Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, apríl 10, 2006

Drepsótt aldarinnar

Þar kom loksins að því. Vorflensan hefur haldið innreið sína í ónæmiskerfi víóluskrímslisins. Það er fátt sem mér finnst ömurlegra en að vera lasin. Sérstaklega þegar mig langar að æfa mig og get það ekki. Það er bömmer. Samt verður að taka tillit til þess að þetta er fyrsta drepsóttin í ár sem hlýtur að teljast framför frá því í fyrra þegar ég var með stanslaust myglukvef í marga mánuði.

Eftir að hafa haldið vöku fyrir sjálfri mér og öllu húsinu tvær nætur í röð með hósta, ræskingum og hreppstjórasnýtingum án nokkurs bata, ákvað ég í gærkvöldi að mál væri að leita læknis. Ég hringdi því í læknavaktina. Þar svaraði eldri hjúkka símanum - sem talaði ekki ensku. Þar sem finnskukunnátta mín takmarkast að mestu leyti við orðaforða sem notaður er á öldurhúsum og í leigubílum neyddist ég til að bregða fyrir mig minni brotakenndu skandinavísku. Milli hóstakviðanna útskýrði ég fyrir furðulostinni hjúkkunni að "jag er svært forkylad og at jag ma se en läkare, so snart som möjligt." Þessi hræringur af öllum norðurlandamálunum virkaði þó nógu vel til þess að verða mér út um tíma hjá heimilislækni nú á eftir.

Halelúja. Himnarnir opnast með englasöng.

Ég nota kannski tækifærið og spyr lækninn hvort undarlegur verkur í bakinu sé tognun eftir skíðaferðina. Frábært.

Víóluskrímslið - fullt af hor, teygt og togað

Engin ummæli: