Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, mars 31, 2006

Föstudagur í Helsinki

Eins og Íslendingar eru Finnar miklir túramenn - sérstaklega þegar drykkja er annars vegar. Hér er alkóhólismi landlægt vandamál en öfugt við þróunina heima á Íslandi þar sem menn segja stoltir frá því í fjölskylduboðum að þeir séu komnir í AA leitar fólk hér sér sjaldnast hjálpar við áfengisfíkn. Alkóhólismi er hálfgert feimnismál í Finnlandi. Það finnst mér pínulítið fyndið enda hef ég hvergi séð eins mikið af rónum og hér.

Með því að nota orðið "róni" á ég ekkert endilega bara við útigangsmenn. Ef eitthvað er eru þeir yfirleitt edrú blessaðir. Finnskir rónar eiga oftar en ekki fjölskyldur og þak yfir höfuðið. Þeir eru hins vegar túradrykkjumenn sem leggjast út nokkra daga í senn og snúa svo til baka í faðm fjölskyldunnar, illa til reika og úrvinda eftir taumlausa drykkju. Finnar standa mjög framarlega í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og í takt við það eru líka heilmargir kvenkyns rónar á ferli. Oftar en ekki afar vel til fara - þó varaliturinn hafi kannski ekki alveg endað á réttum stað.

Í dag er föstudagur. Það þýðir að annar hver maður í neðanjarðarlestinni er fullur. Það finnst manni nú bara kósí enda slær það á heimþrána að finna bjórfnykinn svífa yfir vötnum og hlusta á umlið í miðaldra konum með tígrisdýrasólgleraugu sem eru búnar að missa af stoppinu sínu tvisvar í röð. Stundum þarf maður að lyfta undir fólk svo það klemmist ekki í hurðinni á leiðinni út eða hrynji niður af bekknum sem það situr á. En það er nú bara sjálfsagður náungakærleikur.

Í dag var ég í strætó á leið niður í bæ þegar unglingsstúlka nokkur kastaði upp yfir sig alla. Mér sýndist hún eiga í mestu erfiðleikum með að átta sig á því hvað hefði komið fyrir enda leit hún til skiptis á rennblautar hendurnar á sér og á pollinn á gólfinu. Eftir smá stund gerði ég mér grein fyrir því að ég var líklegast eina manneskjan í strætó sem þótti þetta undarlegt athæfi. Þegar strætóinn náði endastöð potaði ég í stúlkuna sem virtist vera á góðri leið með að svífa inn í algleymið og togaði hana út úr strætó. Hún hreyfði engum mótmælum þegar ég lét hana halla sér upp að vegg svo hún dytti ekki. Heldur ekki þegar ég skrapp inn í næsta banka og bað þjónustufulltrúa að hringja á lögregluna svo hún gæti sofið úr sér á öruggum stað. Þegar löggan kom var hún hins vegar ekki eins ánægð. Ég missi ekki svefn yfir því.

Ég ætla aldrei að verða róni. Ég er sannfærð um að það sé allt of erfitt fyrir viðkvæmt fólk eins og mig. Maður þarf að vera virkilegt hörkutól til að höndla slíkan lífsstíl. Eða búa yfir mörgum leyndarmálum sem þarf að gleyma.


Víóluskrímslið - í helgarbyrjun

Engin ummæli: