Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 23, 2007

Það er komin Þorláksmessa

Hér í Systrabæ á Langholtsveginum stefnir allt í hrein jól. Eftir að hafa flengst um bæinn í gærkvöldi í ýmsum erindagjörðum komum við heim og tókum til hendinni. Týndir geisladiskar fundu glötuð hulstur og nótnaflóðið inni í vinnuherbergi rataði í möppur. Nú á bara eftir að skúra. Litli grís lofaði að sjá um það - enda þreif ég klósettið. Þetta kalla ég samvinnu í verki.

Ég sit nú við eldhúsborðið í túrkísbláa eldhúsinu okkar, drekk te og er á leiðinni að fara að æfa mig. Oft var þörf en nú er nauðsyn, Jarðarljóð Mahlers bíða á statífinu enda æfing með kammersveitinni Ísafold í dag. Jarðarljóðin verða flutt á tónleikum í Íslensku Óperunni þann 30. desember nk. Allir sem gaman hafa af botnlausri rómantík með snert af ólæknandi mikilmennskubrjálæði ættu að mæta og hlusta því þetta verk svíkur engan.

Litla systir er skipulagið uppmálað og á eldhúsborðinu liggur aðgerðalisti dagsins. Hann er ansi langur en stormsveipurinn systir mín verður ekki í vandræðum með það. Það sem mér er efst í huga er hins vegar Þorláksmessusammenkomst hjá Stefáni og frú þar sem ég ætla að reka inn trýnið í kvöld.

Svo koma jólin.


Víóluskrímslið - gleðileg jól

mánudagur, desember 10, 2007

Sjukskrevat

Í dag er mánudagur. Samkvæmt því ætti ég nú að þeysa um Reykjanesbæ þveran og endilangan á Litla Rauð og kenna börnum á strengjahljóðfæri til klukkan 20 í kvöld. Því er ekki að heilsa í dag. Ég er lasin heima.

Eins og sannur Íslendingur er ég með ofboðslegan móral yfir því að vera ekki í vinnunni þrátt fyrir drepsóttina. Enda ætlaði ég í vinnuna í morgun. Þegar ég sá tvöfalt þegar ég stóð upp úr rúminu ákvað ég hins vegar að það væri öruggast fyrir alla aðila að ég stýrði ekki ökutæki í dag. Morguninn fór í að láta vita af sér á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum og gera ráðstafanir fyrir næstu helgi enda jólatónleikar á næsta leiti.

Ég er semsagt sjukskrevat í dag. Oj barasta.Saga úr bransanum

Fyrir nokkrum vikum stóð ég og las að gefnu tilefni yfir litlu hljómsveitinni minni um rétta hegðun og almenna kurteisi. Þar sem ég stóð þarna úfin og eldrauð í framan eins og refsinorn af gamla skólanum læddist upp lítil hönd í hópnum.

,,Anna, átt þú börn?"

Þegar ég svaraði því neitandi kinkaði barnið kolli eins og til samþykkis. Svona ströng kona ætti alveg að láta svoleiðis vera...


Víóluskrímslið - beitt og barnlaust