Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, október 22, 2008

Náungakærleikur

Undanfarna daga og vikur hefur rignt yfir mig tölvupóstum og smáskilaboðum frá vinum og kunningjum erlendis. Erindið er yfirleitt það sama, að athuga hvort ég sé nokkuð komin á kúpuna og búi nú í pappakassakólóníu á Lækjartorgi. Þegar er búið að bjóða mér húsaskjól og aðstoð við atvinnuleit í fjórum löndum.

Öllum léttir þegar ég segi stöðu okkar dr. Tóts vera ágæta miðað við aðstæður. Enda er fréttaflutningur erlendis á þann veg að ætla mætti að hér réði hnefarétturinn við kassann í Bónus, að kveikt væri í bílum í úthverfum á kvöldin og útgöngubann eftir 21 væri í fullu gildi.

Það kreppir að - en sjaldan eða aldrei hafa eins margir bílar stoppað fyrir mér á gangbraut og einmitt þessa dagana. Það skyldi þó aldrei fara svo að Íslendingum tækist að fá nýja sýn á lífið.

Víóluskrímslið - óbærilega bjartsýnt

laugardagur, október 11, 2008

Ó þetta er indælt stríð

Á sínum tíma fór íslenska efnahagsundrið algerlega framhjá mér enda bjó ég þá í H-landi og dró fram lífið á baunum í boði Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það gekk sæmilega enda gætti ég þess að skipta oft um baunasortir.

Eins og góðærið fór fram hjá mér stefnir allt í að efnahagslægðin geri það líka. Ég á nefnilega ekki neitt til þess að hafa áhyggjur af. Stundum hefur það sína kosti að hafa engu að tapa.

Á meðan við höldum vinnunni og þaki yfir höfuðið hef ég ekki áhyggjur af neinu. Það er ekki heimsendir þó baunauppskriftirnar verði dregnar fram á ný.

Svo legg ég til að frjálshyggjupattarnir verði skikkaðir í samfélagsþjónustu. Mig hefur alltaf langað að sjá Hannes Hólmstein skúra í annarra manna húsum.

Víóluskrímslið - stóísk ró

þriðjudagur, október 07, 2008

Speki dagsins

Ég hlustaði á Pulp á leiðinni heim úr vinnunni í gærkvöldi. Þar var eftirfarandi texta að finna;

,,What´s the point of being rich, if you can´t think of what to do with it - cause you´re so bleedin´ THICK."

Góður punktur, hugsaði ég og keyrði Reykjanesbrautina í rólegheitum á mínum 14 ára fjallabíl sem er sem betur fer ekki á myntkörfuláni.

Ætla ekki annars allir að mæta í jarðarför nýfrjálshyggjunnar?

Víóluskrímslið - verður seint sakað um Þórðargleði