Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, maí 31, 2006

Það er komið að því

Ég er á leið heim á morgun. Í fyrsta sinn í fjögurra ára sögu minni sem útlagi og víóluskrímsl fylgja því blendnar tilfinningar. Síðustu þrjú vor hef ég verið hoppandi kát yfir því að fara heim að vori - en að þessu sinni væri ég alveg til í að vera aðeins lengur. Að því gefnu að fjölskylda mín og vinir flyttust til Finnlands, að sjálfsögðu.

Það er gott að búa í Finnlandi. Hér hefur mér liðið afar vel. Hver veit nema ég komi hingað aftur.

Sem fyrr verður hægt að ná í mig í síma 6943592 á heimaslóð. Sjáumst!!


Víóluskrímslið - kiitos kaikille, ja hyvää yötää

mánudagur, maí 29, 2006

Afsakið á meðan ég æli

Þegar ég las um nýjan meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar í Reykjavík varð mér skyndilega illt. Það er eins gott að maður er fátækur námsmaður í boði ríkisstjórnar sömu flokka, annars hefði ég kannski haft einhverju að æla.

Megi alheimsvaldið hjálpa okkur öllum.

Ekki ældi nokkur einasti maður í kveðjupartíinu sem ég hélt síðasta föstudag. Þar fór heldur enginn að grenja, enginn á bömmer, enginn rauk út í fússi og hvorki helltist nokkuð niður né brotnaði. Þvert á móti skemmtu menn sér vel og voru glaðir. Ég fékk barbapabbabol og múmínkönnu frá skólasystkinum mínum. Það gladdi mitt litla hjarta.

Það er augljóst að með nýjustu úrslit sveitarstjórnarkosninganna í huga þarf ég að ganga í barbabolnum á hverjum degi til að halda sönsum. Almáttugur.


Víóluskrímslið - hrætt

laugardagur, maí 27, 2006

Sérréttur Harra

Síðastliðið fimmtudagskvöld brá ég mér af bæ og fór á einn vinsælasta næturklúbb Helsinki með Önnu og Matiasi. Þar hlustuðum við á skemmtilega hljómsveit og bárum saman klæðaburð okkar og annarra gesta. Við komum heldur illa út í samanburðinum enda þorri manna á staðnum í flíkum sem kosta meira en mánaðarleg matarinnkaup mín. Ég er enn hissa á að dyraverðirnir skuli hafa hleypt okkur inn í gallabuxum og bómullarbolum.

Eftir tónleikana ákváðum við að fara og fá okkur að borða fyrir svefninn. Þegar Anna og Matias komust að því að ég hafði aldrei farið á finnskt næturgrill vildu þau bæta úr því þá og þegar. Því lögðum við leið okkar til grillsjoppu Harra, Harrin Grilli.

Í finnskum næturgrillsjoppum er um auðugan garð að gresja fyrir þá sem eru hrifnir af brenndum eða örbylgjuhituðum fitugum mat og það var erfitt að velja á milli kræsinganna. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að skella okkur á þrjá skammta af sérrétti Harra, Harrin Parempi. Sérréttur Harra samanstendur af hlemmstóru brauði fylltu með kjötbollu, steiktu eggi, lauk, súrum gúrkum, hálfu salatblaði - og tveimur pylsum - auk eins mikils majóness og manni finnst við eiga. Úr verður heljarinnar loka, enda féllust mér nánast hendur þegar átti að fara að borða herlegheitin.

Fyrstu tveir bitarnir voru afar góðir enda var ég orðin sársvöng. Þriðji bitinn virtist heldur fitugri en þeir fyrstu.Við þann fjórða fannst mér engu líkara en ég fyndi fyrir sérrétti Harra troða sér inn í kransæðarnar. Með herkjum tókst mér að éta rúman helming lokunnar. Restin fór í ruslið sem mér þótti ekki gott enda hef ég aldrei kunnað við að henda mat.

Næst fæ ég mér borgara og franskar.


Víóluskrímslið - parempi

fimmtudagur, maí 25, 2006

Sögulegur viðburður 1

Um síðustu helgi komu pabbi og mamma til mín í heimsókn. Það fannst mér gaman. Þau hafa nefnilega aldrei getað heimsótt mig í útlöndum fyrr en nú.

Að sjálfsögðu gerðum við okkur margt til gamans og ég held ég geti fullyrt að þeim hafi ekki leiðst þessa rúma fjóra daga sem þau stöldruðu við. Meðal annars fórum við á þjóðminjasafnið þar sem við flissuðum að hönnuninni á umbúðunum á finnska þvottaefninu ATOMI sem framleitt var á fimmta áratug síðustu aldar. (Vísbending; sprengiský og gígur)

Auk þess fórum við út í virkið Suomenlinna, út að borða á traktoraveitingastaðnum Zetor, í bæjarferð (þar sem 4 nýjar múmínkönnur bættust í safn heimilisins) og á tónleika. Laugardeginum og fyrrihluta sunnudagsins eyddum við í sumarbústað foreldra Önnu vinkonu minnar þar sem við fórum í alvöru finnska reyksánu, "syntum" í vatninu, fórum í bátsferðir og horfðum á Finnland vinna Eurovision.

Á leiðinni út á flugvöll tókst mér að týna nýju fínu göngustöfunum sem mamma hafði keypt í bæjarferðinni og við pabbi pakkað inn af alkunnri snilld. Það þótti mér leiðinlegt. Þau undur og stórmerki gerðust þó nokkrum dögum síðar að mamma fékk sms frá manni sem fundið hafði pakkann. Ég sótti stafina í gær. Allt er gott sem endar vel.


Sögulegur viðburður 2

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Finnar unnu Eurovision í ár. Enda var erfitt að gefa LORDI klisjustig þegar sveitin steig á svið í Aþenu.

Þeir voru ekki

-allsberir
-með fáklædda dansara á sviðinu
-nuddandi sér upp við téða dansara í einni dónalegri stellingu
-falskir svo skar í eyrun
-í hvítu

Lagið var ekki

-júropopp
-Shakirukóver
-óeftirminnilegt
-með hækkun

...og fjallaði ekki um ást. Sem mér fannst það allra besta. Lordi eru vel að sigrinum komnir. Evrópa hefur kveðið upp sinn dóm! Út með vælið og allsberu stelpurnar! Inná með rokkið og latexið!


Víóluskrímslið - hipp og kúl

miðvikudagur, maí 17, 2006

Fótógen

Systir mín er fótógen. Enda var hún fyrirsæta um skeið, eða alveg þar til einhver skipaði henni að hætta að borða nammi. Hún hætti í módelbransanum. Skynsamleg ákvörðun það.

Ég er ekki fótógen. Af öllum þeim þúsundum mynda sem teknar hafa verið af mér á lífsleiðinni eru aðeins nokkrar þess virði að líta megi á þær oftar en einu sinni. Þegar ég var nýfædd var ég svo rangeyg að ég leit út eins og geimvera á myndum. Sem krakki þjáðist ég af reflex sem olli því að ég gat ekki brosað framan í myndavél án þess að reka út úr mér tunguna um leið. Það eltist sem betur fer af mér.

Skólamyndirnar, fermingarmyndirnar, jafnvel stúdentsmyndirnar bera þess merki að mér líður herfilega fyrir framan myndavélar. Ég reyni mitt besta til að brosa og horfa björtum augum í myndavélina - en á einhvern óútskýranlegan hátt kemur það aldrei fram á pappírnum. Það finnst mér mikil synd enda finnst mér ég voða sæt, sérstaklega þegar ég hef munað eftir því að greiða mér og pússa gleraugun.

Í dag sannaðist það enn sem fyrr að ég er ekki fótógen. Ég fór í passamyndakassa á járnbrautarstöðinni - rétti úr mér fyrir framan myndavélina, brosti mikilvæga sjálfsörugga brosinu mínu og gætti þess að vera ekki með lokuð augun - og beið eftir smellunum fjórum. Þegar myndirnar runnu út úr vélinni sá ég að ég leit út eins og Ástþór Magnússon á þeim öllum. Hvers vegna er ég að þessu.


Víóluskrímslið - náttúrulega gott

laugardagur, maí 13, 2006

Mahler

Mahler dagsins verður best lýst sem "fúskató brilljante".

Synd.


Lesendabrjef

Í Metró gærdagsins gaf að líta eftirfarandi lesendabréf

Kæra tónlistarfólk sem fer um Ruoholahti neðanjarðarlestarstöðina
Hafið þið gert ykkur grein fyrir því að þið takið rosalegt pláss í rúllustiganum með þessa kassa ykkar.
Auk þess fer humm og raul illilega í taugarnar á mér.
Virðingarfyllst,
Argghhh


Á morgun

ætla ég að spila í messu á vegum Íslendingafélagsins.

Enda fór ég snemma heim af barnum.Víóluskrímslið - rasch und schnell

miðvikudagur, maí 10, 2006

B.O.B.A

Vorið lét bíða eftir sér hér í Helsinki en þegar það loksins kom, kom það með stæl. Fyrir tíu dögum síðan voru ekki komin nein lauf á trén. Nú er allt orðið grænt og sólin skín allan daginn og langt fram á kvöld. Íkornar og kanínur vappa um í garðinum fyrir utan fermetrana 44 og mávarnir syngja fagran eggjaþjófasöng. Sannkölluð bomba. B.O.B.A.

Í kvöld hélt bekkurinn minn tónleika í hátíðarsal skólans og tókst öllum vel upp. Sjálf spilaði ég sólósónötu Hindemiths op. 25, sagaði víóluna næstum því í sundur í 4.kafla (rasendes Zeitmass, wild, Tonschönheit Nebensache) og hlaut hrós fyrir. Eftir tónleikana héldu bekkjarbræður mínir á barinn. Ekki ég. Í fyrramálið þarf ég að mæta snemma í skólann og kljást við 5. sinfóníu Mahlers. Mér finnst Mahler rosalega fyndinn. Hvaða annað tónskáld skrifar út nákvæm 32parta hlaup í brjálæðislegu tempói með alls konar fingurbrjótum og aukaformerkjum - og skrifar svo glissando ofan við herlegheitin? Ertu að gera grína að mér, Gústaf?

(Gústaf svarar ekki enda löngu dauður)

Í næstu viku mun draga til tíðinda því þá koma pabbi og mamma í heimsókn. Þetta verður í fyrsta sinn sem þau heimsækja mig í útlegðinni. Nú bý ég svo vel að geta boðið þeim gistingu þar eð ég fattaði um daginn að sófinn í stofunni (sem ég hef setið í í fjóra mánuði og ryksugað reglulega) er svefnsófi. Það kom skemmtilega á óvart. Nú vona ég bara að veðrið haldist gott. Annars förum við bara á þjóðminjasafnið.


Víóluskrímslið - allt að gerast

laugardagur, maí 06, 2006

Kveikjum eld

Í gær tók einhver sig til og kveikti í gömlu vöruskemmunum við járnbrautarstöðina í Helsinki. Undanfarið hefur staðið heilmikill styrr um þessi hús enda stóð til að rífa þau til að rýma fyrir
nýju tónlistarhúsi. Finna vantar nefnilega almennilegt tónlistarhús. Eins og fleiri.

Í síðasta mánuði voru húsin rýmd. Síðan þá hefur löggan verið með stöðuga vakt við pleisið. Á Valborgarmessu, aðfaranótt 1. maí, tók hópur manna sig til og safnaði saman í myndarlega brennu við eina skemmuna. Sjálf sá ég bálið ekki enda var ég upptekin við að týna ekki stúdentshúfunni minni á þeirri stundu. Aðstandendum brennunnar hafði að vísu láðst að fá leyfi fyrir herlegheitunum. Þar sem menn létu auk þess heldur ófriðlega var víkingasveitin send á staðinn. Bömmer fyrir þá sem voru á bakvakt.

Í gær ákvað svo einhver að klára dæmið og gekk rösklega til verks. Eftir því sem ég best veit labbaði brennuvargurinn sig inn á svæðið um miðjan dag og kveikti í. Úr varð svakalegt bál sem breiddist hratt út í allar skemmurnar á svæðinu. Reykský lagðist yfir miðbæinn og allar samgöngur um Mannerheimintie,eina aðalumferðargötu Helsinki, stöðvuðust. Í gærkvöldi var sérdeilis gott veður, hlýtt og milt. Þar af leiðandi myndaðist sannkölluð áramótastemmning þar sem menn flykktust að tröppunum við þinghúsið og fylgðust með slökkviliðinu að störfum með öl í hönd.

Þegar ég átti leið hjá seint um kvöld logaði enn glatt í vöruskemmunum. Það er hætt við að lítið sé eftir af þeim núna.


Víóluskrímslið - skúbb

föstudagur, maí 05, 2006

Fjölbreytileiki mannlífsins

1.
Fyrir rúmri viku spurði lítill drengur mig hvort ég væri manneskja eða barn. Fyrir honum skiptist fólk nefnilega í þessa tvo flokka og hann var ekki viss hvoru megin hann ætti að setja mig. Ég sagðist vera barn. Þá er það komið á hreint.

2.
Ég skrapp í sund í gærkvöld. Í sturtunni gaf að líta rauðhærða leggjalanga Artemis og íturvaxna biksvarta frjósemisgyðju. Fegurðin holdi klædd.

3.
Í neðanjarðarlestinni gaf maður sig á tal við mig sem vildi vita hvað væri í víólukassanum mínum. Þegar ég var búin að útskýra það spurði hann mig hvaðan ég væri. Ég sagðist vera frá Íslandi. Maðurinn, sem var af suðrænum uppruna, vildi þá endilega fá að taka í höndina á mér því hann hafði aldrei hitt Íslending áður. Það var auðsótt mál.


Víóluskrímslið - I´m not a girl, not yet a woman (múhahahahahahahaha)

mánudagur, maí 01, 2006

1. maí

Í gær eyddi ég baráttudegi verkalýðsins fjarri heimahögum fjórða árið í röð. Síðastliðin 3 ár hefur mér grautleiðst á þessum degi og ég séð kröfugöngur og rússneskt rækjusalat á la MÍR í hillingum í eymd minni. Í gær kvað svo sannarlega við annan tón.

Í fyrrakvöld þvældist ég milli partía með Önnu, Matiasi og vinum þeirra. Íslenska stúdentshúfan vakti gríðarlega lukku. Margir urðu til þess að gefa mér í glas vegna þess eins að ég átti flottustu húfuna á svæðinu. Það leiddi svo til þess að ég ákvað að fara heim öllu fyrr en ætlað var. Það gerist ekki oft.

Eldsnemma í gærmorgun vaknaði ég kát og afar hress, klæddi mig í fjólurauða samfestinginn, skellti húfunni á úfinn kollinn og hélt niður að sjó þar sem fjölskylda Matiasar var búin að dúka borð í blíðskaparveðri innan um tugþúsundir annarra Helsinkibúa í sömu erindagjörðum. Ég fékk pylsur og kartöflusalat í morgunmat og lyftist þá vel á mér brúnin. Deginum var svo eytt við söng og spil, þar sem Matias lék á ferðaharmóníum fjölskyldunnar, Anna á gítar og ég fór hamförum á slagverkinu. Við fórum í gegnum 50 vinsælustu slagarana aftur og aftur og menn sungu með fullum hálsi. Svo voru kökur og kaffi, ungt par trúlofaði sig og allir fóru að skæla.

Heim komst ég við illan leik enda allar almenningssamgöngur tepptar vegna mannfjöldans. Þar kveikti ég á BBC World og horfði góða stund á slæmar fréttir víðsvegar að úr heiminum. Sá sem ég hringdi í til þess að létta mér lund eftir þau ósköp hafði engan tíma til að vera skemmtilegur við mig. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott því eftir það símtal veit ég heilmargt um hina ýmsu lifrar- og nýrnasjúkdóma. Hver veit nema sú vitneskja komi mér einhvern tímann að notum. Jafnvel þó ég hafi ekki beint verið að sækjast eftir henni.


Víóluskrímslið - abupp