Gleðilegt ár
...megi það verða enn gjöfulla en það liðna.
Jólahátíðin leið hjá sem ljúfur draumur - og ekki spillti Mahler fyrir. Mikið var etið og plastið rifið miskunnarlaust utan af nýjum bókum en eins og margir vita er það að rífa plast utan af bókum ein af mínum uppáhaldsiðjum.
Árið 2007 var það fyrsta í 5 ár sem ég eyddi í heild sinni á Fróni, fyrir utan örstutt skrepp til H-lands og Sviss í ágústmánuði. Á árinu bar það helst til tíðinda að ég tók bílpróf 10 árum of seint, flutti mig 2svar milli landshluta í atvinnuskyni, fór í mitt fyrsta áheyrnarpróf sem atvinnumaður, ófá atvinnuviðtöl og endaði á því að ráða mig í 100% starf á suðvesturhorni landsins sem varð óvart að 130% starfi. Auk þess greip ég öll gigg sem gáfust, sem voru þó nokkur enda eru víóluleikarar afar elskuð stétt. Allt þetta varð til þess að ég upplifði það í fyrsta sinn á æfinni að eiga afgang um mánaðamót og hafa efni á því að leggja fyrir. Enda er ég ekki dýr í rekstri.
Ég strengi aldrei áramótaheit enda nota ég alla þá sjálfstjórn sem ég bý yfir til þess að halda mér við efnið í starfi mínu og á engan afgang til þess að stunda slíkt. Hins vegar á ég mér afar vel skilgreinda drauma sem innihalda m.a. eigið húsnæði og þar með tækifæri til að hitta allar bækurnar mínar aftur, frekari framfarir í víóluleik og kött. Sumar konur á mínum aldri fara á barnaland.is og skoða myndir af ungabörnum. Ég fer á kattholt.is og skoða myndir af heimilislausum kettlingum. Svo langar mig að halda mörg matarboð þar sem lesið verður úr heimsbókmenntunum við góðar undirtektir boðsgesta.
Þetta verður gott ár.
Víóluskrímslið - mjá
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli