Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, júlí 25, 2008

Sveitabrúðkaup


Um síðastliðna helgi var haldið brúðkaup á ættaróðali föðurættarinnar, Brekkum í Holtum. Sól skein í heiði og fjallahringurinn skartaði sínu fegursta þegar Elín frænka mín giftist Jóni sínum við mikinn fögnuð viðstaddra.


Á Brekkum var búið að flota gólfið í gamla fjósinu og raða upp heyrúllum á hlaðinu til að skýla veislugestum fyrir norðanáttinni. Fyrir fjóshurðinni var búið að stilla upp partítjaldi og dekka borð fyrir hundrað manns. Svo var etið og drukkið, sungið og leikið. Brúðhjónin geisluðu af hamingju og gestirnir sömuleiðis enda veitingarnar allar upprunnar úr eldhúsum ættarinnar og ekki af verri endanum.


Þegar líða fór á kvöldið fóru margir að tygja sig heim en ættin sat sem fastast. Bollukúturinn margfrægi var settur á borð og þvottabali fylltur af öldósum. Hækkað var í tónlistinni, kveikt á lituðu ljósaperunum í loftinu og dansað. 3 kynslóðir sameinuðust í tryllingslegri gleði, smábörnin snerust í hringi berfætt á fjósgólfinu og elstu frænkurnar tjúttuðu sem aldrei fyrr.


Dr. Tót sat stjarfur og fylgdist með gleðinni enda aldrei verið viðstaddur partí hjá stórfjölskyldunni. Honum var skilmerkilega gerð grein fyrir því af öðrum aðkomumönnum að það væri fullkomlega eðlilegt. Það væri að minnsta kosti þriggja partía aðlögun að venjast þessari fjölskyldu. 

Þar sem ég sat og spjallaði, sagði sögur, hló og skemmti mér fylltist ég gleði og hamingju. Yfir deginum, tilefninu og ekki síst fólkinu mínu. Það eru forréttindi að eiga það að. Brekknafólkið rokkar.


Víóluskrímslið - að eilífu

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Ofurgræjan pússimúsin

Flestar ofurhetjur eiga sér uppáhalds ofurgræju. Leðurblökumaðurinn á blökubílinn. Köngulóarmaðurinn ofurvefinn. Ofurmennið rauðu nærbuxurnar.

HandyGirl á sér líka uppáhaldsgræju. Það er PÚSSIMÚSIN.

Pússimúsin er handhægur juðari í laginu eins og lítið straujárn. Íklædd þykkum vinnuvettlingum með peltor á hausnum beitir HandyGirl pússimúsinni af list á dyrastafi og hurðir. Illa lakkaðir dyrakarmar eru eitur í beinum HandyGirl. Rekist hún á tvær innihurðir lakkaðar með mismunandi lakki á hún til að blóta hátt á kjarnyrtri íslensku. Þá kemur pússimúsin í góðar þarfir.

Þökk sé pússimúsinni sér loks fyrir endann á hvíta rykmekkinum sem hulið hefur NÝJU ÍBÚÐINA að undanförnu. Þá tekur við grár rykmökkur enda hefur viðkvæmi fræðimaðurinn tekið það að sér að sandsparsla veggina af miklum stórhug. Fræðimenn eru til margra hluta nytsamlegir. 

Víóluskrímslið - lítið eftir af höndunum

föstudagur, júlí 11, 2008

Handy Girl snýr aftur

Hljótt hefur verið um víóluskrímslið að undanförnu. Það þýðir þó ekki að lítið hafi verið um að vera, nei þvert á móti. Í júnílok skrapp ég til H-lands á víólunámskeið þar sem ég æfði mig meira á viku en ég hef gert allt undanfarið ár. 17 spilatímum og 4 tónleikum síðar nýtti ég mér h-lenskar almenningssamgöngur til að leita uppi gamla vini og urðu þar alls staðar fagnaðarfundir.
 
Á meðan ég var úti í víólubúðunum slóst dr. Tót við kerfið með dyggri aðstoð vina og ættingja. Lauk því ferli farsællega og fengum við lyklana að NÝJU ÍBÚÐINNI sl. föstudag. Það var því kátt víóluskrímsl sem gekk svo að segja beint úr flugrútunni og inn á nýja heimilið nokkrum dögum síðar. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og pláss fyrir enn fleiri bækur en mig minnti.

Síðan þá hefur víólan fengið að gista kassann sinn enda á leiðinni í yfirhalningu hvað úr hverju. Hins vegar hef ég séð ástæðu til að endurvekja gamalt alter-egó, eða HANDY-GIRL. Ofurhetjan Handy-Girl hefur farið hamförum með naglbít, skrúfjárn, sköfu, sandpappír og sporjárn undanfarna daga og býr nú heimilið í óða önn undir málningu og almenna fegrun. Með útvarpið á fullu blasti skrapar hún gamlan kísil úr baðkarinu og leysir stíflur úr niðurföllum. Á meðan þessu stendur vinnur dr. Tót ólaunaða yfirvinnu sem kandídat á Landspítalanum en ljær heimilinu krafta sína þegar kvölda tekur og sest er sól.

Lesendum mun gefast kostur á að fylgjast með framgangi mála á NÝJA HEIMILINU á næstu vikum. Handy-Girl er mætt á svæðið og svíkur engan!

Víóluskrímlið - sag í nefi