Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, mars 31, 2006

Föstudagur í Helsinki

Eins og Íslendingar eru Finnar miklir túramenn - sérstaklega þegar drykkja er annars vegar. Hér er alkóhólismi landlægt vandamál en öfugt við þróunina heima á Íslandi þar sem menn segja stoltir frá því í fjölskylduboðum að þeir séu komnir í AA leitar fólk hér sér sjaldnast hjálpar við áfengisfíkn. Alkóhólismi er hálfgert feimnismál í Finnlandi. Það finnst mér pínulítið fyndið enda hef ég hvergi séð eins mikið af rónum og hér.

Með því að nota orðið "róni" á ég ekkert endilega bara við útigangsmenn. Ef eitthvað er eru þeir yfirleitt edrú blessaðir. Finnskir rónar eiga oftar en ekki fjölskyldur og þak yfir höfuðið. Þeir eru hins vegar túradrykkjumenn sem leggjast út nokkra daga í senn og snúa svo til baka í faðm fjölskyldunnar, illa til reika og úrvinda eftir taumlausa drykkju. Finnar standa mjög framarlega í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og í takt við það eru líka heilmargir kvenkyns rónar á ferli. Oftar en ekki afar vel til fara - þó varaliturinn hafi kannski ekki alveg endað á réttum stað.

Í dag er föstudagur. Það þýðir að annar hver maður í neðanjarðarlestinni er fullur. Það finnst manni nú bara kósí enda slær það á heimþrána að finna bjórfnykinn svífa yfir vötnum og hlusta á umlið í miðaldra konum með tígrisdýrasólgleraugu sem eru búnar að missa af stoppinu sínu tvisvar í röð. Stundum þarf maður að lyfta undir fólk svo það klemmist ekki í hurðinni á leiðinni út eða hrynji niður af bekknum sem það situr á. En það er nú bara sjálfsagður náungakærleikur.

Í dag var ég í strætó á leið niður í bæ þegar unglingsstúlka nokkur kastaði upp yfir sig alla. Mér sýndist hún eiga í mestu erfiðleikum með að átta sig á því hvað hefði komið fyrir enda leit hún til skiptis á rennblautar hendurnar á sér og á pollinn á gólfinu. Eftir smá stund gerði ég mér grein fyrir því að ég var líklegast eina manneskjan í strætó sem þótti þetta undarlegt athæfi. Þegar strætóinn náði endastöð potaði ég í stúlkuna sem virtist vera á góðri leið með að svífa inn í algleymið og togaði hana út úr strætó. Hún hreyfði engum mótmælum þegar ég lét hana halla sér upp að vegg svo hún dytti ekki. Heldur ekki þegar ég skrapp inn í næsta banka og bað þjónustufulltrúa að hringja á lögregluna svo hún gæti sofið úr sér á öruggum stað. Þegar löggan kom var hún hins vegar ekki eins ánægð. Ég missi ekki svefn yfir því.

Ég ætla aldrei að verða róni. Ég er sannfærð um að það sé allt of erfitt fyrir viðkvæmt fólk eins og mig. Maður þarf að vera virkilegt hörkutól til að höndla slíkan lífsstíl. Eða búa yfir mörgum leyndarmálum sem þarf að gleyma.


Víóluskrímslið - í helgarbyrjun

þriðjudagur, mars 28, 2006

Hvernig þvo skal lopapeysu



Næstkomandi laugardag held ég í vikureisu norður til Samalands. Fjölskylda Önnu vinkonu minnar er búin að taka þar á leigu vænan heilsársbústað nálægt Ylläs skíðasvæðinu og við Matias teikum með. Þetta þykir mér afar spennandi enda er búið að lofa mér stjörnubjörtum nóttum og norðurljósadýrð. Þó verður að viðurkennast að ég kvíði örlítið fyrir því að stíga á skíði eftir 12 ára hlé. Síðast fór ég á skíði upp í Bláfjöll með 9. bekk Ölduselsskóla og tókst næstum því að fremja þar sjálfsmorð með því að fara í allar bröttustu brekkurnar - þó ég kynni tæknilega séð ekkert á skíði.

Þó farið sé að hlána hér suðurfrá er enn brunagaddur í norður Finnlandi. Þegar ég fór í gegnum ullarbirgðir heimilisins í huganum á leiðinni heim í strætó áttaði ég mig á því að ég hef ekki þvegið ullarpeysuna mína síðan á síðustu öld. Þar sem ég er við það að leggja upp í mikla háskaför ákvað ég að best að þvo peysuna áður haldið verður af stað. Ef mér verður á að hálsbrjóta mig á skíðum (7,9,13) vil ég allavega vera í hreinni ullarpeysu við það tækifæri.

Ég kom heim og skellti mildu sápuvatni í baðkarið. Ofan í það tróð ég ullarpeysunni og þeim ullarflíkum sem fengið hafa að drekka í sig saltið af götum Helsinki síðan í janúar. Vatnið varð undireins svart. Oj bara. Ég skipti um vatn. Það varð samstundis grátt. Smá framför þar á ferð. Þessu hélt ég áfram góða stund. Hnoðaði ullina varlega ofan í vatninu eins og maður á að gera og tíndi 10 ára gamalt lyng úr kraganum á peysunni. Þegar vatnið var orðið sæmilega tært kreisti ég úr minni ástkæru ullarpeysu, lagði hana á milli tveggja handklæða, setti 123 Selfoss með Love Guru á fóninn og dansaði gleðidans ofan á peysusamlokunni í nokkrar mínútur.

Nú hangir hún til þerris, blessunin, mér og skapara sínum (ömmu) til sóma. Verst að hún verður líklega falin undir neongræum ´80 skíðagalla allan tímann sem við verðum fyrir norðan.


Víóluskrímslið - sérfræðingur

mánudagur, mars 27, 2006

Days of wine and roses

...eða öllu heldur dagar öls og sánu. Mér til mikillar gleði reif Tóti sig úr klóm læknadeildar í nokkra daga og kom í helgarferð til Helsinki. Að sjálfsögðu gáfum við hvort öðru rómantískar gjafir í tilefni þessa, hann fékk strætókort en ég hálft kíló af Nóakroppi og lýsi. Það mátti ekki á milli sjá hvort okkar var ánægðara.

Nú er hann farinn aftur. Það eru tveir mánuðir þar til ég kem heim. Ég er sannfærð um að þeir verða jafn fljótir að líða og þeir þrír sem af eru. Enda hefur mér aldrei liðið jafn vel í útlegðinni og nú. Ég er greinilega ekki gerð fyrir sunnlægar breiddargráður.


Víóluskrímslið - að springa úr heilbrigði

þriðjudagur, mars 21, 2006

Matti

Í gærkvöldi átti ég í mestu vandræðum með að sofna. Því settist ég við tölvuna og hóf að fletta vefblöðunum í gríð og erg. Eftir að hafa flett um stund rak ég upp roknahlátur. Ástæðan var sú, að ég hafði rekist á heilsíðugrein DV um Matta Nykänen, frægustu örlagafyllibyttu Finnlands.

Þeir sem muna eftir vetrarólympíuleikum níunda áratugar síðustu aldar muna ábyggilega eftir Matta Nykänen sem þá rakaði að sér verðlaunum í skíðastökki. Á tíunda áratugnum fór ekki mikið fyrir Matta enda var hann þá löngu hættur að stökkva og farinn að vinna fyrir sér sem einkastrippari dóttur eiganda stærstu pulsugerðarverksmiðju Finnlands. Undanfarin ár hefur Matti þessi ítrekað komist í sviðsljósið fyrir

1) að vera fullur heima hjá sér
2)að vera fullur alls staðar annars staðar
3) að lemja konuna sína
4)að hóta að drepa konuna sína
5)að vera laminn af konunni sinni
6)að flýja morðhótanir konunnar sinnar
7)að byrja aftur með konunni sinni
8)að kæra konuna sína
9)að vera kærður af konunni sinni
10)að gefa út (afspyrnulélegan) geisladisk
11)að hætta með konunni sinni (x 1000)
12)að byrja enn og aftur með konunni sinni (x 1001)
13)að leika í (afspyrnulélegri) mynd um skrautlegt lífshlaup sitt
14)að gefa út (afspyrnulélega) bók um sama lífshlaup
15)að halda fram hjá konunni sinni
16)að neita því að hafa haldið framhjá konunni sinni
17)að hóta meintum elskhugum konunnar sinnar
18)að vera handtekinn fyrir númer 2, 3, 4 og 17
19)að fara reglulega í hljómleikaferðir um Finnland
20)að koma fyrir í hverju einasta slúðurblaði í Finnlandi amk einu sinni í viku eða oftar.

Ég held að það sé rosalega erfitt að vera Matti Nykänen. En hann gleður augu okkar sakleysingjanna.


Víóluskrímslið - ívöl knívöl

sunnudagur, mars 19, 2006

Geir

Eftir að hafa eytt kvöldinu í kvöld yfir leiðinlegum Ruth Rendell krimma í sænskri þýðingu (geri það aldrei aftur) og borðað seigar saltstangir með (gleymdi að loka pokanum í gær) var ég orðin það deprímeruð að ég greip til örþrifaráða.

Litla systir hafði gaukað því að mér að þátturinn Kallarnir á sjónvarpsstöðinni Sirkus væru með steiktara sjónvarpsefni. Mér varð ljóst að til þess að rífa mig upp úr Ruth Rendell hyldýpinu dygðu engin vettlingatök. Ég kveikti því á tölvunni og rakti mig inn á síðu Vísis Veftívís. Þar var úr nógu að velja. Einhvers staðar hafði ég heyrt að þátturinn þar sem Davíð Þór Jónsson var tekinn í bakaríið væri orðinn sígilt sjónvarpsefni. Ég smellti á hlekkinn og hóf að horfa á þáttinn.

Litla systir hafði haft rétt fyrir sér. Ég stóð mig að því að hlæja upphátt oft og mörgum sinnum. Minninginn um Rendell reyfarann var óðum að fjara út í huga mér. Þegar leið að lokum þáttarins var ég komin í býsna gott skap.

EN ÓGN OG SKELFING

Á svæðið mætti enginn annar en Geir Ólafsson og tók að serða plastfígúru á bílhúddi með hörmulegum tilþrifum. Ég hef hingað til haft ágætis mætur á Geir og heiðraði hann m.a. fyrir nokkrum árum með því að mæta í gervi hans á grímuball syngjandi My Way í falsettu fyrir alla sem ekki vildu heyra. Mál manna var að ég hefði náð að halda mér vel í karakter enda var ég með dragdrottningu upp á arminn allt kvöldið og náði að brjóta að minnsta kosti eitt glas. Það er ljóst að þetta geri ég þó aldrei aftur.

Næst mæti ég sem Davíð Þór, heltanaður með brúnni skósvertu frá Kivi.


Víóluskrímslið - takmörk fyrir hlutunum

föstudagur, mars 17, 2006

Forréttindi

Það eru forréttindi að vera Íslendingur í Finnlandi. Í dag tók gjaldkerinn í bankanum það upp hjá sjálfri sér að kenna mér að borga reikninga í hraðbankanum (á finnsku) svo ég þurfi ekki framar að greiða færslugjöld við slík tækifæri. Þegar ég þakkaði henni liðlegheitin svaraði hún því til að einu sinni þegar hún var lítil hafi hún átt íslenska pennavinkonu og að ég minnti á hana. Magnað.


Eurovision

Þeir sem halda að Íslendingar séu einir þjóða um að gefa skít í Eurovision í ár ættu að líta á framlag Finnlands til sömu keppni í ár.


Brúðkaupsþátturinn í Samalandi

Finnar eru eins og Íslendingar "framarlega" í gerð alls kyns raunveruleikasjónvarps. Þeir eru m.a með barþjónakeppni í beinni, hið sívinsæla fótboltalið FC Nördit (FC Nördar) og að sjálfsögðu brúðkaupsþátt á sínum snærum.

Í brúðkaupsþætti kvöldsins var sýnt frá heljarinnar brúðkaupi norður í Samalandi þar sem 31 eins árs hreindýrabóndi og einstæð móðir gekk í það heilaga með 19 ára skógarhöggsmanni. Skötuhjúin keyptu hringana í póstkröfu, létu ömmu brúðarinnar sauma á sig nýja þjóðbúninga og buðu svo upp á hreindýrasteik, öl og karaoke í tjaldi á skólalóð þorpsins. Gleðin var ósvikin.


Víóluskrímslið - Nörd

fimmtudagur, mars 16, 2006

Bless her

Þau stórtíðindi bárust mér í gær að herinn væri á leiðinni burt. Það þótti mér gott að heyra. Samband mitt við herinn hefur aldrei verið gott enda lærði ég að segja "Ísland úr Nató, herinn burt" áður en ég lærði að fara með faðirvorið. Ekki síst hermannanna vegna.

Í hvert sinn sem ég og mín fjölskylda keyrðum fram hjá herstöðinni á leið út á flugvöll eða í sunnudagsbíltúr til Sandgerðis virti ég fyrir mér vistarverur hermannanna og vorkenndi veslings mönnunum að þurfa að hírast þar fyrir innan allan gaddavírinn. Einu sinni þegar við pabbi vorum að keyra mömmu út á flugvöll ákváðum við á bakaleiðinni að renna upp að vallargirðingunni og kíkja á gettóið fyrir innan. Við vorum fljótt stoppuð af af vopnuðum mönnum í einkennisbúningum. Enda vorum við á Lödunni og fúlskeggjaður faðir minn með þessa fínu loðhúfu á hausnum.

Meðan ég vann enn við afgreiðslustörf í fordyri helvítis IKEA komu af og til heilu hjarðirnar af húsmæðrum af vellinum þangað í innkaupaferðir. Þær litu allar eins út, feitlagnar, ljóshærðar með permanent og bleikan varalit í prjónapeysum og niðurþröngum gallabuxum sem föðmuðu á þeim umfangsmikla bakhlutana. Einu sinni seldi ég einni þeirra 100 snaga í barnaherbergi. Hvað hún hefur ætlað að gera við þá er mér ráðgáta enn í dag. Kannski fólk verði svona þegar það fær aldrei að fara út.

Þó mér hafi aldrei verið vel við veru bandaríska hersins á Íslandi og vorkennt þeim fjöldamörgu vitleysingum sem þar hafa þurft að þreyja Þorrann og Góuna þar til þeir misstu vitið og fóru að drepa hver annan, veldur eitt mér þó áhyggjum. Þegar herinn fer tekur hann með sér allt sitt hafurtask, og þar með talið þyrlurnar. Það eru slæmar fréttir fyrir Íslendinga, sem eiga eins og er enga starfhæfa þyrlu. Eigi Íslendingar að geta staðið almennilega að björgunarstarfi á Íslandi verður að vera til þyrla í lagi og helst tvær. Annars geta menn farið að biðja fyrir sér. Það er ekki hægt um vik að sækja veika menn og slasaða upp á hálendi eða út á sjó án þess að hafa yfir slíku flygildi að ráða. Hvað þá ef menn lenda í sjálfheldu vegna náttúruhamfara og nóg er af þeim á Íslandi. Fer ekki annars að koma Kötlugos? Pant ekki standa uppi á Pétursey með jökulhlaup og öskufall allt um kring - og engin björgunarþyrla í lagi í landinu.

Ef ég hef skilið fréttirnar rétt geta Íslendingar leitað á náðir þyrlusveitar hersins í eitt túristasumar í viðbót. Hitt er svo annað mál að eftir það verðum við að fara að sjá um okkur sjálf. Það er alltof langt að sækja þyrlur til Danmerkur þegar menn eru að krókna úr kulda niðri í jökulsprungu.


Víóluskrímslið - bless Wendy´s

þriðjudagur, mars 14, 2006

Akkilesarhæll

Síðan á laugardag hefur mér liðið eitthvað undarlega í hægri fætinum. Eftir að hafa lýst vandanum fyrir Tóta með hjálp alnetsins og hann fengið mig til að fremja ýmsar leikfimikúnstir í gegnum símann kvað hann upp úrskurð þess efnis að ég væri líklegast tognuð í hægri hásininni.

Það finnst mér frámunalega hallærislegt. Ég og mín fjölskylda erum þó engan veginn ókunnug því að lenda í hallærislegum smáslysum. Sjúkraskráin okkar niðri á Slysó er án efa eitt fyndnasta plagg sem til er á íslensku. Þar má lesa um týndar smátölur djúpt í nösum lítilla barna, títuprjón í stórutá fjölskyldufeðra, tognaðar iljar sem hindra mæður í að ganga upp stiga, tognaðan háls stórusystur eftir kílómeters langa byltu niður Gilið á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og hálfafskorna fingur eftir að ónefnd litlasystir reyndi að skera sér rófu alveg sjálf.

Tognuð hásin passar akkúrat inn í þessa fáránlegu upptalningu.

Samkvæmt sérlegu læknanemaráði ætti ég að taka því rólega næstu daga og vikur og gæta þess að reyna ekki of mikið á akkilesarhælinn. Auk þess þarf ég að eyða peningum (sem ég á ekki lengur eftir gengisfellinguna) í lága skó sem ekki nuddast við hásinina. Það finnst mér satt að segja heldur blóðugt. Þegar ég vaknaði í morgun og mundi eftir fyrirætluðum skókaupum fór ég næstum því í vont skap. Það rann þó fljótt af mér eftir að ég setti á barnaplötu með M.A. Numminen og barnakórnum hans (sem syngur tandurhreint, öfugt við alla aðra barnaplötukóra heimsins) og hitaði mér fullan ketil af sterku tei. Maður þarf ekki að æsa sig yfir svona smámunum.

Þó veldur það mér nokkrum áhyggjum að ég get ekki með nokkru móti áttað mig á því hvernig ég fór að þessu.


Víóluskrímslið - hálf móbílt

sunnudagur, mars 12, 2006

Framtíðarsýn

Á mannamótum þar sem samankomnir eru Íslendingar búsettir í útlöndum verður mönnum oft tíðrætt um ástand þjóðmála á Íslandi. Sem von er. Íslendingar sem dvalist hafa lengi erlendis sjá Ísland oft í hillingum. Þeir Íslendingar sem fylgjast með fréttum að heiman eru þó yfirleitt fljótir að losna við þá draumsýn.

Það sem af er minni dvöl fjarri heimahögum held ég að ég hafi aldrei tekið þátt í jákvæðum samræðum um það efni. Menn virðast yfirleitt sammála um að allt sé að fara til fjandans á Íslandi. Ungt fólk hugsar til þess með hryllingi að flytja heim í brjálæðislegt neyslukapphlaupið að námi loknu á meðan þeir sem eldri eru gráta týnt sakleysi fjallkonunnar. Menn velta fyrir sér forgangsröðun íslenskra stjórnvalda í heilbrigðis og menntamálum, auðsöfnun og græðgi í viðskiptalífinu, skuldasöfnun almennings og eilífu stressinu sem virðist vera að drepa allt og alla. Oft finnst mönnum það að fara heim í frí eins og að sogast inn í geðveikislega hringiðu sem sýgur úr manni allan mátt. Nýjustu fréttir að heiman eru oft gerðar að umtalsefni. Síðustu fréttir af fyrirhuguðu álmusteri í Eyjafirði og mögulegri einkavæðingu vatnsveitu á Íslandi hleyptu illu blóði í marga, þar á meðal mig. Gengisfelling krónunnar stefnir í að kosta marga fátæka námsmenn sem fá námslán sín greidd í íslenskum krónum stórfé. Þær fréttir urðu heldur ekki til þess að gleðja marga.

Íslendingar sem lengi hafa dvalist erlendis lýsa einkavæðingarfylleríinu á Íslandi sem svo að Íslendingar reyni aldrei neitt nema það hafi örugglega mistekist annars staðar.

Samt þykir mönnum vænt um landið sitt. Þeir gæta þess að tala fallega íslensku og tala um sögu Íslands og náttúru þess af miklu stolti. Það er kannski þess vegna sem svartsýnin heltekur þá þegar rætt er um íslensk þjóðmál. Landið sjálft er nefnilega stórkostlegt. Það eru íslensk stjórnvöld sem eru að fara með það til fjandans.

Ég er ekki ofbeldishneigð manneskja að eðlisfari. Ríkisstjórn Íslands og aðrir ráðamenn mega prísa sig sæla fyrir það. Ég myndi nefnilega brenna mun fleira en fána kæmist ég í tæri við það fólk sem er að skemma framtíðina fyrir mér, börnum mínum og barnabörnum. Ekki vegna þess að það myndi breyta nokkrum sköpuðum hlut.

Mér myndi bara líða miklu betur á eftir.


Víóluskrímslið - bálreitt

laugardagur, mars 11, 2006

Bekkjarbræður mínir

Í gær hélt kennarinn minn hóptíma fyrir bekkinn sinn. Við mættum sex og spiluðum hvert fyrir annað. Það gekk ágætlega, ekki síst eftir að versti glímuskjálftinn var farinn.

Eftir tímann fengu allir þá hugmynd samtímis að fara á hverfiskrána Meritahti og fá okkur einn öl. Það gerðum við. Eftir skamma stund voru allir komnir í mikið stuð. Sérstaklega bekkjarbræður mínir.

Um ellefuleytið tóku allar stelpurnar nema ég þá skynsamlegu ákvörðun að tygja sig heim enda sporvagninn nánast hættur að ganga. Ég ákvað hins vegar að verða eftir með piltunum. Eftir því sem leið á kvöldið og bjórunum fjölgaði urðu samræðurnar sífellt súrrealískari. Við veltum fyrir okkur mikilvægum hlutum eins og hvers vegna fólk af suðrænum slóðum er loðnara en fólk af norrænum uppruna, hvort hægt sé að búa til mannalýsi, hvort allir Svíar væru með hring í hægra eyra, hvers vegna finnsk júróvisjónlög enda alltaf í síðasta sæti og hvort nauðsynlegra sé að geta séð á sér tærnar eða kynfærin yfir ístruna.

Eftir miðnætti skiptu piltarnir yfir í viskí. Þá ákvað ég að fara heim.

Þeir kvöddu mig með miklum tilþrifum og sögðust hlakka til næsta hóptíma. Ég líka. Þetta eru öndvegispiltar.

Víóluskrímslið - andleg auðgun

miðvikudagur, mars 08, 2006

Túristapakkinn

Um helgina gerði Annegret vinkona mín sér lítið fyrir og brá sér í 4 daga heimsókn til Helsinki. Við gerðum okkur margt til skemmtunar, fórum í stórgott Íslendingapartí þar sem íslenskt góðgæti var á boðstólum, í nektarsund í sundlauginni við Georgsgötu (Yrjönkatu), magnaða viðarsánu þar sem ég flengdi furðulostna Annegret með birkivendi, í göngu um miðbæinn og á ísilagðri höfninni, á tónleika, á söfn, á traktorabarinn Zetor og í dagsferð út í virkið Suomenlinna sem nú er á kafi í snjó.

Það var mikill sprettur að ná þessum hápunktum Helsinki á svo fáum dögum með fullum skóla - auk þess sem þessi listi er alls ekki tæmandi. Við náðum til dæmis ekki að fara á þjóðminjasafnið eða á Bar Moskva. Það bíður betri tíma - og næsta gests.

Hver er til?

Víóluskrímslið - skemmtanastjóri

föstudagur, mars 03, 2006

Finnska melankólían

Finnar hafa orð á sér fyrir að vera upp til hópa fáorðir þunglyndir alkóhólistar. Ég bar þetta undir nokkra hérlenda kollega mína þar sem við sátum yfir ölglasi síðastliðið þriðjudagskvöld. Þeim fannst finnskri þjóðarsál ansi vel lýst á þennan hátt. Spurðu mig svo til baka hvort Íslendingar væru ekki alveg eins. Nei, sagði ég. Íslendingar geta aldrei haldið kjafti.

Það fannst þeim fyndið.


Víóluskrímslið - Íslandi til skammar á alþjóðavettvangi

miðvikudagur, mars 01, 2006

Hryllingsmyndir, taka 2

Á sunnudaginn var enn hryllingsmyndin enn í sjónvarpinu. Finnar töpuðu fyrir Svíum í úrslitaleik um ólympíugullið í íshokki í milljónasta sinn.

Í Finnlandi upplifa menn ósigur gegn Svíum sterkar en gegn öðrum þjóðum.

Eins og gefur að skilja var því ekki mikil gleði í mönnum eftir leikinn. Ég held ég sleppi því alveg að bregða fyrir mig skandinavísku næstu vikur og mánuði.


Bollur

Í gær héldu Finnar upp á bolludaginn. Það var mér mikið gleðiefni. Ég fékk væna rjómabollu með hindberjasultu í ár.


Bláa lónið

Á strætóleiðinni minni niður í bæ gefur að líta gríðarstórt flettiskilti. Á það hefur undanfarnar vikur verið klínt auglýsingu frá Icelandair með fáklæddri kevenpersónu að baða sig í Bláa lóninu. Meðfylgjandi er auglýsingatextinn "Islanti 35 C"

Ég ætla rétt að vona að þar eigi þeir við hitastigið á vatninu.


Víóluskrímslið - öl á þriðjudögum