Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Skín við sólu Skagafjörður

Þau undur og stórmerki gerðust í morgun að ég tók bílpróf. Og náði því. Þeir sem eiga leið um þjóðveg 75 Sauðárkrókur-Varmahlíð á mánudögum og fimmtudögum næstu vikur og mánuði mega því fara að vara sig á bláleitri Toyotu með skjaldarmerki Skagafjarðarhrepps í afturglugganum.

Þegar ég svo fór á skrifstofu sýslumanns í hádeginu að sækja bráðabirgðaakstursleyfið sem nauðsynlegt er að hafa í farteskinu næstu vikuna spurði afgreiðsludaman hvort ég væri orðin sautján. Er það furða að maður sé enn spurður um skilríki í Ríkinu.

Síðustu vikur hafa verið annasamar með afbrigðum. Mér líkar vel í nýja starfinu. Krakkarnir 37 eru hressir og taka mér með miklu jafnaðargeði, líka þegar ég dengi í þá tækniæfingum með dulúðlegum heitum eins og "fingraleikfimi" og "jarðgangaborun". Fyrir utan kennsluna hefur mér tekist að þrífa íbúðina hátt og lágt, fara í reisu á Akureyri og Húnavelli með Valorrahöll og á þorrablót með Hönnu og hennar fólki - þaðan sem við fórum reyndar áður en menn fóru að slást og brjóta klósett.

Svo fann ég þessa prýðilegu hlaupabraut í flæðarmálinu.

Þetta verður alveg skidegodt.


Víóluskrímslið - Egon

laugardagur, janúar 13, 2007

Af illri nauðsyn

Ég er að fara að taka bílpróf. Eftir að hafa þrjóskast við í tíu ár verður ekki lengur hjá því komist. Ég er búin að ráða mig í vinnu út á land og öllum þeim sem eitthvað þekkja til almenningssamgangna á Íslandi ætti að vera ljóst að vilji maður komast leiðar sinnar þar án þess að eiga á hættu að verða úti í blindbyl við það eitt að bíða eftir rútunni hjá sjoppunni í Varmahlíð verður maður að geta ekið bíl. Djöfuls helvíti.

Ófáir hafa rekið upp stór augu við þessar fréttir enda gera flestir ráð fyrir því að allir Íslendingar taki bílpróf 17 ára gamlir að því gefnu að þeir séu andlega heilir. Ekki ég. Þegar ég var 17 áttum við ekki bíl. Þegar ég var 20 hafði fjölskyldan eignast slíkt farartæki en þá var ég flutt að heiman og hafði ekki efni á að borga bílpróf af þeim stórupphæðum sem ég fékk fyrir að vinna á næturvöktum á heimilum fyrir fatlaða. Auk þess var ég heppin með strætóleiðir.

Í H-landi nýtti ég mér almenningssamgöngur enda landið flatt og vel til þess fallið að leggja um það lestarteina þvers og kruss. Ekki þurfti ég því á bílprófi að halda þar frekar en annars staðar.

Nú duga engar afsakanir. Bílprófið skal tekið og sveitarfélagsbíllinn á Sauðárkróki keyrður tvisvar í viku fram á vor. Ég get ekki sagt að mér finnist ég hafa öðlast aukna lífsfyllingu við þetta. Kannski er það bara vegna þess að ég verð aldrei aftur stikkfrí við heimferð af öldurhúsum og get ekki framar notið útsýnisins ótrufluð á ferð um landið.

Öss bara.

Víóluskrímslið - þræll blikkbeljunnar

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Gleðilegt ár lömbin mín

Me.


Matur

Í morgun stóð ég í bókabúð og flissaði að myndasögu um dýrasta mat í heimi. Svo fór ég út í búð og fannst hún ekki lengur fyndin.


Kinderwens?

Hvers vegna í ósköpunum senda hollenskir lyfsalar væmna bæklinga um barneignir með lyfseðilsskyldum getnaðarvörnum? Þurfi ég einhvern tímann að fara aftur í apótek þar í landi ætla ég fyrst að stimpla "nei, mig langar ekki að eignast börn" á ennið á mér. Eða fá mér bol með slíkri áletrun. Ég er ekki með það stórt enni.

Hálka

Ég þarf að læra upp á nýtt að ganga í hálku. Það er meira en að segja það.


Víóluskrímslið - allt að gerast