Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, mars 31, 2007

Þak yfir höfuðið

Ég stæri mig af því að vera glaðlynd að eðlisfari. Þrátt fyrir þann meðfædda kost kemur stundum fyrir að yfir mig hellist svakalegt þunglyndi og botnlaus örvænting. Þetta ástand kemur yfir mig um það bil einu sinni í viku og stendur yfir í um fimmtán mínútur, eða eins langan tíma og það tekur mig að blaða í gegnum fasteignablað Moggans og sannfærast um það að fólki eins og mér sé ekki ætlað að eignast nokkurn tímann þak yfir höfuðið nema selja sál sína bönkunum eða líkamann hæstbjóðanda.

Lengi hef ég beðið þess í ofvæni að bólan springi og fasteignaverðið lækki. Í hverri viku hef ég gripið fasteignablaðið föstum tökum og lesið það spjaldanna á milli - aðeins til þess að sökkva ofan í sandleðjufen örvæntingar eftir lesturinn. Verðið lækkar ekki, það bara hækkar. Og hækkar og hækkar.

Líf mitt liggur um þessar mundir í geymslum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, pakkað ofaní kassa af ýmsum stærðum og gerðum skreyttum póststimplum frá þremur löndum. Bækurnar lifa lúxuslífi í hillunum inni hjá dr. Tót en restin safnar ryki og tekur upp pláss hjá velviljuðum ættingjum. Eftir flakk síðustu ára hlakka ég mikið til þess að eignast fastan samastað og geta tekið uppúr kössunum.

Helvítis fasteignablaðið virðist þó ekki styðja þau áform mín.


Víóluskrímslið - líst ekki á blikuna

miðvikudagur, mars 28, 2007

Hið æðsta takmark

Í dag skein sól í Skagafirði og létt yfir mönnum eftir því. Síðasti nemandi min í dag, fimm ára skotta, var engin undantekning frá þeirri reglu.

Hún hló mest allan tímann enda fádæma glaðlynt barn. Milli hláturskasta spilaði hún eitt og eitt lag. Eitt þeirra laga var ofurhittarinn "halti grái hérinn" sem við spiluðum nokkrum sinnum yfir - eða öllu heldur, hún spilaði, ég söng.

Við fórum í gegnum hérann tvisvar sinnum. Þegar við byrjuðum á héranum í þriðja sinn hætti skotta skyndilega að spila. "Ég kann alveg hérann," sagði hún. "Viltu hætta að kenna mér!" Svo spilaði hún hérann, alveg sjálf.

Þá varð ég montin.

Víóluskrímslið - takmarki náð

mánudagur, mars 19, 2007

ZERO

Afhverju ekki ... sjónvarp með ZERO hallærislegum auglýsingum?

Afhverju ekki ... auglýsingaherferðir með ZERO ranghugmyndum?

Af hverju ekki ... umhverfi með ZERO hálfvitalegri karlrembu?

Öhöömurlegt.

Víóluskrímslið - hætt að kaupa kók

mánudagur, mars 12, 2007

Blessuð börnin

Ég hef aldrei talið mig vera neitt sérstaklega móðurlega manneskju. Þrátt fyrir það hef ég afskaplega gaman af börnum - sem ég á ekki.

Það er gaman að fá börn vina og vandamanna lánuð, fara með þeim í dagsferðir og göngutúra, á söfn, í náttúruskoðun og útilegur og skila þeim svo aftur drulluskítugum, úttauguðum af þreytu og með magnaðar ísklessur í fötunum. Það er líka gaman að kenna börnum.

Börn hafa nefnilega svo skemmtilega sýn á lífið. Þau eru fordómalaus og órög við að segja sína skoðun. Vísindalegar athuganir þeirra á umheiminum blandast oft á tíðum góðum skammti af ímyndunarafli og þau eru síforvitin um allt sem um er að vera í kringum þau.

Í morgun var ég að kenna einni sex ára sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Eftir að hafa spilað í gegn lögin og skalana sem hún átti að æfa heima horfði hún stíft á mig og spurði svo:"Hvenær fékkstu þessa peysu?" Ég sagðist hafa fengið peysuna í jólagjöf fyrir tveimur árum síðan. Hún glennti upp augun í forundran. "Passarðu ennþá í hana!"

Ég útskýrði að þegar maður væri kominn á minn aldur hætti maður að stækka á langveginn. Hins vegar gæti maður bætt við sig á þverveginn. Barnið sætti sig við þessa skýringu og sagði svo spekingslega: "já, það gerist þegar maður borðar mikið af fitu."

Börn eru skemmtileg. Ég held hins vegar að ég láti öðrum eftir næturvökurnar að svo komnu máli.

Víóluskrímslið - Barnafræðari

mánudagur, mars 05, 2007

Að tala tungum

Um síðastliðna helgi átti ég því láni að fagna að fá að spila með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á Akureyri. Þar urðu bæði fagnaðarfundir milli mín og fólks sem ég hef ekki séð lengi og eins kynntist ég hópi af tónlistarmönnum sem ég hafði aldrei áður hitt.

Meðal þeirra var sellóleikari frá Póllandi að nafni Pavel sem flutti til Íslands fyrir sjö árum og ætlaði sér að vera í ár. Eins og margir ílengtist hann á Íslandi og var á skömmum tíma kominn í fulla kennslu enda prýðis músíkant og almennilegur með afbrigðum. Yfir hádegismatnum á laugardaginn sagði Pavel hljómsveitarmeðlimum söguna af því þegar hann áttaði sig á mikilvægi þess að læra íslensku.

Þannig var, að eftir komuna til Íslands var Pavel fljótt farinn að fást við kennslu. Eitt sinn kom það fyrir að til hans kom nemandi, sex ára stelpuskott, og var mikið niðri fyrir. Hún sagði Pavel eitthvað á íslensku sem hann skildi ekki og var mjög óðamála. Pavel vissi ekki alveg hvernig hann ætti að taka á þessu svo hann sagði bara "jájá" og bjóst til að hefja tímann. Barnið var þó ekki af baki dottið en ítrekaði setninguna aftur og aftur og varð æstari í hvert sinn. Pavel fannst þetta nú eitthvað skrítið en hugsaði með sér að barnið hlyti nú að róast, sagði aftur "jájá" og hélt áfram að undirbúa tímann. Þá varð telpan eldrauð í framan eins og hún ætlaði að springa. Pavel hætti þá að lítast á blikuna, bankaði upp á í næstu stofu og bað kennarann þar að túlka fyrir sig. Þegar kennarinn hafði hlustað á stelpuna í tvær sekúndur sagði hann "já, hún þarf bara að fara á klósettið." "Jájá", sagði Pavel við stelpuna, sem tók sprettinn eftir ganginum eins og skrattinn væri á hælunum á henni. Þá sagði Pavel að loks hefði runnið upp fyrir honum ljós um nauðsyn þess að læra íslensku.

Ég er alveg sammála Pavel. Ætli maður sér að dvelja langdvölum í öðru landi en sínu eigin er sjálfsagt að maður læri tungumál þess lands. Ekki aðeins er það þægilegt fyrir heimamenn, sem geta þá átt samskipti við mann á sínu eigin máli, heldur léttir það manni sjálfum lífið til mikilla muna. Öll samskipti við yfirvöld í viðkomandi landi verða auðveldari. Maður getur betur fylgst með fréttum og ástandinu í kringum sig, er öruggari í skóla og á vinnumarkaðnum og getur tjáð sig við alla, ekki bara þá sem kunna ensku.

Þegar ég bjó í Hollandi lærði ég hollensku eins fljótt og ég gat, ekki af fagurfræðilegum ástæðum, heldur praktískum. Það leiddi til þess að ég átti mun auðveldara með að laga mig að samfélaginu og eiga samskipti við fólk en erlendir samstúdentar mínir sem ekki töluðu hollensku. Ég er viss um að ég hefði farið mikils á mis hefði ég ekki lært málið. Að minnsta kosti hefði ég ekki náð kennaraprófinu.

Það að kunna tungumál þess lands þar sem maður dvelur er lykilatriði í að komast inn í samfélagið. Til þess að sitja við sama borð og heimamenn er nauðsynlegt að geta átt samskipti við þá á því máli sem ráðandi er í þjóðfélaginu. Mállaus útlendingur er veikur fyrir á margan hátt, auðveldara er að svindla á honum, erfiðara er fyrir hann að sækja rétt sinn til vinnu, skóla og launa og málleysið gerir mönnum oftar en ekki ókleift að fá sömu tækifæri og heimamenn. Sem fyrrum nýbúi í H-landi gerði ég mér grein fyrir þessu og ákvað að bregðast við.

Nýbúum sem komnir eru til Íslands til þess að vera enginn greiði gerður með því að "sleppa þeim við" að læra íslensku á þeim forsendum að hún sé of erfið og óskiljanleg. Með því er verið að búa til óþarfa stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Föllum ekki í þá gryfju sem aðrar þjóðir hafa grafið sér í innflytjendamálum, heldur lærum af reynslu annarra. Bjóðum upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir innflytjendur og það á kristilegum tímum, ekki klukkan tíu á kvöldin þegar fólki hættir til að sofna ofan í bækurnar. Tölum íslensku við fólk sem við vitum að er að læra hana. Verum þolinmóð og hættum að skipta yfir í enskuna um leið og viðmælandinn þarf að hugsa sig um. Hjálpum til við að kenna fólki á kerfið og allar óskrifuðu reglurnar í samfélaginu. Með því aðstoðum við það fólk sem komið er til Íslands til að vera einna best. Þetta virkaði að minnsta kosti fyrir mig.


Víóluskrímslið - fyrrum nýbúi í H-landi