Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, nóvember 20, 2006

Igor

Hér í H-landi rignir eldi og brennisteini þessa dagana. Í veðrum sem þessum hef ég það fyrir sið að klæðast heiðgulri útihátíðaregnslá úr ruslapokaplasti sem ég keypti einhvern tímann á 100 krónur í Hagkaupum. Sláin er í stærð XXXL og nær því léttilega bæði utan um mig og víólukassann minn. Klædd þessum eðalfatnaði skælist ég á hjóldruslunni milli bæjarhluta og líkar vel.

Mér finnst ég vera afar virðuleg svona til fara. Víólukassinn myndar stórfínan herðakistil undir regnslánni og rauð ullarhúfan sem gægist undan gulri hettunni setur punktinn yfir I-ið. Þegar maður bætir svo við ískrinu í hjóltíkinni er engu líkara en þar sé sjálfur krypplingurinn Igor á ferð.

Skil ekki að fólki skuli ekki þykja þetta smart klæðnaður.


Víóluskrímslið - meiri snjó

Engin ummæli: