Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, apríl 30, 2006

10 stig og sól

Það var sko ekkert farið að snjóa. Þvert á móti heilsaði Helsinki mér með virktum á föstudag með sól og blíðu. Í dag skín sólin líka eins og henni sé borgað fyrir það og hitamælirinn á svölunum lýsir því yfir að úti sé 10 stiga hiti. Það gleður marga, sérstaklega í dag. Á slaginu 18 hefst Vappu, 1. maí hátíðahöld Finna. Þá fyllist bærinn af stúdentum sem gera sér glaðan dag, kvöld og nótt þangað til þeir geta ekki staðið á fótunum lengur. Svo er mæting í Kaivopuisto klukkan 9 í fyrramálið, þar sem sunginn verður hópsöngur (Finlandia eftir Sibelius 100x), drukkinn afréttari og borðuð síld í vanmáttugri tilraun til að hrekja þynnkuna burt. Sannkölluð þjóðhátíðarstemmning.

Eftir um það bil 3 tíma mun ég klæðast fjólurauðum samfesting utan yfir lopapeysuna og setja stúdentshúfuna mína í poka ásamt freyðivínsflösku og nesti. Anna og Matias munu bíða mín niðri í bæ þaðan sem við munum halda á áður ókunnar slóðir.

Spennó.


Víóluskrímslið - hauskaa Vappua!

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Fljúgandi blóm

Í dag skín sólin í H-landi. Fuglarnir syngja, krákurnar garga, trén blómstra og túlípanarnir líka. Drengirnir taka fram léttara gel í stad extra strong vetrartýpunnar, stúlkurnar klaedast ósýnilegum fötum og haegt er ad sitja úti á kvöldin med öl í hönd.

Thetta veit ég vegna thess ad ég skrapp til H-lands thessa vikuna til thess ad fara á masterklass med gudfödur h-lenskra og íslenskra víóluleikara, Ervin Schiffer.

Herra Schiffer aepti og öskradi stanslaust í thrjá daga. Ekki svo ad skilja ad hann hafi ekki verid sáttur vid frammistödu mína og bekkjarfélaga minna. Herra Schiffer öskrar mjög mikid thegar hann er ad kenna. Til thess ad leggja frekar áherslu á ord sín lemur hann í bord og stóla, stappar fótunum í gólfid og danglar reglulega í flygilinn á svaedinu. Auk thess hoppar hann töluvert sem verdur ad teljast merkilegt thar sem hann er kominn vel yfir sjötugt.

Thetta var hressilegt námskeid og ég er ekki frá thví ad sólósónata Hindemiths op. 25 fyrir víólu sé ordin heldur audveldari vidfangs. Auk thess hitti ég flesta sem ég vildi hitta og engan sem ég vildi ekki hitta. Thad er mjög gott.

Eldsnemma í fyrramálid fer ég aftur til Finnlands. Anna Hinkkanen laug thví ad mér ad thad vaeri farid ad snjóa thar aftur. Ég vona allavega ad hún hafi verid ad skrökva.

Víóluskrímslid - á faraldsfaeti

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleðilegt sumar!

Í dag er sumardagurinn fyrsti. Hitamælirinn á svölunum sýnir 4 gráður á celcíus. Það er allt í stíl.

Hér í Helsinki eru hvorki farnar skrúðgöngur né grillaðar pylsur í dag svo ég þarf að finna mér eitthvað annað til dundurs eftir skóla. Ég er að hugsa um að fara og kaupa mér strigaskó í boði móður minnar - á uppsprengdu gengisfellingarverði.

Það er fátt betur fallið til þess að koma manni í gott skap.


Víóluskrímslið - hugleiðir heiftina burt

mánudagur, apríl 17, 2006

Árið sem ég missti trúna

Fjölskylda mín verður seint talin trúrækin. Hingað til hefur kirkjusókn innan hennar falist í skírnum, brúðkaupum og jarðarförum auk þess að hafa kveikt á útvarpsmessunni á meðan menn spæna í sig jólalambið. Þetta ræktarleysi við almættið í uppeldi mínu kom þó ekki í veg fyrir það að ég trúði heitt á Guð sem lítið barn. Ég sótti sunnudagaskóla af mikilli natni, afskiptalaust af hálfu foreldra minna sem fannst ágætt að við systurnar hefðum eitthvað að gera á sunnudagsmorgnum fyrst við vorum ekki með Stöð 2.

Við Guð vorum ágætis félagar á þessum tíma. Ég bað bænirnar mínar samviskusamlega og signdi alla bangsana í barnaherberginu áður en ég fór að sofa. Í sunnudagaskólanum kunni ég öll lögin og söng barna hæst Guði til dýrðar. Faðirvorið gegndi hlutverki möntru sem ég þuldi í belg og biðu ef ég þurfti að labba heim í myrkri eða þegar ímyndunaraflið var að hlaupa með mig í gönur. Það var ágætt að eiga Jesú hinn besta vin barnanna að þegar maður var hræddur eða leiður. Verst að bænirnar , hversu heitar sem þær voru, virtust aldrei ná í gegn um skiptiborð himnanna. Gilti þá einu hvort maður bað um jólasnjó, frið á jörð, bætt efnahagsástand heimilisins eða að Guð tæki af lífi þá sem stríddu mér í skólanum.

Smátt og smátt komst ég að því að Guð gæti ekki verið bæði almáttugur og algóður, því væri hann það væri ekki svona mikið um óréttlæti í heiminum. Í leit að svörum las ég biblíusögurnar fram og aftur. Sumar voru ágætar, eins og sagan um góða Samverjann. Aðrar voru ekki eins skemmtilegar. Mér fannst til dæmis ekkert sniðugt af Guði að heimta það af Abraham að hann myrti son sinn Guði til ánægju - og segja svo bara allt í plati þegar Abraham reiddi rýtinginn til höggs. Mér fannst sagan um Job einnig afar ógeðfelld. Ég skildi ekkert í Job að hlýða þessum Guði sem að mínu mati hagaði sér eins og óþolandi ofdekraður asni. Boðorðin 10 ollu mér miklum heilabrotum. Afhverju máttu menn ekki eiga aðra Guði? Var til annar Guð sem minn Guð var afbrýðisamur útí eða var hann bara að baktryggja sig? Hvert var málið með að mega ekki girnast nokkuð það sem náungi manns ætti, þar með talið eiginkonu hans? Átti hún sig ekki sjálf? Af hverju var Guð að drepa fólk alltaf hreint? Og hvers vegna þurfti Jesús að deyja fyrir syndir mannanna þegar hann virtist vera hreint ágætis maður og sá eini með viti á svæðinu?

Smátt og smátt byrjaði ég að skapa mínar eigin kenningar um tilvist Guðs. Guð gat vel verið algóður, en hann var alls ekki gallalaus. Ímynd mín af Guði þróaðist út í mynd af eldri manni með sítt skegg sem sat á skýi og fylgdist með heimi sem hann hafði einu sinni skapað í bríaríi án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hversu mikið vesen yrði að halda honum við. Manni sem tautaði í skeggið þegar bænir bárust upp til himins og var með móral yfir því að geta ekki svarað þeim öllum - og fengi stundum barnaleg ofsaköst þegar honum þætti lífið vera orðið of erfitt og mennirnir of heimskir. En samt ágætis kall. Jafnvel þó honum þætti gaman að stríða mönnum svona af og til og biðja þá um að myrða börnin sín til þess eins að fá tækifæri til að festa íslenskt fjallalamb í nálægan runna.

Mér datt aldrei í hug að það væri eitthvað að þessari kenningu minni um almættið. Ég stundaði sunnudagaskólann samviskusamlega og á leiðinni þangað veifaði ég til Guðs sem ég var viss um að sæti á skýi beint fyrir ofan Breiðholtið og vinkaði til baka, ánægður með að ég væri á leið í kirkjuna að syngja and-femíníska söngva um að ég vildi líkjast Rut sem var svo sönn og góð, en Daníel fylltur hetjumóð. Það var ekki fyrr en ég átti að fermast sem mér var ljóst að kenning mín var stórgölluð.

Á þeim vetri sem ég gekk til prests, staðráðin í því að fermast og gefa Jesú hjarta mitt, vann hin Lútherska Evangelíska kenning óbætanlegan skaða á minni traustu barnatrú. Ég fékk að vita að Guð væri andi og að vissu leyti væri Jesús það líka og svo væri sá þriðji sem enginn hafði séð en fengi menn reglulega til að tala tungum. Guð væri víst almáttugur og algóður og upphlaup hans væru öll verðskulduð af mönnunum. Ég lærði líka að allar þjáningar mannkyns og ástæðan fyrir því að fjölskylda mín hafði ekki efni á að fara til sólarlanda eins og allt almennilegt fólk væri sú að Eva heitin hefði bitið í girnilegt epli fyrir mörgþúsund árum. En reiðarslagið kom ekki fyrr en mér var tjáð að páfagaukarnir mínir, sem ég hafði kvatt með miklum trega fullviss um að þeirra biði betri staður á himnum en gasklefinn á dýraspítalanum í Víðidal, væru alls ekkert á himnum. Þeir væru hvergi, því dýr hefðu ekki sál.

Þann dag fór ég heim úr fermingarfræðslunni með djúpa sorg í hjarta. Þegar ég svo stóð fyrir framan altarið í Seljakirkju nokkrum vikum síðar til að staðfesta skírnarheitið var ég orðin forhertur trúleysingi.

Við tók tími þar sem ég reifst grimmilega við trúað fólk og slengdi fram sleggjudómum um heimsku þeirra sem trúa. Það geri ég ekki lengur enda hef ég tekið almættið í sátt. Það tók mig nefnilega langan tíma að átta mig á því að kenningar eru jafn fáfengilegar og mennirnir sem semja þær. Í dag er mér slétt sama um trú. Menn mega trúa á það sem þeim sýnist svo lengi sem þeir eru ekki að þröngva því upp á mig eða myrða aðra menn á fölskum forsendum.

Helgidómur hvers manns er innra með honum og í kringum hann. Minn helgidómur er hálendi Íslands á sólbjörtum sumardegi og svanir fljúgandi í austur.


Víóluskrímslið - mannvinur

laugardagur, apríl 15, 2006

Fiðlubarn sem ekki er

Þegar ég sveif yfir vefblöðin áðan eins og fálki í leit að bráð sá ég auglýsingu sem fékk metnaðarfulla fiðlukennarahjartað mitt til að missa úr slag. Fiðlubarnið í afreka-auglýsingaherferð Landsbankans er laglegasti hnokki sem eflaust á eftir að bræða mörg meyjarhjörtun síðarmeir. En reigt bakið, stífur hálsinn, útstæður vinstri úlnliðurinn og óskiljanlegt bogagripið gáfu það til kynna að drengurinn hafi annað hvort aldrei áður haldið á fiðlu eða sé einn af þeim fiðlunemum sem virðast vera með liðamót úr óhreyfanlegu ísaldargraníti.

Á 10 sekúndum hafði ég greint líkamsstöðu piltsins og örfáum sekúndum síðar var ég búin að skapa neyðaráætlun um það hvernig lagfæra mætti ástandið.

Ég held að ég sé farin að taka námið aðeins of mikið inn á mig.


Londonlamb

Í dag skrapp ég í matvörumekkað S-market með Steinunni Skjenstad. Ætlunin var að kaupa lambalæri sem ætlunin er að elda á morgun handa okkur og fleiri íslenskum útlögum í Helsinki. Eftir miklar pælingar skelltum við einu plastpökkuðu í innkaupakörfuna og héldum heim.

Það var svo ekki fyrr en í kvöld, þegar ég ætlaði að fara að krydda þetta heljarinnar læri eftir kúnstarinnar reglum að ég komst að því að það sem á finnsku kallast lambalæri með legg er í raun það sem á íslensku heitir londonlamb.

Ég mun því skipta timjaninu og rósmaríninu út fyrir hunang og sinnep á morgun. Svepparjómabombusósa og brúnaðar kartöflur ættu ekki að svíkja nokkurn mann. Frekar er finnsku grænu baunirnar.


Víóluskrímslið - matur er mannsins megin

föstudagur, apríl 14, 2006

Vor í lofti

Í dag skein sól á sumardegi í Helsinki. Ég uppveðraðist öll við þau ósköp, skrapp í bæinn og keypti mér fagra túlípana á páskaborðið. Þar eð fermetrarnir 44 báru ótvíræð merki dvínandi drepsóttar og almennrar gengisfellingar undanfarinna daga tók ég til svo íbúðin yrði í stíl við blómin. Það er ekki smart að stilla nýskornum túlípönum upp með notaðan snýtupappír, skítug náttföt og Wallander reyfara af bókasafninu út um öll gólf.

Eftir þetta upphlaup lagðist ég endilöng í nýryksugaðan sófann og lét mig dreyma um páskaeggið sem ég ætla að borða á sunnudaginn í góðum félagsskap á meðan fjölskyldan heima á Íslandi safnast saman heima hjá ömmu, borðar vöfflur og gerir grín að málsháttum hvers annars. Næsta ár verð ég heima á páskunum.

Það er ekki langt þangað til.

Víóluskrímslið - pásk

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Halldór Ásgrímsson

lýsir því yfir í fjölmiðlum að honum þyki nýjasta gengisfellingin bæði sniðug og vel til fundin.

Það finnst mér ekki.

Hreint alls ekki.


Víóluskrímslið - ekki skemmt, hreint alls alls ekki skemmt.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Mestu velgjörðarmenn mannskyns

...hljóta að vera þeir sem fundu upp tetracýklínlyfjabálkinn og frunsukremið.

Í dag sá ég íkorna í trénu fyrir utan stofugluggann og þegar ég ruslaðist á æfingu í kvöld fann ég brum á nokkrum trjágreinum við strætóskýlið.

Þetta er allt að koma.


Víóluskrímslið - að skríða saman

mánudagur, apríl 10, 2006

Drepsótt aldarinnar

Þar kom loksins að því. Vorflensan hefur haldið innreið sína í ónæmiskerfi víóluskrímslisins. Það er fátt sem mér finnst ömurlegra en að vera lasin. Sérstaklega þegar mig langar að æfa mig og get það ekki. Það er bömmer. Samt verður að taka tillit til þess að þetta er fyrsta drepsóttin í ár sem hlýtur að teljast framför frá því í fyrra þegar ég var með stanslaust myglukvef í marga mánuði.

Eftir að hafa haldið vöku fyrir sjálfri mér og öllu húsinu tvær nætur í röð með hósta, ræskingum og hreppstjórasnýtingum án nokkurs bata, ákvað ég í gærkvöldi að mál væri að leita læknis. Ég hringdi því í læknavaktina. Þar svaraði eldri hjúkka símanum - sem talaði ekki ensku. Þar sem finnskukunnátta mín takmarkast að mestu leyti við orðaforða sem notaður er á öldurhúsum og í leigubílum neyddist ég til að bregða fyrir mig minni brotakenndu skandinavísku. Milli hóstakviðanna útskýrði ég fyrir furðulostinni hjúkkunni að "jag er svært forkylad og at jag ma se en läkare, so snart som möjligt." Þessi hræringur af öllum norðurlandamálunum virkaði þó nógu vel til þess að verða mér út um tíma hjá heimilislækni nú á eftir.

Halelúja. Himnarnir opnast með englasöng.

Ég nota kannski tækifærið og spyr lækninn hvort undarlegur verkur í bakinu sé tognun eftir skíðaferðina. Frábært.

Víóluskrímslið - fullt af hor, teygt og togað

laugardagur, apríl 08, 2006

Lappland

Mikið var gaman í Lapplandi. Þau Anna og Matias fórnuðu stórum hluta vikunnar í að kenna mér á skíði, með ágætis árangri. Nú kann ég að minnsta kosti að hægja á mér í brekkunum, sem er stór kostur. Sérstaklega þegar það er svartaþoka á toppnum og maður sér ekki neitt. Auk þess komst ég að því að það er minna mál að ganga upp brekkur á gönguskíðum en að renna sér niður þær.

Kvöldunum var eytt í góðum félagsskap í sánunni og á karaókebar staðarins þar sem við fórum á kostum syngjandi gamla slagara með finnskum textum eins og "No niin, no niin, Mary Lou" og "Ei ei ei, Delilah." Engin sá ég þó norðurljósin í þetta sinn.

Þrátt fyrir að hafa dottið milljón sinnum á rassinn við ýmis tækifæri er ég enn í heilu lagi og óbrotin, það er fyrir öllu. Enda tekur nú lokaspretturinn við og þá þarf maður á öllu sínu að halda.

Víóluskrímslið - blátt og marið