Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, desember 30, 2008

Laugardagskvöld

Þökk sé drengjunum í Baggalúti hef ég legið í stanslausum hláturskrampa í umþaðbil 2 mínútur og 43 sekúndur.

Enda er textinn við lagið ,,Laugardagskvöld" hlaðinn svo mörgum dæmum um vafasamt málfar að annað eins hefur varla heyrst síðan Bó Hall leystist upp í læðing og lífgaði tímans svörð.

Appelsínugult og aflitað með afbrigðum!

Víóluskrímslið - það var sagt mér að það væri partí hérna...

laugardagur, desember 27, 2008

Gleðileg jól!

Á þriðja degi jóla er loks svo komið að mér hefur tekist að snúa sólarhringnum við. Hér er lesið fram á miðjar nætur (í fjarveru dr. Tóts sem er á bakvakt í Borgarnesi) og vaknað um hádegi - oftar en ekki með sofandi kött á hausnum. Fátt býður upp á meiri sálarfrið en að stinga nefinu í sofandi kattarbelg og deila draumum um harðfisk og samankrumpuð sælgætisbréf sem gaman er að troða undir sófa.

Aðfangadagskvöldi eyddum við dr.Tót á bakvaktinni, átum þrímælt og tókum upp margar góðar gjafir þar til löngu eftir miðnætti. Öllu var tjaldað til til þess að gera læknabústaðinn sem heimilislegastan. Þegar búið var að slökkva öll rafmagnsljós og kveikja á ótal kertum var orðið ansi hátíðlegt. Rauða glimmer- ferðajólatréð gerði heilmikið fyrir stemmninguna.

Í dag er rétt rúm vika eftir af fríinu. Ég ætla að liggja í leti fram á síðasta dag. Enda verður spýtt í lófana þegar skólinn byrjar aftur. Það verður fjör.

Víóluskrímslið - vill meiri Sturlungu

föstudagur, desember 19, 2008

Jólaóða konan

Ég er komin í jólafrí. Næstu daga verður jólast af krafti sem aldrei fyrr. Þegar hef ég náð að afreka ýmislegt á jólasviðinu, er búin að baka smákökur - og borða þær, búa til konfekt - og borða það, búa til músastiga með dyggri aðstoð kattanna og hengja upp seríur. Flestir jólapakkarnir eru komnir í hús. Auk þess eru jólakortin handgerð í ár.

Dr. Tót hefur löngum gefið sig út fyrir að vera and-jólalegur með afbrigðum. Mér skilst að tilvist mín og jólastuð séu orðin daglegur brandari á kaffistofunni á heilsugæslunni í Borgarnesi, þar sem dr. Tót eyðir miklum tíma þessa dagana. Það gerir þó ekkert til þess að draga úr mér í jólaundirbúningnum, nei þvert á móti. Þegar dr. Tót kemur heim eftir vaktina um helgina mun hann hitta fyrir hamingjusamt jólaskrímsl og jólaskreytta íbúð.

Jólin eru mér lífsnauðsynleg. Það er frábært að fá tækifæri til að klippa skammdegið í tvennt og gera sér dagamun þegar myrkrið ætlar alla lifandi að drepa, ekki síst nú þegar góðar fréttir eru ekki á hverju strái. Auk þess kemst maður hvergi í betra samband við almættið í sjálfum sér en á jólanótt með bók í hönd og konfekt í seilingarfjarlægð.

Víóluskrímslið - jólin alls staðar

miðvikudagur, desember 03, 2008

Ég mótmæli öll

Í dag er miðvikudagur. Miðvikudagar eru undirbúningsdagar, ég útset, tónflyt og tíni til gögn til ljósritunar, skipulegg hljómsveitastarf, spjalla við foreldra og gramsa í nótnasöfnum. Yfirleitt gengur mér vel að koma mér að verki enda finnst mér gaman í vinnunni. Í dag var annað uppi á teningnum.

Ekki það að verkefnin sem biðu væru leiðinleg eða óáhugaverð. Síður en svo. Ég var meira að segja búin að hlakka til þeirra flestra. Hins vegar gekk ekkert að koma mér að verki. Ég settist við tölvuna til að vinna við útsetningu en datt ekkert í hug. Það var bara eitthvað sem var ekki eins og það átti að vera.

Kannski var það myrkrið, kuldinn eða sú staðreynd að Melroses te var uppselt í Bónus þegar ég kom þar um hádegið. Kannski hafði það áhrif að atvinnuleysið er farið að klóra í innsta hring fjölskyldunnar. Kannski var það tilhugsunin um að tónlistarskólar eru ekki lögbundnar stofnanir og hægt að leggja þá niður með einu pennastriki á bæjarstjórnarfundi. Kannski tilhugsunin um að allar áætlanir um framtíðina eru í uppnámi og að vel geti farið svo að við verðum fangar í eigin landi um ókomna tíð.

Hverju sem um var að kenna var doðinn slíkur að ég gat étið heilan pakka af Remi súkkulaðikexi án þess að það hefði minnstu áhrif. Þess vegna ætla ég að fara á Austurvöll á laugardaginn með tæplega áttræðri ömmu minni og hrópa ókvæðisorð að stjórnvöldum. Það hressir bætir og kætir.

Víóluskrímslið - fullt af heift

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Sálarró

Það er lygilega róandi að sitja í sófanum með kjöltutölvuna á hnjánum og malandi kött í fangi, te í krús og jólalagaútsetningar á skjánum.

Mæli með þessu fyrir alla sem þurfa að lækka blóðþrýstinginn. Forsendurnar fyrir því að rétt ástand náist eru að vísu kjöltutölva, köttur (eða tveir), te og jólalög. Röðin skiptir hins vegar ekki máli.

Víóluskrímslið - kattahár á svörtum bol

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Hjer er gert við prímusa

Hér með neita ég, Anna Hugadóttir víóluskrímsli og barnafræðari, því algerlega að ég beri nokkra ábyrgð á þeim efnahagslegu hörmungum sem nú dynja yfir íslensku þjóðina.

Þessu til sönnunar legg ég fram heimilisbókhaldið frá árunum 1999-2008 fyrir hvern sem lesa vill.

Auk þess hef ég aldrei skilið fólk sem telur sig þurfa að hafa margar milljónir á mánuði til þess að komast af. Það er nú bara aumingjaskapur.

Víóluskrímslið - ekki mitt klúður

laugardagur, nóvember 01, 2008

Reiðin

Ein af mínum fyrstu minningum er frá fyrsta maí einhverntímann snemma á níunda áratug síðustu aldar. Mér var ekið í kerru niður Laugaveginn, það var sól og ég hélt á íslenskum fána í búttaðri hönd. Við fyrstu sýn gæti virst sem ég væri hér að lýsa gleðilegri æskuminningu. Víst var sól og von á kúfuðum kökudisk að göngu lokinni. Hvorki sólin né kökurnar náði þó að yfirskyggja reiðina í göngufólkinu sem enn situr í mér meira en tuttugu árum síðar.

Fólki fannst það svikið. Ekki aðeins af atvinnurekendum og stjórnvöldum - heldur verkalýðsforystunni líka. Í gjallarhorninu hljómaði krafan ,,sömu laun og Ásmundur" og göngumenn tóku kröftuglega undir. Fólk var þreytt á að þurfa að þræla allan sólarhringinn til þess að eiga í sig og á. Verðbólgan ætlaði alla lifandi að drepa. Framtíðin óljós. 

Síðan hef ég farið í margar göngur og meinlausari með ári hverju. Annað var uppi á teningnum í dag. Kapítalisminn var hengdur í hliðið við Austurstræti. Austurvöllur stappfullur af fólki. Reiðin er snúin aftur. Og ekki að ástæðulausu.


Víóluskrímslið - þúsund manns?! Hvað komast margir á Austurvöll?


miðvikudagur, október 22, 2008

Náungakærleikur

Undanfarna daga og vikur hefur rignt yfir mig tölvupóstum og smáskilaboðum frá vinum og kunningjum erlendis. Erindið er yfirleitt það sama, að athuga hvort ég sé nokkuð komin á kúpuna og búi nú í pappakassakólóníu á Lækjartorgi. Þegar er búið að bjóða mér húsaskjól og aðstoð við atvinnuleit í fjórum löndum.

Öllum léttir þegar ég segi stöðu okkar dr. Tóts vera ágæta miðað við aðstæður. Enda er fréttaflutningur erlendis á þann veg að ætla mætti að hér réði hnefarétturinn við kassann í Bónus, að kveikt væri í bílum í úthverfum á kvöldin og útgöngubann eftir 21 væri í fullu gildi.

Það kreppir að - en sjaldan eða aldrei hafa eins margir bílar stoppað fyrir mér á gangbraut og einmitt þessa dagana. Það skyldi þó aldrei fara svo að Íslendingum tækist að fá nýja sýn á lífið.

Víóluskrímslið - óbærilega bjartsýnt

laugardagur, október 11, 2008

Ó þetta er indælt stríð

Á sínum tíma fór íslenska efnahagsundrið algerlega framhjá mér enda bjó ég þá í H-landi og dró fram lífið á baunum í boði Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það gekk sæmilega enda gætti ég þess að skipta oft um baunasortir.

Eins og góðærið fór fram hjá mér stefnir allt í að efnahagslægðin geri það líka. Ég á nefnilega ekki neitt til þess að hafa áhyggjur af. Stundum hefur það sína kosti að hafa engu að tapa.

Á meðan við höldum vinnunni og þaki yfir höfuðið hef ég ekki áhyggjur af neinu. Það er ekki heimsendir þó baunauppskriftirnar verði dregnar fram á ný.

Svo legg ég til að frjálshyggjupattarnir verði skikkaðir í samfélagsþjónustu. Mig hefur alltaf langað að sjá Hannes Hólmstein skúra í annarra manna húsum.

Víóluskrímslið - stóísk ró

þriðjudagur, október 07, 2008

Speki dagsins

Ég hlustaði á Pulp á leiðinni heim úr vinnunni í gærkvöldi. Þar var eftirfarandi texta að finna;

,,What´s the point of being rich, if you can´t think of what to do with it - cause you´re so bleedin´ THICK."

Góður punktur, hugsaði ég og keyrði Reykjanesbrautina í rólegheitum á mínum 14 ára fjallabíl sem er sem betur fer ekki á myntkörfuláni.

Ætla ekki annars allir að mæta í jarðarför nýfrjálshyggjunnar?

Víóluskrímslið - verður seint sakað um Þórðargleði

laugardagur, september 13, 2008

Tveir Rómarkeisarar

Skólinn er byrjaður og lífið óðum að komast í reglubundið horf eftir anarkisma sumarleyfisins. Þrjá daga í viku brenni ég á mínum 14 ára fjallabíl suður í Reykjanesbæ þar sem ég kenni 20 krökkum og 3 strengjasveitum um undraheima tónlistarinnar. Hina tvo sit ég við tölvuna og skrifa tölvupóst, geri áætlanir, æfi mig og útset. Það er að minnsta kosti planið - þegar við erum búin að taka til og taka upp úr kössunum.

Enn er vinnuherbergið (eða KONTÓRINN eins og dr.Tót heimtar að kalla værelset) fullur af kössum. Flestir eru fullir af bókum. Það verður nokkurra helga verk að sortera þær. Sérstaklega þegar maður hefur fengið ferfættan félagskap sem sýnir þeirri vinnu mikinn áhuga.

Fyrir mánuði síðan fluttu til okkar tveir bræður að norðan sem höfðu fundist ásamt móður sinni og systkinum í fjárhúsi rétt fyrir ofan Sauðárkrók. Góðir vinir okkar fréttu af þeim og tóku í fóstur þar til NÝJA ÍBÚÐIN var orðin nokkurn vegin kattheld. Bræðurnir hlutu nöfnin Títus og Gaius eftir tveimur geðveikum Rómarkeisurum enda ekki annað hægt þegar húsráðendur eru vonnabí sagnfræðinörd.

Þeir Títus og Gaius eru afskaplega vel heppnuð eintök, kelnir og indælir með afbrigðum og klóra ekki húsgögnin nema alveg óvart. Þeir hafa átt heima inni í svefnherbergi og fátt er ljúfara en að vakna af værum blundi með mjúkan kettling í fangi. Flestir sem þá hafa hitt eru afskaplega hrifnir af þeim en fyrir þá sem ekki deila þeirri hrifningu má geta þess að lítið mál er að loka þá inni ef menn líta inn. Lyfjabúr heimilisins hefur auk þess stækkað með tilkomu ofnæmislyfja svo öllum ætti að vera óhætt að kíkja við.

Ég segi fyrir mig að ég er afskaplega ánægð með þá. Meira að segja þegar ég er að vinna stundaskrár í tölvunni og annar þeirra skellir annarri framloppunni á delete.

Víóluskrímslið - mjá

mánudagur, ágúst 25, 2008

Allt að gerast

Undanfarna tvo mánuði hefur HandyGirl farið sem málningarklesstur stormsveipur um NÝJU ÍBÚÐINA. Skrapað, pússað, þvegið, lakkað, málað, skafið, sparslað, grunnað, skrúfað og smíðað.
Þó Handygirl finnist fátt skemmtilegra en að eyðileggja á sér hendurnar á því að dytta að og gera við komu þó tímar þar sem henni fannst vera komið meira en nóg.

Nú er NÝJA ÍBÚÐIN á góðri leið með að verða ein fallegasta íbúð í Reykjavík, þökk sé Handygirl og aðstoðarmönnum hennar, þeim dr. Tót og viðkvæma fræðimanninum. Samt rifum við ekkert út. Gamla eldhúsinnréttingin er enn á sínum stað (nýlökkuð þó) og 80´s legar baðflísarnar fara ekki fet. Þökk sé fríðum hópi vina komust allar bækurnar inn á gólf í gærkvöldi og nú dundum við okkur fram að jólum við að raða þeim í hillur.

Þetta kemur allt með kalda vatninu.

Víóluskrímslið - með harðsperrur í hægri

föstudagur, júlí 25, 2008

Sveitabrúðkaup


Um síðastliðna helgi var haldið brúðkaup á ættaróðali föðurættarinnar, Brekkum í Holtum. Sól skein í heiði og fjallahringurinn skartaði sínu fegursta þegar Elín frænka mín giftist Jóni sínum við mikinn fögnuð viðstaddra.


Á Brekkum var búið að flota gólfið í gamla fjósinu og raða upp heyrúllum á hlaðinu til að skýla veislugestum fyrir norðanáttinni. Fyrir fjóshurðinni var búið að stilla upp partítjaldi og dekka borð fyrir hundrað manns. Svo var etið og drukkið, sungið og leikið. Brúðhjónin geisluðu af hamingju og gestirnir sömuleiðis enda veitingarnar allar upprunnar úr eldhúsum ættarinnar og ekki af verri endanum.


Þegar líða fór á kvöldið fóru margir að tygja sig heim en ættin sat sem fastast. Bollukúturinn margfrægi var settur á borð og þvottabali fylltur af öldósum. Hækkað var í tónlistinni, kveikt á lituðu ljósaperunum í loftinu og dansað. 3 kynslóðir sameinuðust í tryllingslegri gleði, smábörnin snerust í hringi berfætt á fjósgólfinu og elstu frænkurnar tjúttuðu sem aldrei fyrr.


Dr. Tót sat stjarfur og fylgdist með gleðinni enda aldrei verið viðstaddur partí hjá stórfjölskyldunni. Honum var skilmerkilega gerð grein fyrir því af öðrum aðkomumönnum að það væri fullkomlega eðlilegt. Það væri að minnsta kosti þriggja partía aðlögun að venjast þessari fjölskyldu. 

Þar sem ég sat og spjallaði, sagði sögur, hló og skemmti mér fylltist ég gleði og hamingju. Yfir deginum, tilefninu og ekki síst fólkinu mínu. Það eru forréttindi að eiga það að. Brekknafólkið rokkar.


Víóluskrímslið - að eilífu

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Ofurgræjan pússimúsin

Flestar ofurhetjur eiga sér uppáhalds ofurgræju. Leðurblökumaðurinn á blökubílinn. Köngulóarmaðurinn ofurvefinn. Ofurmennið rauðu nærbuxurnar.

HandyGirl á sér líka uppáhaldsgræju. Það er PÚSSIMÚSIN.

Pússimúsin er handhægur juðari í laginu eins og lítið straujárn. Íklædd þykkum vinnuvettlingum með peltor á hausnum beitir HandyGirl pússimúsinni af list á dyrastafi og hurðir. Illa lakkaðir dyrakarmar eru eitur í beinum HandyGirl. Rekist hún á tvær innihurðir lakkaðar með mismunandi lakki á hún til að blóta hátt á kjarnyrtri íslensku. Þá kemur pússimúsin í góðar þarfir.

Þökk sé pússimúsinni sér loks fyrir endann á hvíta rykmekkinum sem hulið hefur NÝJU ÍBÚÐINA að undanförnu. Þá tekur við grár rykmökkur enda hefur viðkvæmi fræðimaðurinn tekið það að sér að sandsparsla veggina af miklum stórhug. Fræðimenn eru til margra hluta nytsamlegir. 

Víóluskrímslið - lítið eftir af höndunum

föstudagur, júlí 11, 2008

Handy Girl snýr aftur

Hljótt hefur verið um víóluskrímslið að undanförnu. Það þýðir þó ekki að lítið hafi verið um að vera, nei þvert á móti. Í júnílok skrapp ég til H-lands á víólunámskeið þar sem ég æfði mig meira á viku en ég hef gert allt undanfarið ár. 17 spilatímum og 4 tónleikum síðar nýtti ég mér h-lenskar almenningssamgöngur til að leita uppi gamla vini og urðu þar alls staðar fagnaðarfundir.
 
Á meðan ég var úti í víólubúðunum slóst dr. Tót við kerfið með dyggri aðstoð vina og ættingja. Lauk því ferli farsællega og fengum við lyklana að NÝJU ÍBÚÐINNI sl. föstudag. Það var því kátt víóluskrímsl sem gekk svo að segja beint úr flugrútunni og inn á nýja heimilið nokkrum dögum síðar. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og pláss fyrir enn fleiri bækur en mig minnti.

Síðan þá hefur víólan fengið að gista kassann sinn enda á leiðinni í yfirhalningu hvað úr hverju. Hins vegar hef ég séð ástæðu til að endurvekja gamalt alter-egó, eða HANDY-GIRL. Ofurhetjan Handy-Girl hefur farið hamförum með naglbít, skrúfjárn, sköfu, sandpappír og sporjárn undanfarna daga og býr nú heimilið í óða önn undir málningu og almenna fegrun. Með útvarpið á fullu blasti skrapar hún gamlan kísil úr baðkarinu og leysir stíflur úr niðurföllum. Á meðan þessu stendur vinnur dr. Tót ólaunaða yfirvinnu sem kandídat á Landspítalanum en ljær heimilinu krafta sína þegar kvölda tekur og sest er sól.

Lesendum mun gefast kostur á að fylgjast með framgangi mála á NÝJA HEIMILINU á næstu vikum. Handy-Girl er mætt á svæðið og svíkur engan!

Víóluskrímlið - sag í nefi

þriðjudagur, júní 10, 2008

Gleraugu - ástaróður

Einu sinni var ég spurð hvaða líkamshluta mér þætti vænst um. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Gleraugun.

Gleraugun?! Gleraugu eru ekki líkamshluti, var mér tjáð. Það gæti þó ekki verið fjær sannleikanum. Gleraugun mín eru jafn mikill hluti af mér og hárið, tærnar og eyrun. Allir sem hafa farið með mér í sund vita að gleraugnalaus er ég allslaus. Þess vegna er ég rosalega hrifin af því að sundfélagar mínir séu í litríkum sundfatnaði. Skræpóttu sundbuxurnar hans dr. Tót sjást til dæmis mjög vel jafnvel þótt maður sé hálfblindur.

Þessa ástríðu mína gagnvart gleraugunum mínum má rekja til æsku minnar. Þegar ég fæddist var ég svo rangeyg að annað eins hafði ekki sést á Íslandi í manna minnum. Barnamyndirnar af mér á fyrsta ári eru fallegar eftir því. Um eins árs aldur fór ég í aðgerð og var um nokkurra vikna skeið fræg í hverfinu sem "barnið sem augunum var snúið við í". Fljótlega eftir aðgerðina fékk ég mín fyrstu gleraugu. Þau voru svört með þykkri teygju sem smeygt var utan um kollinn á mér. Ég var ekkert sérlega hrifin af þeim þá en með markvissri atferlismeðferð (sjáðu hvað þú ert sæt með gleraugun) átti það eftir að breytast. Alla barnæskuna að undanskildu einu ári gekk ég með gleraugu. Ljótasti hrekkur sem hægt var að gera mér var að nappa af mér gleraugunum og hlaupa með þau burt. Sem betur fer gerðist það ekki oft.

Þar sem ég vandist því frá blautu barnsbeini að sjá mig í spegli með gleraugu varð sú mynd eðlileg í huga mér. Þetta eina ár sem ég gekk gleraugnalaus saknaði ég gleraugnanna og íhugaði að biðja foreldra mína um umgjarðir með rúðugleri svo ég liti amk. eðlilega út. Æðri máttur bænheyrði mig og gerði mig nærsýna með afbrigðum. Ég fékk aftur gleraugu og þótti gott.

Í dag get ég ekki hugsað mér ásýnd mína án gleraugna. Mér finnst ég asnaleg þegar ég er ekki með gleraugun. Ekki spillir það fyrir ást minni á gleraugum að til eru margar gerðir af eitursvölum umgjörðum. Um daginn eignaðist ég einar slíkar - flöskugrænar og frekjulegar. Ég hef verið í góðu skapi síðan.

Gleraugun eru það fyrsta sem ég set á mig á morgnana og það síðasta sem ég tek af mér á kvöldin. Ég elska gleraugun mín. Þau gera mig að heilli manneskju. Þess vegna segi ég að þau séu sá líkamspartur sem mér þykir vænst um. Að öllum hinum ólöstuðum.

Víóluskrímslið - briller

miðvikudagur, maí 28, 2008

Grand Theft Auto

Ég er ein þeirra sem þrjóskast við að aka um á löglegum hraða. Fyrir því eru nokkrar vel ígrundaðar ástæður.

1) Hraðakstur er ólöglegur. Ég hef hvorki efni á né löngun til að borga tugþúsundir króna í hraðasektir né missa prófið fari svo að löggan standi mig að verki.
2) Íslenskir vegir eru ekki byggðir fyrir hraðakstur. Dettur einhverjum í hug að bera saman þjóðveg 1 þar sem ekki einu sinni er búið að malbika hringinn og þýska autobana? Ekki mér.
3)Ég vil eiga betri séns á að bregðast við óvæntum uppákomum á veginum. Það er auðveldara á 90 km/klst en 140 km/klst.
4)Litli Rauður myndi springa í loft upp ef ég reyndi að þenja hann mikið yfir hundraðið.

Ég er tillitsamur ökumaður, ek hægra megin, gef alltaf stefnuljós og hleypi framúr mér hvenær sem tækifæri gefst til. Þannig tryggi ég að kransæðastíflaður forstjóri á fínum jeppa fari ekki á límingunum yfir því að þurfa að keyra á eftir Litla Rauð, of seinn sendibílstjóri komist í verkefni aðeins 20 mínútum of seint í stað 23 og að verkefnum hlaðin ofurkona komist að ná í krakkana í skólann áður en mætt er í ræktina, hráfæðisnámskeiðið og sjálfstyrkingarfélagskapinn. Opinberir eðalvagnar með blikkandi ljós fá sjálfsagðan forgang.

Þrátt fyrir þessa tillitsemi mína kemur það fyrir að erfitt er að hleypa bílum framúr sér. Bregða þá margir á það ráð að keyra svo fast upp að rassgatinu á Litla Rauð að maður sér augnlit viðkomandi ökumanns í baksýnisspeglinum. Með þessu móti vilja þeir fá mig til þess að aka hraðar. Auðvitað reyni ég að kom til móts við þetta fólk enda myndi ég valda þeim óbætanlegum andlegum skaða ef ég gerði það ekki. Að aka 10 km yfir hámarkshraða virðist oftast veita nokkra fróun og fegnir eru menn þeirri stund þegar mér tekst loks að hleypa þeim fram úr mér. Það hefur þó ósjaldan komið fyrir að sá fögnuður breytist í gremju, einkum ef löggan bíður hinum megin við hæð eða beygju.

Ég velti því oft fyrir mér af hverju við erum alltaf að flýta okkur svona mikið. Hverju máli skipta þessar örfáu mínútur sem vinnast með því að stíga allt í botn, liggja á flautunni og spæna upp íbúðahverfi á ofsahraða? Ég geri mér fulla grein fyrir því að það geta skapast aðstæður þar sem hraðakstur er nauðsynlegur - en þá er bara að skella koddaveri eða klósettrúllu út um gluggann svo allir sjái að þar sé neyðarakstur á ferð. Tengdapabbi, sem hefur séð ýmislegt misjafnt á gjörgæslunni síðustu áratugi hefur haft á orði að betra sé að vera 5 mínútum of seinn en að vera 50 ár í hjólastól. Það held ég sé nákvæmlega málið. Ekki nenni ég að liggja á flautunni lendi ég fyrir aftan gamlan kall með hatt á ljósum. Það skilar nákvæmlega engu - nema þá kannski helst að kallinn fái hjartaáfall og maður komist ekki af ljósunum fyrr en sjúkrabíllinn er búinn að athafna sig.

Slökum á.

Víóluskrímslið - max 100

sunnudagur, maí 25, 2008

Kartöflur

Fyrir nokkrum vikum vorum við dr. Tót að taka til í eldhúsinu. Ég var hálf inni í skáp að leita að týndum potti þegar dr. Tót fann kartöfluútsæðið sem ég var búin að fela vandlega í dimma horninu við hliðina á ísskápnum. Dr. Tót fannst vel spírað og lint kartöfluútsæðið viðbjóðslegt og heimtaði að fleygja því. Það var að sjálfsögðu ekki gert enda bað ég kartöflunum griða á þeim forsendum að um háþróaða tilraun væri að ræða. Vísindaleg rök virka iðulega við slíkar aðstæður.

Í dag gerðum við pabbi okkur ferð austur á ættaróðalið þar sem við stungum upp lítið beð, blönduðum það illa fengnum sandi og muldum í það þurrt hrossatað í blíðunni. Þegar okkur þótti nóg að gert settum við kartöflurnar niður og hlúðum ástúðlega að brothættum spírunum í moldinni. Að lokum vökvuðum við beðið með nýrunnu lindarvatni.

Nú bíð ég spennt eftir fyrstu grösunum. Heppnist þessi hávísindalega tilraun mín bætum við rófum við næst.


Víóluskrímslið - ár kartöflunnar

miðvikudagur, maí 21, 2008

Kynslóðabilið

Þeir sem hafa yndi af sundi vita vel að best er að fara að synda upp úr hálf ellefu á morgnana. Þá eru laugarnar hálftómar enda hádegistraffíkin ekki hafin og fastagestirnir yfirleitt farnir.
Þá er dýrlegt að eiga heila braut útaf fyrir sig og geta synt baksund án þess að hafa áhyggjur af því að vera fyrir einhverjum - eða, eins og stundum gerist, berja einhvern í rassinn því maður sér hann ekki.

Í gær gerði ég mér ferð í Laugardalslaug eins og oft áður. Þrátt fyrir að aðstaðan þar megi muna sinn fífil fegri þykir mér best að synda í 50 metra laug og hana er þar að finna. Í gær fór ég í sund á uppáhaldstímanum mínum og þegar ég lauk við að synda fór ég í nuddpottinn - sem virkaði í gær mér til mikillar gleði.

Nuddpotturinn var fullur af vel snyrtum frúm um sextugt. Þarna voru á ferð fulltrúar þjóðfélagshóps sem sést varla lengur á Íslandi, konum úr vel stæðum fjölskyldum sem voru aldar upp með það að markmiði að giftast vel og eignast snyrtileg og vel greidd börn. Umræðurnar báru vitni um heim sem er flestum lokaður, þar á meðal mér. Ein af annarri báru þær sig illa yfir viðhaldi og þrifum á heljarstóru einbýlishúsi, garðavinnu og limgerðaklippingum. Einnig fylgdi sögunni að ómögulegt væri að fá iðnaðarmenn á sumrin til sumarhúsabygginga og næðist í þá mættu þeir iðulega bæði seint og illa. Allar kvörtuðu þær yfir vinnuálagi á eiginmönnum sínum og því að þeir sæjust varla heima. Ein og ein lumaði á krassandi kjaftasögu um skilnað vinkonu sem ekki var mætt í pottinn. Mælt var með snyrtistofum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og því að versla í Hagkaup frekar en Bónus því þar væru færri Pólverjar á kassanum.

Ég sat þarna þögul og lét vatnið bylja á aumum víóluleikaraöxlum á meðan þær létu dæluna ganga og hugsaði með mér að þökk sé kvennabaráttunni mun ég hafa margt annað að spjalla um í heitapottinum þegar ég verð sextug. Ég kemst ekki hjá því að finnast ég vera afar heppin manneskja.

Víóluskrímslið - áfram stelpur

miðvikudagur, maí 07, 2008

Meðvirki kennarinn

Fyrir allnokkru tók ég þá ákvörðun að sækjast ekki eftir endurráðningu í öðrum skólanum sem ég kenni í. Ástæða þess er einföld - þegar ég hóf þar störf síðastliðið haust tók launadeildin í bæjarfélaginu upp á því að vefengja framhaldsnámið mitt á þeim forsendum að 8. stigið sem ég tók áður en ég fór út væri ekki sambærilegt við burtfararpróf. Launanefnd sveitarfélaga á reyndar eftir að bíta úr nálinni með það enda víóluskrímslið komið í samninganefnd FT - en staðreyndin er engu að síður sú að mér er nú borgað eins og ég hefði klárað kennaradeild í Tónó og aldrei farið neitt, þrátt fyrir að hafa eytt 4 og hálfu ári í útlandinu við nám og störf. Það er aldeilis gaman þegar maður er metinn svona vel að verðleikum.

Þrátt fyrir að staðan virtist borðleggjandi og ég löngu búin að tilkynna viðkomandi skólastjóra um ákvörðun mína veittist mér erfitt að segja nemendum mínum frá þessu og sló ég því vísvitandi á frest. Því lengur sem ég beið stækkaði kvíðahnúturinn í maganum og hjartað tók kipp í hvert sinn sem nemandi sagðist hlakka til að halda áfram hjá mér næsta skólaár. Loks hjó skólinn á hnútinn þegar hann sendi út lista yfir kennara skólans næsta skólaár. Nafnið mitt var ekki á listanum.

Ég brá við skjótt og sendi foreldrunum póst. Í dag gerði ég svo hreint fyrir mínum dyrum við börnin. Nokkur lítil augu fylltust tárum þegar ljóst varð að við yrðum ekki saman næsta skólaár. Það fannst mér ekki skemmtilegt. Meðvirki tónlistarkennarinn íhugaði meira að segja að hætta við að hætta og halda áfram að passa dýrmætu fiðlubörnin sín. Það ástand varði þó ekki lengi. Víst eru nemendur mínir yndislegir en maður verður að standa með sjálfum sér.

Vilji maður vera metinn að verðleikum þarf maður að standa með sjálfum sér. Það ætla ég að gera. Launanefndin á von á góðu í haust.


Víóluskrímslið - skerpir klærnar

laugardagur, apríl 19, 2008

Loksins loksins

Loks er komið að því. Stolt og glöð segi ég frá því að við dr. Tót höfum fest okkur íbúð og þar með hillir undir þá stund að ég hitti allar bækurnar mínar aftur.

Íbúðin er á Bergþórugötu og í göngufjarlægð frá menningarstofnunum eins og sundhöll Reykjavíkur, Landspítalanum og Vitabar.

AriKa sagði við þessar fréttir að loks yrði ég tilneydd til þess að horfast í augu við status minn sem borgaraleg læknisfrú í 101. Ég sagist munu gera það þegar dr. Tót skráði sig í símaskrána sem "víóluleikaraherra".

Mikið verður gaman að eiga loksins samastað í tilverunni.

Víóluskrímslið - im Juli

laugardagur, apríl 12, 2008

Vor innri víkingur

Í dag fékk yngri strengjasveitin í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar góða gesti, strengjasveitir frá Allegro Suzukiskólanum og Tónlistarskóla Kópavogs. Það var spilað og borðað til skiptis í heilan dag og allir skemmtu sér hið besta.

Í hádeginu skrapp allur hópurinn (tæplega 50 krakkar) út að skoða víkingaskipið Íslending sem stendur á Fitjunum svokölluðu í milli Njarðvíkanna tveggja. Skemmst er frá því að segja að sú ferð vakti stjórnlausa lukku. Hægt er að fara upp í skipið, standa uppi í stafni og þykjast stýra dýrum knerri og velta því fyrir sér að halda til hafnar, höggva mann og annan.

Þegar börnin voru komin upp í skipið var eins og á þau rynni æði. Litlar stúlkur æddu fram í stafn og hvöttu stallsystkin sín til blóðugra ofbeldisverka. Drengir í stígvélum fylltust hetjumóði og hjuggu til ímyndaðra óvina með ósýnilegum sverðum. Barn í blúndukjól froðufelldi af leikrænum vígamóði, urraði af víkinglegri grimmd og hótaði leikbræðrum sínum öllu illu hættu þeir ekki að efast um hennar stöðu á skipinu, hún væri víst víkingur þó hún væri í kjól.

Seinna um daginn héldu þessi sömu börn tónleika og spiluðu eins og englar. Það var kannski eitthvað við skipið, ég veit það ekki.


Víóluskrímslið - ÁRÁS!

þriðjudagur, mars 25, 2008

Tryllingurinn

Það verður seint sagt um mína nánustu fjölskyldu að þar sé aðeins að finna stökustu snyrtimenni með ofnæmi fyrir ryki. Tiltekt og þrif hafa gjarnan verið aftarlega á forgangslistanum enda skítt að eyða ævinni með tusku í annarri höndinni og moppu í hinni þegar hægt er að eyða henni í eitthvað miklu skemmtilegra - eins og tildæmis það að vinna vaktavinnu og sofa.

Þrátt fyrir að draslstandardinn sé öllu hærri þar en annars staðar kemur það fyrir að fjölskyldumeðlimir taka til hendinni og það svo um munar. Er þá farið um íbúðina eins og stormsveipur væri þar á ferð. Draslhaugar hverfa eins og hendi væri veifað, sett er í þvottavélar á færibandi og ryk moppað út úr myrkustu skúmaskotum. Þetta andsetna ástand varir í nokkrar klukkustundir og á þeim tíma tekst að umbreyta heilli íbúð úr pestarbæli í forsíðuefni á Hús og Híbýli.

Í okkar fjölskyldu gengur slíkt tiltektaræði undir nafninu "tryllingurinn". Að "taka trylling" þýðir semsagt að taka til. Tryllingurinn rennur einkum á fólk í aðdraganda jóla og páska en einnig kemur fyrir að hann geri vart við sig þegar minnst varir. Skyndilegt ógeð á draslinu í kringum sig getur komið af stað tryllingi og gildir þá einu hvað klukkan er þegar æðið rennur á mann. Hér hefur dr. Tót rekið upp stór augu er tryllingur rennur á okkur systur um miðnætti á miðvikudegi. Enda er hann ekki B maður.

Í dag var tekinn tryllingur hér á Langholtsvegi. Hann var í lengra lagi svo það er þokkalega víst að ekki verður þörf á öðru eins í bráð. Þó er aldrei að vita enda sést draslið allt svo miklu betur með hækkandi sól.


Víóluskrímslið - ekki er sama drasl og skítur

mánudagur, mars 03, 2008

Ævintýri á gönguför

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér á skerinu að veturinn hefur verið fremur harður. Dag eftir dag kyngir niður snjó sem þiðnar af og til en frýs svo jafnharðan aftur svo úr verður svell sem fær jafnvel svifryksfælna asmasjúklinga til þess að skipta yfir í nagladekk.

Það má segja litla Rauð til hróss að sama hvernig hefur viðrað á Reykjanesbrautinni í vetur hefur hann plægt sig í gegnum ófærðina eins og skriðdreki eiganda sínum til mikillar gleði og léttis. Með einni undantekningu þó.

Í fyrsta skotinu sem varð eftir áramót gerði ég þau mistök að leggja af stað í vinnuna án þess að hlusta á útvarpsfréttirnar. Ég vissi þar af leiðandi ekki að það var nánast ófært innanbæjar í Njarðvíkunum eftir snjókomu næturinnar. Ég lullaði úteftir á 60 eins og menn gera í vondu veðri og beygði grunlaus inn í bæinn. Rétt áður en ég kom að Akurskóla sá ég Schaferhund á veginum. Það var skafrenningur, él og hífandi rok og ekki gat ég séð að hundurinn væri í för með nokkrum manni. Ég opnaði dyrnar og kallaði á greyið sem þaut til mín eins og píla. Schaferhundar eru ekki gerðir fyrir íslenskt skítaveðurfar og veslingurinn skalf úr kulda. Hann var ómerktur og allslaus svo ég ákvað að taka hann upp í bílinn og láta lögguna vita af honum. Í óðagotinu beygði ég inn á bílastæðið við Akurskóla. Það reyndust stór mistök. Skriðdrekinn litli Rauður sat pikkfastur í 50 sm djúpum snjó og ég með bláókunnugan hund í bílnum.

Ég hringdi í vinnuna og lét vita að mér myndi seinka aðeins af ofangreindum ástæðum. Skólaritaranum fannst það frekar fyndið. Ég lagði á, hringdi í lögguna og lét vita af hundinum. Lögreglumaðurinn í símanum spurði hvort ég gæti komið með hundinn niður á lögreglustöð. Ég útskýrði hvers vegna það gengi ekki upp. Hann lofaði að senda bíl.

Góða stund sátum við saman í bílnum, ég og hundurinn. Ég spjallaði við hundinn sem virtist ágætlega sáttur við að sitja hjá mér. Klukkan tifaði og ég var orðin of sein í vinnuna. Hundurinn sleikti mig í framan. Það fór ekki vel með gleraugun. Eftir nokkurn tíma kom lögreglubíll og út úr honum stigu 2 lögreglumenn, sposkir á svip. Þeir stungu uppá því að losa bílinn áður en þeir tækju dýrið með sér. Það leist mér vel á. Hófst þá mikið vagg og velta, krydduð með háværum frethljóðum í bílnum sem eitthvað átti erfitt með ástandið. Við þetta hætti hundinum að standa á sama. Honum leist ekkert á fleygiferðina á bílnum og byrjaði að gelta hástöfum.

Þetta var ótrúlega súrrealískt. Ég sat þarna föst í skafli með snarbrjálaðan ókunnan hund hjá mér í framsætinu og tvo lögreglumenn og einn skólaliða að hossast á bílnum mínum hvers búkhljóð urðu síst kurteislegri við aðfarirnar. Við þetta bættist kjarnyrt blót frá sjálfri mér sem braust fram milli þess sem ég reyndi að sussa á hundinn.

Þökk sé hetjulegri framkomu hjálparmanna minna og lagni sjálfrar mín á 14 ára gamalli kúplingunni losnaði litli Rauður skjótt úr skaflinum. Hundurinn hætii að gelta. Ég brölti út úr bílnum og þakkaði bjargvættunum sem buðust til að taka "dýrið" með sér. Og það gerðu þeir.

Eftir þetta hef ég ekki lent í frekari hremmingum í vetrarfærðinni. Spurningin er aðeins sú hvenær ég rekst næst á einmana hund í éli á dimmum vetrarmorgni.

Víóluskrímslið - voff

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Fjölbreytileiki mannlífsins

Sumarið 1998 fékk ég sumarvinnu á Lækjarási, dagvist fyrir fatlaða. Þá var ég átján ára og ansi blaut á bak við eyrun en þar sem mamma er þroskaþjálfi og ég því svo gott sem fædd inn í bransann var mér treyst fyrir starfinu. Þetta sumar leið hratt enda mikið um að vera á Lækjarási. Ég kynntist fjölmörgu skemmtilegu fólki og sjálfri mér betur um leið. Þetta sumar hófst 10 ára ferill minn sem sumarstarfsmaður hjá Styrktarfélagi Vangefinna - ferill sem nú sér reyndar fyrir endann á þar sem ég er loksins orðin virðulegur launþegi og á rétt á sumarleyfi næsta sumar - eins og venjulegt fólk.

Frá Lækjarási lá leiðin í skammtímavistunina í Víðihlíð sem að öðrum ólöstuðum hlýtur að teljast einhver sú skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið. Ég vann þar hlutastarf með skóla í hátt í 3 ár. Í Víðihlíð kynntist ég fólki sem ég mun aldrei gleyma. Ýmislegt kom þar uppá, mannekla setti oft strik í reikninginn og fyrir kom að hasarinn varð svo mikill að ég þurfti að forða gleraugunum mínum á góðan stað áður en þau yrðu fyrir skakkaföllum en aldrei kveið ég því að fara í vinnuna. Sumir þeirra sem sóttu Víðihlíð eru horfnir yfir móðuna miklu en aðra hitti ég stundum á förnum vegi og mér þykir það alltaf skemmtilegt.

Síðustu sumur hef ég unnið á vöktum á sambýlinu í Barðavogi þar sem býr yndislegt fólk komið yfir miðjan aldur og tempóið eftir því. Enda róast maður með aldrinum.

Ég er sannfærð um að sú reynsla að hafa unnið með fötluðum hafi gert mig að betri og víðsýnni manneskju. Ekki aðeins hefur hún fengið mig til að hugsa um mitt eigið hlutskipti í lífinu á annan hátt heldur hef ég einnig neyðst til þess að takast á við eigin fordóma gagnvart fólki sem er ekki steypt í sama mót og flestir aðrir. Ég skildi að þó ég hefði alist upp með fatlað og þroskaheft fólk allt í kringum mig, væri ég ekki hótinu betri en aðrir sem höfðu enga innsýn inn í þennan heim. Ég sýndi sömu forsjárhyggju, talaði yfir fólk og um það í návist þess og skildi ekki að allir ættu rétt á einkalífi, starfi, hentugu búsetuformi og félagslífi. Það tók mig langan tíma að taka til hjá sjálfri mér og endurskoða hugarfar mitt til fólks í kringum mig. Ég komst loks að þeirri niðurstöðu að hamingjan er hugarástand og að það eiga sér gott og innihaldsríkt líf hefur ekkert að gera með hversu hátt menn skora á greindarprófum eða hvort þeir geti hlaupið grindahlaup.

Ríkasta og hamingjusamasta þjóð heims sem þó dregur fram lífið með því að bryðja þunglyndistöflur eins og smartís hefði gott af því að velta því aðeins fyrir sér. Öll höfum við eitthvað til brunns að bera og Guði sé lof að við erum ekki öll eins. Djöfull væri það leiðinlegt.


Víóluskrímslið - mælir með umönnunarstörfum sem þegnskylduvinnu fyrir ofverndaða unga frjálshyggjumenn

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Þrautakóngur

Eins og flestir vita sem hér reka inn nefið kenni ég tvo daga í viku úti í Reykjanesbæ. Þar er gott fólk og kátir krakkar. Hitt er svo annað mál að þeirri lífsreynslu að keyra Reykjanesbrautina fjórum sinnum í viku má helst líkja við að fara jafnoft í þrautakóng - nú eða "Jósep segir".

Sérstaklega er gaman að fara út að leika á Reykjanesbraut þegar langar raðir af ljósastaurum lýsa ekki í mikilli umferð og slæmu skyggni. Þá sleppir maður háu ljósunum enda slík ljós afar andfélagsleg við slíkar aðstæður - og tekur að trúa blint á dómgreind bílstjórans fyrir framan mann. Brautin er ennfremur stráð skemmtilegum og spennandi gildrum til þess að gæða ferðina spennu. Skilti ýmisskonar eru þannig staðsett að næsta ómögulegt er að sjá hvað stendur á þeim. Eykur það enn á skemmtigildið og auðgar líf vegfarenda.

Það er vonandi að vinna hefjist aftur við brautina sem fyrst. Enda er ég búin að fá nóg af þrautakóngi í bili. Hins vegar sé ég þá tíma í hillingum þegar ég get lullað á 90 hægra megin á tvöfaldri Reykjanesbraut án þess að hafa kransæðaþrengda geðsjúklinga á ljóslausum sendibílum á tryllingshraða á eftir mér.


Víóluskrímslið - Jósep segir ....

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Guck mal es schneit

Einu sinni gat ég talað þýsku. Svo flutti ég til Hollands.

Á næstu vikum munu hlutföll Íslendinga og Þjóðverja hér á heimilinu nálgast það sem gerist í fjallaskálum á Laugaveginum í júlí. Annegret vinkona mín, fiðlusmiður og víólusvín lendir á laugardaginn (jafnvel á Egilstöðum ef eitthvað er að marka veðurspána) og þar sem Róbert Margrétarmaður er hér staddur á sama tíma er hætt við að háþýskan muni klingja í eyrum næstu daga og vikur.

Sehr schön.

Í dag er hins vegar þriðjudagur-undirbúningsdagur og stefni ég á að njóta hans til fulls, íklædd náttfötum og ullarsokkum með Sibelius tónlistarforritið fyrir framan mig og fulla tekönnu mér á hægri hönd. Verkefni dagsins er að setja niður á blað alla þá tónstiga sem tveir nemenda minna eiga að spila á grunnprófi í fiðluleik í vor. Það gæti verið verra.


Víóluskrímslið - do re mí fa so la tí do

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Leiðarljós

Meirihlutaskiptin í borginni hafa helst minnt mig á illa skrifaða ameríska sápu, slíkur er aulahrollurinn sem þau skilja eftir sig. Borgarstjórn Reykjavíkur er ein allsherjar skrípamynd af fulltrúalýðræði. Það segir sig sjálft að á meðan enginn veit hver stjórnar borginni næsta sólarhringinn er ekki hægt að koma neinu í verk. Kannski er um þverpólitískt samsæri að ræða - skiptum bara nógu oft um stjórn, þá tekur enginn eftir því að við höfum ekki gert neitt af viti allt kjörtímabilið.

Auk þessa skildist mér að í gær hafi verið VERSTI DAGUR ÁRSINS í viðskiptalífinu.

Mér er alveg sama. Enda átti ég afmæli í gær og dagurinn var alveg hreint ágætur, takk fyrir.


Víóluskrímslið - 28 gera þversummuna 10

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Gleðilegt ár

...megi það verða enn gjöfulla en það liðna.

Jólahátíðin leið hjá sem ljúfur draumur - og ekki spillti Mahler fyrir. Mikið var etið og plastið rifið miskunnarlaust utan af nýjum bókum en eins og margir vita er það að rífa plast utan af bókum ein af mínum uppáhaldsiðjum.

Árið 2007 var það fyrsta í 5 ár sem ég eyddi í heild sinni á Fróni, fyrir utan örstutt skrepp til H-lands og Sviss í ágústmánuði. Á árinu bar það helst til tíðinda að ég tók bílpróf 10 árum of seint, flutti mig 2svar milli landshluta í atvinnuskyni, fór í mitt fyrsta áheyrnarpróf sem atvinnumaður, ófá atvinnuviðtöl og endaði á því að ráða mig í 100% starf á suðvesturhorni landsins sem varð óvart að 130% starfi. Auk þess greip ég öll gigg sem gáfust, sem voru þó nokkur enda eru víóluleikarar afar elskuð stétt. Allt þetta varð til þess að ég upplifði það í fyrsta sinn á æfinni að eiga afgang um mánaðamót og hafa efni á því að leggja fyrir. Enda er ég ekki dýr í rekstri.

Ég strengi aldrei áramótaheit enda nota ég alla þá sjálfstjórn sem ég bý yfir til þess að halda mér við efnið í starfi mínu og á engan afgang til þess að stunda slíkt. Hins vegar á ég mér afar vel skilgreinda drauma sem innihalda m.a. eigið húsnæði og þar með tækifæri til að hitta allar bækurnar mínar aftur, frekari framfarir í víóluleik og kött. Sumar konur á mínum aldri fara á barnaland.is og skoða myndir af ungabörnum. Ég fer á kattholt.is og skoða myndir af heimilislausum kettlingum. Svo langar mig að halda mörg matarboð þar sem lesið verður úr heimsbókmenntunum við góðar undirtektir boðsgesta.

Þetta verður gott ár.


Víóluskrímslið - mjá