Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Þrautakóngur

Eins og flestir vita sem hér reka inn nefið kenni ég tvo daga í viku úti í Reykjanesbæ. Þar er gott fólk og kátir krakkar. Hitt er svo annað mál að þeirri lífsreynslu að keyra Reykjanesbrautina fjórum sinnum í viku má helst líkja við að fara jafnoft í þrautakóng - nú eða "Jósep segir".

Sérstaklega er gaman að fara út að leika á Reykjanesbraut þegar langar raðir af ljósastaurum lýsa ekki í mikilli umferð og slæmu skyggni. Þá sleppir maður háu ljósunum enda slík ljós afar andfélagsleg við slíkar aðstæður - og tekur að trúa blint á dómgreind bílstjórans fyrir framan mann. Brautin er ennfremur stráð skemmtilegum og spennandi gildrum til þess að gæða ferðina spennu. Skilti ýmisskonar eru þannig staðsett að næsta ómögulegt er að sjá hvað stendur á þeim. Eykur það enn á skemmtigildið og auðgar líf vegfarenda.

Það er vonandi að vinna hefjist aftur við brautina sem fyrst. Enda er ég búin að fá nóg af þrautakóngi í bili. Hins vegar sé ég þá tíma í hillingum þegar ég get lullað á 90 hægra megin á tvöfaldri Reykjanesbraut án þess að hafa kransæðaþrengda geðsjúklinga á ljóslausum sendibílum á tryllingshraða á eftir mér.


Víóluskrímslið - Jósep segir ....

Engin ummæli: