Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, apríl 15, 2006

Fiðlubarn sem ekki er

Þegar ég sveif yfir vefblöðin áðan eins og fálki í leit að bráð sá ég auglýsingu sem fékk metnaðarfulla fiðlukennarahjartað mitt til að missa úr slag. Fiðlubarnið í afreka-auglýsingaherferð Landsbankans er laglegasti hnokki sem eflaust á eftir að bræða mörg meyjarhjörtun síðarmeir. En reigt bakið, stífur hálsinn, útstæður vinstri úlnliðurinn og óskiljanlegt bogagripið gáfu það til kynna að drengurinn hafi annað hvort aldrei áður haldið á fiðlu eða sé einn af þeim fiðlunemum sem virðast vera með liðamót úr óhreyfanlegu ísaldargraníti.

Á 10 sekúndum hafði ég greint líkamsstöðu piltsins og örfáum sekúndum síðar var ég búin að skapa neyðaráætlun um það hvernig lagfæra mætti ástandið.

Ég held að ég sé farin að taka námið aðeins of mikið inn á mig.


Londonlamb

Í dag skrapp ég í matvörumekkað S-market með Steinunni Skjenstad. Ætlunin var að kaupa lambalæri sem ætlunin er að elda á morgun handa okkur og fleiri íslenskum útlögum í Helsinki. Eftir miklar pælingar skelltum við einu plastpökkuðu í innkaupakörfuna og héldum heim.

Það var svo ekki fyrr en í kvöld, þegar ég ætlaði að fara að krydda þetta heljarinnar læri eftir kúnstarinnar reglum að ég komst að því að það sem á finnsku kallast lambalæri með legg er í raun það sem á íslensku heitir londonlamb.

Ég mun því skipta timjaninu og rósmaríninu út fyrir hunang og sinnep á morgun. Svepparjómabombusósa og brúnaðar kartöflur ættu ekki að svíkja nokkurn mann. Frekar er finnsku grænu baunirnar.


Víóluskrímslið - matur er mannsins megin

Engin ummæli: