Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, febrúar 06, 2009

Tónlistarsmekkur

Sumir halda því fram að kettir séu skynlausar skepnur. Þeir sem búa með einum eða fleiri slíkum vita að það er fjarri sanni.

Þeir hafa meira að segja mjög ákveðinn tónlistarsmekk.

Kettirnir okkar eru þar engin undantekning. Þegar plata er sett á fóninn eða annað okkar býst til þess að fara að æfa sig eru þeir komnir á nóinu, setjast á gólfið og fylgjast með af athygli. Líki þeim tónlistarflutningurinn leggjast þeir undir píanóstólinn og mala. Ef tónlistin fellur ekki í kramið ruslast þeir vælandi um stofuna, reyna að fella nótnastatífið og taka Batmanstökk upp á bakið á manni. Það er ekki þægilegt.

Eftir nokkrar vísindalegar tilraunir hef ég komist að því að köttunum líkar vel við flest sem samið er fyrir árið 1850. Eftir það fer að síga á ógæfuhliðina. Hindemith er án efa það tónskáld sem þeim er einna verst við. Philip Glass er heldur ekki hátt skrifaður. Ekki heldur Penderecki, Lutoslawski eða Prokofiev.

Það er því nokkuð ljóst að kettirnir verða lokaðir reglulega inni í svefnherbergi næstu vikur. Á statífinu er nefnilega bæði Hindemith sónata og Reger svíta sem lærast skulu á næstu vikum. Það er vandlifað.


Víóluskrímslið - mit bizarrer plumpheit

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahhaha yndislegir kettir en vá mér líst vel á þetta prógramm!! Fær maður að heyra þig á tónleikum bráðlega?
kær kveðja, Sirrý (tonschönheit ist nebensache... ;-))