súrmjólk. Að dansinum loknum hófust umræður um málefni alsheimersjúklinga.

Þegar þar var komið var stuðið runnið af mér. Í stað þess að dansa um með súrmjólkurskálina svo seríósið þeyttist um stofugólfið hlunkaðist ég í sófann og á mig sóttu hugsanir um allt það sem aflaga fer í þessum heimi. Umræðurnar í sjónvarpinu bættu ekki ástandið. Gaggið í hæstvirtum heilbrigðisráðherra sem átti þar vondan málstað að verja fór auk þess óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég tók hljóðið af tækinu.

Þögnin umvafði þreyttan tónlistarkennarann sem í þeirri svipan gerði stórkostlega uppgötvun. Umræðuþættir eru miklu skemmtilegri án hljóðs. Það er ekki eins og menn hafi eitthvað að segja af viti hvort eð er og maður getur skemmt sér við að fylgjast með fólki gefa hvert öðru illt auga í laumi. Jafnvel íþróttir verða skemmtilegra sjónvarpsefni án hljóðs. Þögnin gerði að minnsta kosti kraftaverk fyrir ensku mörkin. Ungir karlmenn sem hlaupa á eftir bolta á nærfötunum verða að miklum mun áhugaverðari þegar hljóðið er tekið af þeim.

Víóluskrímslið - uss

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Að halda haus

Eftir að ég fór að kenna varð mér ljóst að mér hafði verið veitt gríðarlegt vald yfir nemendum mínum og að ég bæri ábyrgð eftir því. Ég segi vald, vegna þess að góður kennari getur haft gríðarleg áhrif á líf barns sem hann kennir. Sem kennari reyni ég að vera börnunum góð fyrirmynd. Ég krefst gagnkvæmrar virðingar í tímum, er föst fyrir en sanngjörn og hækka aldrei róminn nema til þess að hrósa fólki. Auk þess passa ég alltaf að það sjáist ekki framan í mér hvað ég borðaði í hádeginu.

Stundum getur verið erfitt að halda ímynd hins alvitra kennara fyrir framan blessuð börnin. Ekki síst ef eitthvað stórkostlegt veltur upp úr þeim. Eins og í gærkvöldi, þegar ég var að sýna litlum forvitnum snáða hvernig taktmælir virkar. Ég byrjaði á að sýna honum hvernig taktmælirinn sló 60 slög á mínútu og leyfði honum svo að finna út hversu hratt hjartað í honum slægi. Drengurinn stillti svo taktmælinn á 208 slög á mínútu. "Getur einhver verið með svona hraðan hjartslátt?" spurði hann. Ég svaraði því játandi, en bætti við að væri viðkomandi í kyrrstöðu þætti mér skynsamlegast að fara með hann á sjúkrahús. Annars hugar hélt snáðinn áfram að skrúfa til stillinn á taktmælinum og hitti þá á stillinguna sem gefur tóninn A440. (Fyrir þá sem ekki til þekkja hljómar þessi tónn eins og flöt lína á hjartalínuriti.) Hann leit upp og sagði alvarlegur: "Nú held ég að það sé of seint."

Stundum getur líkaminn einnig brugðist manni í baráttunni við virðuleikann. Aðfaranótt mánudags fékk ég kveisu sem hefur verið að ganga meðal krakkanna. Eitilhörð hélt ég á mánudegi að það versta væri liðið hjá og ákvað að drífa mig út í Varmahlíð. Fyrsti tíminn gekk vel. Sá næsti líka. Í þriðja tíma var farið að síga á ógæfuhliðina og í fjórða tíma var ég farin að biðja vesalings nemandann heldur oft að "hita nú upp næsta lag á meðan ég skryppi aðeins fram". Eftir nokkur órómantísk faðmlög við Gustavsberg ákvað ég að fara heim. Það var skynsamleg ákvörðun.

Svona verður maður stundum að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Víóluskrímslið - rússíbani

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Suðuþvottur

Þegar maður kemur dauðþreyttur heim eftir langan dag á maður ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en að hvíla sig. Ætli maður að vera sniðugur og koma einhverju í verk í slíku ástandi endar það yfirleitt með ósköpum.

Í gærkvöld kom ég heim í steiktum ofþreytufíling og setti í þvottavél. Einum og hálfum tíma síðar áttaði ég mig á því að ég hafði soðið fulla vél af vægþvotti. Bómullin slapp að mestu en eðlileg afföll urðu á peysum úr gerviefnum. Nú á ég nokkrar peysur sem líta út eins og kúbísk listaverk.

Þar sem ég á ekki mikið af fötum og get seint talist tískufrík er þetta tilfinnanlegur missir. Sérstaklega þótti mér sorglegt að sjóða nýju fínu rauðu peysuna með stuttu ermunum og kaðlamynstrinu sem litli grís gaf mér í jólagjöf. Það er dagljóst að ég þarf að skreppa í tískuvöruverslanir Hjálpræðishersins og Rauða krossins þegar ég kem suður næst.

Héðan í frá ætla ég aldrei að setja í þvottavél nema ég sé sérstaklega vel upplögð. Eða ganga bara í bómull það sem eftir er.


Víóluskrímslið - soðið, ekki steikt

mánudagur, febrúar 12, 2007

Skrautlegi dagurinn

Þegar ég mætti til kennslu í Varmahlíðarskóla síðastliðinn fimmtudag mætti mér krakkaskari í furðufötum, hver öðrum skrautlegri. Ég hugsaði lítt út í það enda aldrei að vita hvað þessum krökkum dettur í hug. Þess í stað fór ég beint upp í stofu, gekk frá draslinu mínu og hélt svo af stað að sækja fyrsta nemanda dagsins.

Stúlkan sú var heldur en ekki skrautlega klædd. Þegar ég hrósaði henni fyrir smekklegt fataval sagði hún mér upprifin að hún væri í skrautlegum fötum því að í dag væri SKRAUTLEGI DAGURINN. Svo mældi hún mig út og spurði: "hvernig vissir þú að skrautlegi dagurinn væri í dag?" Ég horfði niður á sjálfa mig og taldi 7 liti. Sagði svo barninu að hjá mér væru allir dagar skrautlegir.

Einu sinni fór ég á Schiphol að sækja dr. Tót í helgarfrí. Ég hafði gert mitt besta til að vera eins sæt og ég mögulega gat og hafði meðal annars keypt nýjar röndóttar sokkabuxur í tilefni heimsóknarinnar. Þegar dr. Tót kom fram í móttökusalinn fékk hann ofbirtu í augun af litavalinu - að eigin sögn. Mér persónulega finnst ekkert að því að vera í 15 litum sem passa ekkert endilega saman.

Það er nóg um svarta og grá tóna á veturna. Litir létta lund. Upp með rauðu bindin og grænu sokkana.


Víóluskrímslið - eins og regnbogi meistarans