1. maí
Í gær eyddi ég baráttudegi verkalýðsins fjarri heimahögum fjórða árið í röð. Síðastliðin 3 ár hefur mér grautleiðst á þessum degi og ég séð kröfugöngur og rússneskt rækjusalat á la MÍR í hillingum í eymd minni. Í gær kvað svo sannarlega við annan tón.
Í fyrrakvöld þvældist ég milli partía með Önnu, Matiasi og vinum þeirra. Íslenska stúdentshúfan vakti gríðarlega lukku. Margir urðu til þess að gefa mér í glas vegna þess eins að ég átti flottustu húfuna á svæðinu. Það leiddi svo til þess að ég ákvað að fara heim öllu fyrr en ætlað var. Það gerist ekki oft.
Eldsnemma í gærmorgun vaknaði ég kát og afar hress, klæddi mig í fjólurauða samfestinginn, skellti húfunni á úfinn kollinn og hélt niður að sjó þar sem fjölskylda Matiasar var búin að dúka borð í blíðskaparveðri innan um tugþúsundir annarra Helsinkibúa í sömu erindagjörðum. Ég fékk pylsur og kartöflusalat í morgunmat og lyftist þá vel á mér brúnin. Deginum var svo eytt við söng og spil, þar sem Matias lék á ferðaharmóníum fjölskyldunnar, Anna á gítar og ég fór hamförum á slagverkinu. Við fórum í gegnum 50 vinsælustu slagarana aftur og aftur og menn sungu með fullum hálsi. Svo voru kökur og kaffi, ungt par trúlofaði sig og allir fóru að skæla.
Heim komst ég við illan leik enda allar almenningssamgöngur tepptar vegna mannfjöldans. Þar kveikti ég á BBC World og horfði góða stund á slæmar fréttir víðsvegar að úr heiminum. Sá sem ég hringdi í til þess að létta mér lund eftir þau ósköp hafði engan tíma til að vera skemmtilegur við mig. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott því eftir það símtal veit ég heilmargt um hina ýmsu lifrar- og nýrnasjúkdóma. Hver veit nema sú vitneskja komi mér einhvern tímann að notum. Jafnvel þó ég hafi ekki beint verið að sækjast eftir henni.
Víóluskrímslið - abupp
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli