Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, mars 28, 2006

Hvernig þvo skal lopapeysuNæstkomandi laugardag held ég í vikureisu norður til Samalands. Fjölskylda Önnu vinkonu minnar er búin að taka þar á leigu vænan heilsársbústað nálægt Ylläs skíðasvæðinu og við Matias teikum með. Þetta þykir mér afar spennandi enda er búið að lofa mér stjörnubjörtum nóttum og norðurljósadýrð. Þó verður að viðurkennast að ég kvíði örlítið fyrir því að stíga á skíði eftir 12 ára hlé. Síðast fór ég á skíði upp í Bláfjöll með 9. bekk Ölduselsskóla og tókst næstum því að fremja þar sjálfsmorð með því að fara í allar bröttustu brekkurnar - þó ég kynni tæknilega séð ekkert á skíði.

Þó farið sé að hlána hér suðurfrá er enn brunagaddur í norður Finnlandi. Þegar ég fór í gegnum ullarbirgðir heimilisins í huganum á leiðinni heim í strætó áttaði ég mig á því að ég hef ekki þvegið ullarpeysuna mína síðan á síðustu öld. Þar sem ég er við það að leggja upp í mikla háskaför ákvað ég að best að þvo peysuna áður haldið verður af stað. Ef mér verður á að hálsbrjóta mig á skíðum (7,9,13) vil ég allavega vera í hreinni ullarpeysu við það tækifæri.

Ég kom heim og skellti mildu sápuvatni í baðkarið. Ofan í það tróð ég ullarpeysunni og þeim ullarflíkum sem fengið hafa að drekka í sig saltið af götum Helsinki síðan í janúar. Vatnið varð undireins svart. Oj bara. Ég skipti um vatn. Það varð samstundis grátt. Smá framför þar á ferð. Þessu hélt ég áfram góða stund. Hnoðaði ullina varlega ofan í vatninu eins og maður á að gera og tíndi 10 ára gamalt lyng úr kraganum á peysunni. Þegar vatnið var orðið sæmilega tært kreisti ég úr minni ástkæru ullarpeysu, lagði hana á milli tveggja handklæða, setti 123 Selfoss með Love Guru á fóninn og dansaði gleðidans ofan á peysusamlokunni í nokkrar mínútur.

Nú hangir hún til þerris, blessunin, mér og skapara sínum (ömmu) til sóma. Verst að hún verður líklega falin undir neongræum ´80 skíðagalla allan tímann sem við verðum fyrir norðan.


Víóluskrímslið - sérfræðingur

Engin ummæli: