Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, júlí 11, 2008

Handy Girl snýr aftur

Hljótt hefur verið um víóluskrímslið að undanförnu. Það þýðir þó ekki að lítið hafi verið um að vera, nei þvert á móti. Í júnílok skrapp ég til H-lands á víólunámskeið þar sem ég æfði mig meira á viku en ég hef gert allt undanfarið ár. 17 spilatímum og 4 tónleikum síðar nýtti ég mér h-lenskar almenningssamgöngur til að leita uppi gamla vini og urðu þar alls staðar fagnaðarfundir.
 
Á meðan ég var úti í víólubúðunum slóst dr. Tót við kerfið með dyggri aðstoð vina og ættingja. Lauk því ferli farsællega og fengum við lyklana að NÝJU ÍBÚÐINNI sl. föstudag. Það var því kátt víóluskrímsl sem gekk svo að segja beint úr flugrútunni og inn á nýja heimilið nokkrum dögum síðar. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og pláss fyrir enn fleiri bækur en mig minnti.

Síðan þá hefur víólan fengið að gista kassann sinn enda á leiðinni í yfirhalningu hvað úr hverju. Hins vegar hef ég séð ástæðu til að endurvekja gamalt alter-egó, eða HANDY-GIRL. Ofurhetjan Handy-Girl hefur farið hamförum með naglbít, skrúfjárn, sköfu, sandpappír og sporjárn undanfarna daga og býr nú heimilið í óða önn undir málningu og almenna fegrun. Með útvarpið á fullu blasti skrapar hún gamlan kísil úr baðkarinu og leysir stíflur úr niðurföllum. Á meðan þessu stendur vinnur dr. Tót ólaunaða yfirvinnu sem kandídat á Landspítalanum en ljær heimilinu krafta sína þegar kvölda tekur og sest er sól.

Lesendum mun gefast kostur á að fylgjast með framgangi mála á NÝJA HEIMILINU á næstu vikum. Handy-Girl er mætt á svæðið og svíkur engan!

Víóluskrímlið - sag í nefi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku frænka
Til hamingju með íbúðarkaupin!! ohh þetta er svo gaman :D
kv. Erla M

Nafnlaus sagði...

vá hvað ég væri til í að fá handy girl í heimsókn ;-)!! En vá flott að allt gekk vel, ég hata svona búrokrata-drama (og þau þekki ég of vel eftir umsóknarferlið til USA)! Kær kveðja, Sirrý