Þak yfir höfuðið
Ég stæri mig af því að vera glaðlynd að eðlisfari. Þrátt fyrir þann meðfædda kost kemur stundum fyrir að yfir mig hellist svakalegt þunglyndi og botnlaus örvænting. Þetta ástand kemur yfir mig um það bil einu sinni í viku og stendur yfir í um fimmtán mínútur, eða eins langan tíma og það tekur mig að blaða í gegnum fasteignablað Moggans og sannfærast um það að fólki eins og mér sé ekki ætlað að eignast nokkurn tímann þak yfir höfuðið nema selja sál sína bönkunum eða líkamann hæstbjóðanda.
Lengi hef ég beðið þess í ofvæni að bólan springi og fasteignaverðið lækki. Í hverri viku hef ég gripið fasteignablaðið föstum tökum og lesið það spjaldanna á milli - aðeins til þess að sökkva ofan í sandleðjufen örvæntingar eftir lesturinn. Verðið lækkar ekki, það bara hækkar. Og hækkar og hækkar.
Líf mitt liggur um þessar mundir í geymslum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, pakkað ofaní kassa af ýmsum stærðum og gerðum skreyttum póststimplum frá þremur löndum. Bækurnar lifa lúxuslífi í hillunum inni hjá dr. Tót en restin safnar ryki og tekur upp pláss hjá velviljuðum ættingjum. Eftir flakk síðustu ára hlakka ég mikið til þess að eignast fastan samastað og geta tekið uppúr kössunum.
Helvítis fasteignablaðið virðist þó ekki styðja þau áform mín.
Víóluskrímslið - líst ekki á blikuna
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli