Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Veruleikaflótti

Ég er ein þeirra sem myndi ekki sýta það þó þingflokkum Sjálfstæðis og Framsóknarflokks væri sökkt út af Reykjanesi í gjaldþrota Eimskipsgámi. Myndi jafnvel velja nokkra góða utan þings til þess að bæta í gáminn.

Þó ég sé kennari og hugsi í lausnum þykir mér oft erfitt að sjá til sólar þessa dagana, þökk sé ofangreindum gámakandídötum. Þá er gott að flýja veruleikann um stund, lesa góða bók (eða vonda) skoða gamlar myndir (fann eina af dr. Tót síðan 2002, mikið hlegið á heimilinu) stinga nefinu í kattarbelg (nóg af svoleiðis heima hjá mér) eða læra ný grip á úkúleleið mitt (að glamra á úkúlele er góð skemmtun).

Svo má líka borða mikinn lakkrís. Eða ryksuga ganginn. Eða ekki.

Víóluskrímslið - heldur dauðahaldi í geðheilsuna

sunnudagur, febrúar 15, 2009

Nýtt Ísland, nýtt hár

Í fyrri viku gerði ég mér ferð á hárgreiðslustofu hér í borg og lét klippa af mér allt hárið. Sú aðgerð tóks afbragðsvel. Fyrir utan það hversu þægilegt það er að skarta drengjakolli er ekki síður gaman að líta sitt gamla sjálf í spegli á ný.

Fyrir utan klippinguna miklu hefur fátt markvert gerst þessa vikuna enda lagðist ég í pest sem dr. Tót færði mér af LSH. Af hennar völdum dró mjög saman í þjónustu við gæludýrin á heimilinu - sem hissa og ringluð minntu skyndilega meira á Sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu en ég kæri mig um að nefna.

Upp er boðið Ísaland og á morgun ætla ég í vinnuna eins og Davíð Oddsson hyggur vafalaust á að gera. Munurinn á okkur er hins vegar sá að mín bíða ekki mótmælendur í lögreglufylgd þegar ég geysist inn um dyrnar.

Víóluskrímslið - byggir upp æsku landsins

föstudagur, febrúar 06, 2009

Tónlistarsmekkur

Sumir halda því fram að kettir séu skynlausar skepnur. Þeir sem búa með einum eða fleiri slíkum vita að það er fjarri sanni.

Þeir hafa meira að segja mjög ákveðinn tónlistarsmekk.

Kettirnir okkar eru þar engin undantekning. Þegar plata er sett á fóninn eða annað okkar býst til þess að fara að æfa sig eru þeir komnir á nóinu, setjast á gólfið og fylgjast með af athygli. Líki þeim tónlistarflutningurinn leggjast þeir undir píanóstólinn og mala. Ef tónlistin fellur ekki í kramið ruslast þeir vælandi um stofuna, reyna að fella nótnastatífið og taka Batmanstökk upp á bakið á manni. Það er ekki þægilegt.

Eftir nokkrar vísindalegar tilraunir hef ég komist að því að köttunum líkar vel við flest sem samið er fyrir árið 1850. Eftir það fer að síga á ógæfuhliðina. Hindemith er án efa það tónskáld sem þeim er einna verst við. Philip Glass er heldur ekki hátt skrifaður. Ekki heldur Penderecki, Lutoslawski eða Prokofiev.

Það er því nokkuð ljóst að kettirnir verða lokaðir reglulega inni í svefnherbergi næstu vikur. Á statífinu er nefnilega bæði Hindemith sónata og Reger svíta sem lærast skulu á næstu vikum. Það er vandlifað.


Víóluskrímslið - mit bizarrer plumpheit