Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, júlí 25, 2008

Sveitabrúðkaup


Um síðastliðna helgi var haldið brúðkaup á ættaróðali föðurættarinnar, Brekkum í Holtum. Sól skein í heiði og fjallahringurinn skartaði sínu fegursta þegar Elín frænka mín giftist Jóni sínum við mikinn fögnuð viðstaddra.


Á Brekkum var búið að flota gólfið í gamla fjósinu og raða upp heyrúllum á hlaðinu til að skýla veislugestum fyrir norðanáttinni. Fyrir fjóshurðinni var búið að stilla upp partítjaldi og dekka borð fyrir hundrað manns. Svo var etið og drukkið, sungið og leikið. Brúðhjónin geisluðu af hamingju og gestirnir sömuleiðis enda veitingarnar allar upprunnar úr eldhúsum ættarinnar og ekki af verri endanum.


Þegar líða fór á kvöldið fóru margir að tygja sig heim en ættin sat sem fastast. Bollukúturinn margfrægi var settur á borð og þvottabali fylltur af öldósum. Hækkað var í tónlistinni, kveikt á lituðu ljósaperunum í loftinu og dansað. 3 kynslóðir sameinuðust í tryllingslegri gleði, smábörnin snerust í hringi berfætt á fjósgólfinu og elstu frænkurnar tjúttuðu sem aldrei fyrr.


Dr. Tót sat stjarfur og fylgdist með gleðinni enda aldrei verið viðstaddur partí hjá stórfjölskyldunni. Honum var skilmerkilega gerð grein fyrir því af öðrum aðkomumönnum að það væri fullkomlega eðlilegt. Það væri að minnsta kosti þriggja partía aðlögun að venjast þessari fjölskyldu. 

Þar sem ég sat og spjallaði, sagði sögur, hló og skemmti mér fylltist ég gleði og hamingju. Yfir deginum, tilefninu og ekki síst fólkinu mínu. Það eru forréttindi að eiga það að. Brekknafólkið rokkar.


Víóluskrímslið - að eilífu

Engin ummæli: