Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Kyrrlátt kvöld við fjörðinn

Gærdagurinn var fyrsti kennsludagur eftir vetrarfrí. Ég var í roknastuði og krakkarnir líka. Eftir langan kennsludag í Varmahlíð var stuðið hvergi nærri á undanhaldi og því snuddaðist ég inn á Krók, tók bensín á Sveitarfélagsdruslu nr. 1 og stalst til að skreppa í búð í leiðinni. Þegar ég kom heim var klukkan næstum orðin átta að kvöldi. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Þegar 9-5 þjóðfélagið er á leið heim til sín að elda mat og horfa á barnaefnið eru tónlistarkennarar yfirleitt rétt að hefja sinn vinnudag. Það hentar mér (barnlausri grasekkju sem á erfitt með að fara á fætur á morgnana) sérdeilis ágætlega. Öðrum ekki.

Ég kveikti á sjónvarpinu og hlustaði á íþróttafréttir yfir súrmjólk og seríósi. Samt hef ég engan áhuga á íþróttum. Kastljósið lofaði hins vegar góðu og ákvað ég að sitja sem fastast og fylgjast með því. Ég fylgdist spennt með ofsaakstri ungs manns með lögguna á hælunum og hugsaði hlýlega til allra jeppakallanna sem reglulega svína á mér á leiðinni út í Varmahlíð. Þegar ungar meyjar með bláa augnskugga hófu samhæfðan dans fór ég fram að ná í meiri súrmjólk. Að dansinum loknum hófust umræður um málefni alsheimersjúklinga.

Þegar þar var komið var stuðið runnið af mér. Í stað þess að dansa um með súrmjólkurskálina svo seríósið þeyttist um stofugólfið hlunkaðist ég í sófann og á mig sóttu hugsanir um allt það sem aflaga fer í þessum heimi. Umræðurnar í sjónvarpinu bættu ekki ástandið. Gaggið í hæstvirtum heilbrigðisráðherra sem átti þar vondan málstað að verja fór auk þess óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég tók hljóðið af tækinu.

Þögnin umvafði þreyttan tónlistarkennarann sem í þeirri svipan gerði stórkostlega uppgötvun. Umræðuþættir eru miklu skemmtilegri án hljóðs. Það er ekki eins og menn hafi eitthvað að segja af viti hvort eð er og maður getur skemmt sér við að fylgjast með fólki gefa hvert öðru illt auga í laumi. Jafnvel íþróttir verða skemmtilegra sjónvarpsefni án hljóðs. Þögnin gerði að minnsta kosti kraftaverk fyrir ensku mörkin. Ungir karlmenn sem hlaupa á eftir bolta á nærfötunum verða að miklum mun áhugaverðari þegar hljóðið er tekið af þeim.

Víóluskrímslið - uss

Engin ummæli: