Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Fjölbreytileiki mannlífsins

Sumarið 1998 fékk ég sumarvinnu á Lækjarási, dagvist fyrir fatlaða. Þá var ég átján ára og ansi blaut á bak við eyrun en þar sem mamma er þroskaþjálfi og ég því svo gott sem fædd inn í bransann var mér treyst fyrir starfinu. Þetta sumar leið hratt enda mikið um að vera á Lækjarási. Ég kynntist fjölmörgu skemmtilegu fólki og sjálfri mér betur um leið. Þetta sumar hófst 10 ára ferill minn sem sumarstarfsmaður hjá Styrktarfélagi Vangefinna - ferill sem nú sér reyndar fyrir endann á þar sem ég er loksins orðin virðulegur launþegi og á rétt á sumarleyfi næsta sumar - eins og venjulegt fólk.

Frá Lækjarási lá leiðin í skammtímavistunina í Víðihlíð sem að öðrum ólöstuðum hlýtur að teljast einhver sú skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið. Ég vann þar hlutastarf með skóla í hátt í 3 ár. Í Víðihlíð kynntist ég fólki sem ég mun aldrei gleyma. Ýmislegt kom þar uppá, mannekla setti oft strik í reikninginn og fyrir kom að hasarinn varð svo mikill að ég þurfti að forða gleraugunum mínum á góðan stað áður en þau yrðu fyrir skakkaföllum en aldrei kveið ég því að fara í vinnuna. Sumir þeirra sem sóttu Víðihlíð eru horfnir yfir móðuna miklu en aðra hitti ég stundum á förnum vegi og mér þykir það alltaf skemmtilegt.

Síðustu sumur hef ég unnið á vöktum á sambýlinu í Barðavogi þar sem býr yndislegt fólk komið yfir miðjan aldur og tempóið eftir því. Enda róast maður með aldrinum.

Ég er sannfærð um að sú reynsla að hafa unnið með fötluðum hafi gert mig að betri og víðsýnni manneskju. Ekki aðeins hefur hún fengið mig til að hugsa um mitt eigið hlutskipti í lífinu á annan hátt heldur hef ég einnig neyðst til þess að takast á við eigin fordóma gagnvart fólki sem er ekki steypt í sama mót og flestir aðrir. Ég skildi að þó ég hefði alist upp með fatlað og þroskaheft fólk allt í kringum mig, væri ég ekki hótinu betri en aðrir sem höfðu enga innsýn inn í þennan heim. Ég sýndi sömu forsjárhyggju, talaði yfir fólk og um það í návist þess og skildi ekki að allir ættu rétt á einkalífi, starfi, hentugu búsetuformi og félagslífi. Það tók mig langan tíma að taka til hjá sjálfri mér og endurskoða hugarfar mitt til fólks í kringum mig. Ég komst loks að þeirri niðurstöðu að hamingjan er hugarástand og að það eiga sér gott og innihaldsríkt líf hefur ekkert að gera með hversu hátt menn skora á greindarprófum eða hvort þeir geti hlaupið grindahlaup.

Ríkasta og hamingjusamasta þjóð heims sem þó dregur fram lífið með því að bryðja þunglyndistöflur eins og smartís hefði gott af því að velta því aðeins fyrir sér. Öll höfum við eitthvað til brunns að bera og Guði sé lof að við erum ekki öll eins. Djöfull væri það leiðinlegt.


Víóluskrímslið - mælir með umönnunarstörfum sem þegnskylduvinnu fyrir ofverndaða unga frjálshyggjumenn

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Þrautakóngur

Eins og flestir vita sem hér reka inn nefið kenni ég tvo daga í viku úti í Reykjanesbæ. Þar er gott fólk og kátir krakkar. Hitt er svo annað mál að þeirri lífsreynslu að keyra Reykjanesbrautina fjórum sinnum í viku má helst líkja við að fara jafnoft í þrautakóng - nú eða "Jósep segir".

Sérstaklega er gaman að fara út að leika á Reykjanesbraut þegar langar raðir af ljósastaurum lýsa ekki í mikilli umferð og slæmu skyggni. Þá sleppir maður háu ljósunum enda slík ljós afar andfélagsleg við slíkar aðstæður - og tekur að trúa blint á dómgreind bílstjórans fyrir framan mann. Brautin er ennfremur stráð skemmtilegum og spennandi gildrum til þess að gæða ferðina spennu. Skilti ýmisskonar eru þannig staðsett að næsta ómögulegt er að sjá hvað stendur á þeim. Eykur það enn á skemmtigildið og auðgar líf vegfarenda.

Það er vonandi að vinna hefjist aftur við brautina sem fyrst. Enda er ég búin að fá nóg af þrautakóngi í bili. Hins vegar sé ég þá tíma í hillingum þegar ég get lullað á 90 hægra megin á tvöfaldri Reykjanesbraut án þess að hafa kransæðaþrengda geðsjúklinga á ljóslausum sendibílum á tryllingshraða á eftir mér.


Víóluskrímslið - Jósep segir ....

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Guck mal es schneit

Einu sinni gat ég talað þýsku. Svo flutti ég til Hollands.

Á næstu vikum munu hlutföll Íslendinga og Þjóðverja hér á heimilinu nálgast það sem gerist í fjallaskálum á Laugaveginum í júlí. Annegret vinkona mín, fiðlusmiður og víólusvín lendir á laugardaginn (jafnvel á Egilstöðum ef eitthvað er að marka veðurspána) og þar sem Róbert Margrétarmaður er hér staddur á sama tíma er hætt við að háþýskan muni klingja í eyrum næstu daga og vikur.

Sehr schön.

Í dag er hins vegar þriðjudagur-undirbúningsdagur og stefni ég á að njóta hans til fulls, íklædd náttfötum og ullarsokkum með Sibelius tónlistarforritið fyrir framan mig og fulla tekönnu mér á hægri hönd. Verkefni dagsins er að setja niður á blað alla þá tónstiga sem tveir nemenda minna eiga að spila á grunnprófi í fiðluleik í vor. Það gæti verið verra.


Víóluskrímslið - do re mí fa so la tí do