Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, mars 16, 2006

Bless her

Þau stórtíðindi bárust mér í gær að herinn væri á leiðinni burt. Það þótti mér gott að heyra. Samband mitt við herinn hefur aldrei verið gott enda lærði ég að segja "Ísland úr Nató, herinn burt" áður en ég lærði að fara með faðirvorið. Ekki síst hermannanna vegna.

Í hvert sinn sem ég og mín fjölskylda keyrðum fram hjá herstöðinni á leið út á flugvöll eða í sunnudagsbíltúr til Sandgerðis virti ég fyrir mér vistarverur hermannanna og vorkenndi veslings mönnunum að þurfa að hírast þar fyrir innan allan gaddavírinn. Einu sinni þegar við pabbi vorum að keyra mömmu út á flugvöll ákváðum við á bakaleiðinni að renna upp að vallargirðingunni og kíkja á gettóið fyrir innan. Við vorum fljótt stoppuð af af vopnuðum mönnum í einkennisbúningum. Enda vorum við á Lödunni og fúlskeggjaður faðir minn með þessa fínu loðhúfu á hausnum.

Meðan ég vann enn við afgreiðslustörf í fordyri helvítis IKEA komu af og til heilu hjarðirnar af húsmæðrum af vellinum þangað í innkaupaferðir. Þær litu allar eins út, feitlagnar, ljóshærðar með permanent og bleikan varalit í prjónapeysum og niðurþröngum gallabuxum sem föðmuðu á þeim umfangsmikla bakhlutana. Einu sinni seldi ég einni þeirra 100 snaga í barnaherbergi. Hvað hún hefur ætlað að gera við þá er mér ráðgáta enn í dag. Kannski fólk verði svona þegar það fær aldrei að fara út.

Þó mér hafi aldrei verið vel við veru bandaríska hersins á Íslandi og vorkennt þeim fjöldamörgu vitleysingum sem þar hafa þurft að þreyja Þorrann og Góuna þar til þeir misstu vitið og fóru að drepa hver annan, veldur eitt mér þó áhyggjum. Þegar herinn fer tekur hann með sér allt sitt hafurtask, og þar með talið þyrlurnar. Það eru slæmar fréttir fyrir Íslendinga, sem eiga eins og er enga starfhæfa þyrlu. Eigi Íslendingar að geta staðið almennilega að björgunarstarfi á Íslandi verður að vera til þyrla í lagi og helst tvær. Annars geta menn farið að biðja fyrir sér. Það er ekki hægt um vik að sækja veika menn og slasaða upp á hálendi eða út á sjó án þess að hafa yfir slíku flygildi að ráða. Hvað þá ef menn lenda í sjálfheldu vegna náttúruhamfara og nóg er af þeim á Íslandi. Fer ekki annars að koma Kötlugos? Pant ekki standa uppi á Pétursey með jökulhlaup og öskufall allt um kring - og engin björgunarþyrla í lagi í landinu.

Ef ég hef skilið fréttirnar rétt geta Íslendingar leitað á náðir þyrlusveitar hersins í eitt túristasumar í viðbót. Hitt er svo annað mál að eftir það verðum við að fara að sjá um okkur sjálf. Það er alltof langt að sækja þyrlur til Danmerkur þegar menn eru að krókna úr kulda niðri í jökulsprungu.


Víóluskrímslið - bless Wendy´s

Engin ummæli: