Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, mars 12, 2007

Blessuð börnin

Ég hef aldrei talið mig vera neitt sérstaklega móðurlega manneskju. Þrátt fyrir það hef ég afskaplega gaman af börnum - sem ég á ekki.

Það er gaman að fá börn vina og vandamanna lánuð, fara með þeim í dagsferðir og göngutúra, á söfn, í náttúruskoðun og útilegur og skila þeim svo aftur drulluskítugum, úttauguðum af þreytu og með magnaðar ísklessur í fötunum. Það er líka gaman að kenna börnum.

Börn hafa nefnilega svo skemmtilega sýn á lífið. Þau eru fordómalaus og órög við að segja sína skoðun. Vísindalegar athuganir þeirra á umheiminum blandast oft á tíðum góðum skammti af ímyndunarafli og þau eru síforvitin um allt sem um er að vera í kringum þau.

Í morgun var ég að kenna einni sex ára sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Eftir að hafa spilað í gegn lögin og skalana sem hún átti að æfa heima horfði hún stíft á mig og spurði svo:"Hvenær fékkstu þessa peysu?" Ég sagðist hafa fengið peysuna í jólagjöf fyrir tveimur árum síðan. Hún glennti upp augun í forundran. "Passarðu ennþá í hana!"

Ég útskýrði að þegar maður væri kominn á minn aldur hætti maður að stækka á langveginn. Hins vegar gæti maður bætt við sig á þverveginn. Barnið sætti sig við þessa skýringu og sagði svo spekingslega: "já, það gerist þegar maður borðar mikið af fitu."

Börn eru skemmtileg. Ég held hins vegar að ég láti öðrum eftir næturvökurnar að svo komnu máli.

Víóluskrímslið - Barnafræðari

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kling klong í eggjastokkum heyrist alla leið yfir heiðina og yfir frosið Svínavatnið, heim að Völlum

Anna sagði...

öss hlusta ekki á svona