Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, nóvember 25, 2006

Hamburg

Það var gaman í Hamburg nú í vikunni. Við Anngegret trylltum lýðinn á tónleikum okkar í AUDIMAX 1 í Tækniháskólanum í Hamburg , fengum tvö uppklöpp, lofsamlega blaðagagnrýni og hvaðeina.

Á tónleikunum prufukeyrði ég nýja sólóverkið hennar Önnu Þorvaldsdóttur fyrir opinbera frumflutninginn sem verður eftir mánuð. Viðtökurnar voru stórgóðar og menn héldu ekki vatni yfir því hvað Anna væri gott tónskáld.

Auk þessa skruppum við í siglingu um höfnina, í dýragarðinn og gerðum okkur ýmislegt annað til gamans. Svo varð ég lasin eins og alltaf gerist þegar ég fæ frí.

Æ mín auma önd.


Pútín

Ég ræddi rússnesk innanríkisstjórnmál við þarlendan bekkjarbróður minn á dögunum. Meðal annars fýsti mig að vita hvernig Pútín þætti öll sú gagnrýni sem fram hefur komið á hann og hans stjórnarhætti undanfarnar vikur, mánuði og ár.

Bekkjarbróðir minn yppti öxlum. "Blessuð vertu," sagði hann. "Pútín er skítsama um alla vestræna gagnrýni. Hann veit sem er að Rússland er algerlega sjálfbært. Evrópa og Bandaríkin mega tuða eins og þeim sýnist um mannréttindi, málfrelsi og lýðræði. Pútín hlustar með öðru eyranu, glottir - og skrúfar svo bara fyrir gasið."


H-land

Ég hata H-land.


Víóluskrímslið - 28 dagar í frelsið

mánudagur, nóvember 20, 2006

Igor

Hér í H-landi rignir eldi og brennisteini þessa dagana. Í veðrum sem þessum hef ég það fyrir sið að klæðast heiðgulri útihátíðaregnslá úr ruslapokaplasti sem ég keypti einhvern tímann á 100 krónur í Hagkaupum. Sláin er í stærð XXXL og nær því léttilega bæði utan um mig og víólukassann minn. Klædd þessum eðalfatnaði skælist ég á hjóldruslunni milli bæjarhluta og líkar vel.

Mér finnst ég vera afar virðuleg svona til fara. Víólukassinn myndar stórfínan herðakistil undir regnslánni og rauð ullarhúfan sem gægist undan gulri hettunni setur punktinn yfir I-ið. Þegar maður bætir svo við ískrinu í hjóltíkinni er engu líkara en þar sé sjálfur krypplingurinn Igor á ferð.

Skil ekki að fólki skuli ekki þykja þetta smart klæðnaður.


Víóluskrímslið - meiri snjó

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fahren, fahren, fahren auf dem Autobahn

Síðasta vika var vika hins morgunfúla og viðskotailla víóluskrímslis. Það fer ekki vel með sálina að þurfa að fara á fætur klukkan sjö á hverjum morgni og vera stanslaust að til miðnættis.

Ástæða þessara anna voru m.a. tvö hljómsveitarverkefni, annað með verkum eftir Britten og Handel og hitt með nútímatónlist eftir ýmis tónskáld, þar á meðal nokkra nemendur skólans. Það tekur á taugarnar það læra tvö prógrömm samhliða, sérstaklega þegar maður vill heldur vera að æfa sig fyrir lokaprófið sem nálgast óðfluga. Auk þess fylgdu seinna verkefninu mikil ferðalög, þar á meðal til Munster í Þýskalandi. Þangað keyrðum við í gær, settum upp svið, spiluðum í klukkutíma, tókum sviðið niður aftur og keyrðum til baka. Ég fékk far með vörubílnum, sem ökumaðurinn náði upp í 140 km á klukkustund þrátt fyrir að vera með fullan bíl af slagverki og örþreyttum tónlistarnemum. Það tel ég vel af sér vikið.

Í dag lá ég í leti og eldaði mér fyrstu almennilegu máltíðina í viku. Ekki meiri samlokur í bili takk.

Á morgun fer ég til Eindhoven að spila á tónleikum með hollenskum áhugamannakór sem gæti komið sterklega til greina sem falskasti kór Evrópu norðan Alpafjalla. Þemað er Mozart noktúrnur og forsvarsmaður kórsins vildi að strengjaleikararnir yrðu með hvítt blúnduslifsi úr gömlum gardínum. Ég sagði nei.

Mig langar heim í frostið.


Víóluskrímslið - tæknileg mistök

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Hvað í.....!?

Í morgun gerðist nokkuð sem aldrei hefur átt sér stað þessi rúmu fjögur ár sem ég hef búið hér í H-landi. Ég heyrði Hollending láta út úr sér setninguna "Þetta reddast". Mér lá við andköfum af spenningi.

Eins og þetta sé ekki nóg til að valda venjulegu fólki svefntruflunum las ég í netmogganum að Árni Johnsen sé á leið aftur á þing.

Heimsendir er í nánd. Það held ég sé alveg ljóst.


Víóluskrímslið - ekki er öll vitleysan eins

föstudagur, nóvember 10, 2006

Ble

Eftir stífa viku er fátt ljúfara en að liggja endilangur í sófanum með andfúlan lánskött í handarkrikanum og glápa á arfaslappar hryllingsmyndir í sjónvarpinu - með hollenskum texta.

Síðustu viku var ég hluti af hóp sem æfði upp nokkur nútímaverk af ýmsum toga sem á að flytja á tvennum tónleikum á nútímatónlistarhátíðarinni November Music í næstu viku. Eitt verkanna er samið fyrir víólu,píanó og marimbu og er því ætlað að vera "fyndna,skrítna og skemmtilega verkið sem sendir áheyrendur út með bros á vör". Sá galli er þó á gjöf Njarðar verkið er rottuerfitt og tónskáldið skilaði því ekki inn fyrr en síðastliðinn mánudag. Þar sem ég hef hvorki tíma né nennu til að æfa flausturslega skrifað verk útdritað í leifturhröðum tvígripum og hlaupum er ég að hugsa um að búa bara til mína eigin notendavænu versjón af stykkinu. Piltungurinn sem skrifaði það getur sjálfum sér um kennt að skila inn stykki sem þarf mánuð til að ná inn með viku fyrirvara.

Veturinn er kominn og feldurinn hefur verið dreginn fram úr skápnum. Ofninn á fullu blússi og kakó í potti á eldavélinni. Lánskötturinn fúngerar sem lifandi hitapoki. Manni líður bara allt of vel til að hafa áhyggjur af einhverju svonalöguðu. Samt verð ég voða glöð þegar næsta vika er búin.


Víóluskrímslið -sörvæval