Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, mars 14, 2006

Akkilesarhæll

Síðan á laugardag hefur mér liðið eitthvað undarlega í hægri fætinum. Eftir að hafa lýst vandanum fyrir Tóta með hjálp alnetsins og hann fengið mig til að fremja ýmsar leikfimikúnstir í gegnum símann kvað hann upp úrskurð þess efnis að ég væri líklegast tognuð í hægri hásininni.

Það finnst mér frámunalega hallærislegt. Ég og mín fjölskylda erum þó engan veginn ókunnug því að lenda í hallærislegum smáslysum. Sjúkraskráin okkar niðri á Slysó er án efa eitt fyndnasta plagg sem til er á íslensku. Þar má lesa um týndar smátölur djúpt í nösum lítilla barna, títuprjón í stórutá fjölskyldufeðra, tognaðar iljar sem hindra mæður í að ganga upp stiga, tognaðan háls stórusystur eftir kílómeters langa byltu niður Gilið á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og hálfafskorna fingur eftir að ónefnd litlasystir reyndi að skera sér rófu alveg sjálf.

Tognuð hásin passar akkúrat inn í þessa fáránlegu upptalningu.

Samkvæmt sérlegu læknanemaráði ætti ég að taka því rólega næstu daga og vikur og gæta þess að reyna ekki of mikið á akkilesarhælinn. Auk þess þarf ég að eyða peningum (sem ég á ekki lengur eftir gengisfellinguna) í lága skó sem ekki nuddast við hásinina. Það finnst mér satt að segja heldur blóðugt. Þegar ég vaknaði í morgun og mundi eftir fyrirætluðum skókaupum fór ég næstum því í vont skap. Það rann þó fljótt af mér eftir að ég setti á barnaplötu með M.A. Numminen og barnakórnum hans (sem syngur tandurhreint, öfugt við alla aðra barnaplötukóra heimsins) og hitaði mér fullan ketil af sterku tei. Maður þarf ekki að æsa sig yfir svona smámunum.

Þó veldur það mér nokkrum áhyggjum að ég get ekki með nokkru móti áttað mig á því hvernig ég fór að þessu.


Víóluskrímslið - hálf móbílt

Engin ummæli: