Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 23, 2007

Það er komin Þorláksmessa

Hér í Systrabæ á Langholtsveginum stefnir allt í hrein jól. Eftir að hafa flengst um bæinn í gærkvöldi í ýmsum erindagjörðum komum við heim og tókum til hendinni. Týndir geisladiskar fundu glötuð hulstur og nótnaflóðið inni í vinnuherbergi rataði í möppur. Nú á bara eftir að skúra. Litli grís lofaði að sjá um það - enda þreif ég klósettið. Þetta kalla ég samvinnu í verki.

Ég sit nú við eldhúsborðið í túrkísbláa eldhúsinu okkar, drekk te og er á leiðinni að fara að æfa mig. Oft var þörf en nú er nauðsyn, Jarðarljóð Mahlers bíða á statífinu enda æfing með kammersveitinni Ísafold í dag. Jarðarljóðin verða flutt á tónleikum í Íslensku Óperunni þann 30. desember nk. Allir sem gaman hafa af botnlausri rómantík með snert af ólæknandi mikilmennskubrjálæði ættu að mæta og hlusta því þetta verk svíkur engan.

Litla systir er skipulagið uppmálað og á eldhúsborðinu liggur aðgerðalisti dagsins. Hann er ansi langur en stormsveipurinn systir mín verður ekki í vandræðum með það. Það sem mér er efst í huga er hins vegar Þorláksmessusammenkomst hjá Stefáni og frú þar sem ég ætla að reka inn trýnið í kvöld.

Svo koma jólin.


Víóluskrímslið - gleðileg jól

Engin ummæli: