Gleraugu - ástaróður
Einu sinni var ég spurð hvaða líkamshluta mér þætti vænst um. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Gleraugun.
Gleraugun?! Gleraugu eru ekki líkamshluti, var mér tjáð. Það gæti þó ekki verið fjær sannleikanum. Gleraugun mín eru jafn mikill hluti af mér og hárið, tærnar og eyrun. Allir sem hafa farið með mér í sund vita að gleraugnalaus er ég allslaus. Þess vegna er ég rosalega hrifin af því að sundfélagar mínir séu í litríkum sundfatnaði. Skræpóttu sundbuxurnar hans dr. Tót sjást til dæmis mjög vel jafnvel þótt maður sé hálfblindur.
Þessa ástríðu mína gagnvart gleraugunum mínum má rekja til æsku minnar. Þegar ég fæddist var ég svo rangeyg að annað eins hafði ekki sést á Íslandi í manna minnum. Barnamyndirnar af mér á fyrsta ári eru fallegar eftir því. Um eins árs aldur fór ég í aðgerð og var um nokkurra vikna skeið fræg í hverfinu sem "barnið sem augunum var snúið við í". Fljótlega eftir aðgerðina fékk ég mín fyrstu gleraugu. Þau voru svört með þykkri teygju sem smeygt var utan um kollinn á mér. Ég var ekkert sérlega hrifin af þeim þá en með markvissri atferlismeðferð (sjáðu hvað þú ert sæt með gleraugun) átti það eftir að breytast. Alla barnæskuna að undanskildu einu ári gekk ég með gleraugu. Ljótasti hrekkur sem hægt var að gera mér var að nappa af mér gleraugunum og hlaupa með þau burt. Sem betur fer gerðist það ekki oft.
Þar sem ég vandist því frá blautu barnsbeini að sjá mig í spegli með gleraugu varð sú mynd eðlileg í huga mér. Þetta eina ár sem ég gekk gleraugnalaus saknaði ég gleraugnanna og íhugaði að biðja foreldra mína um umgjarðir með rúðugleri svo ég liti amk. eðlilega út. Æðri máttur bænheyrði mig og gerði mig nærsýna með afbrigðum. Ég fékk aftur gleraugu og þótti gott.
Í dag get ég ekki hugsað mér ásýnd mína án gleraugna. Mér finnst ég asnaleg þegar ég er ekki með gleraugun. Ekki spillir það fyrir ást minni á gleraugum að til eru margar gerðir af eitursvölum umgjörðum. Um daginn eignaðist ég einar slíkar - flöskugrænar og frekjulegar. Ég hef verið í góðu skapi síðan.
Gleraugun eru það fyrsta sem ég set á mig á morgnana og það síðasta sem ég tek af mér á kvöldin. Ég elska gleraugun mín. Þau gera mig að heilli manneskju. Þess vegna segi ég að þau séu sá líkamspartur sem mér þykir vænst um. Að öllum hinum ólöstuðum.
Víóluskrímslið - briller
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)