10 stig og sól
Það var sko ekkert farið að snjóa. Þvert á móti heilsaði Helsinki mér með virktum á föstudag með sól og blíðu. Í dag skín sólin líka eins og henni sé borgað fyrir það og hitamælirinn á svölunum lýsir því yfir að úti sé 10 stiga hiti. Það gleður marga, sérstaklega í dag. Á slaginu 18 hefst Vappu, 1. maí hátíðahöld Finna. Þá fyllist bærinn af stúdentum sem gera sér glaðan dag, kvöld og nótt þangað til þeir geta ekki staðið á fótunum lengur. Svo er mæting í Kaivopuisto klukkan 9 í fyrramálið, þar sem sunginn verður hópsöngur (Finlandia eftir Sibelius 100x), drukkinn afréttari og borðuð síld í vanmáttugri tilraun til að hrekja þynnkuna burt. Sannkölluð þjóðhátíðarstemmning.
Eftir um það bil 3 tíma mun ég klæðast fjólurauðum samfesting utan yfir lopapeysuna og setja stúdentshúfuna mína í poka ásamt freyðivínsflösku og nesti. Anna og Matias munu bíða mín niðri í bæ þaðan sem við munum halda á áður ókunnar slóðir.
Spennó.
Víóluskrímslið - hauskaa Vappua!
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli