Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, janúar 13, 2007

Af illri nauðsyn

Ég er að fara að taka bílpróf. Eftir að hafa þrjóskast við í tíu ár verður ekki lengur hjá því komist. Ég er búin að ráða mig í vinnu út á land og öllum þeim sem eitthvað þekkja til almenningssamgangna á Íslandi ætti að vera ljóst að vilji maður komast leiðar sinnar þar án þess að eiga á hættu að verða úti í blindbyl við það eitt að bíða eftir rútunni hjá sjoppunni í Varmahlíð verður maður að geta ekið bíl. Djöfuls helvíti.

Ófáir hafa rekið upp stór augu við þessar fréttir enda gera flestir ráð fyrir því að allir Íslendingar taki bílpróf 17 ára gamlir að því gefnu að þeir séu andlega heilir. Ekki ég. Þegar ég var 17 áttum við ekki bíl. Þegar ég var 20 hafði fjölskyldan eignast slíkt farartæki en þá var ég flutt að heiman og hafði ekki efni á að borga bílpróf af þeim stórupphæðum sem ég fékk fyrir að vinna á næturvöktum á heimilum fyrir fatlaða. Auk þess var ég heppin með strætóleiðir.

Í H-landi nýtti ég mér almenningssamgöngur enda landið flatt og vel til þess fallið að leggja um það lestarteina þvers og kruss. Ekki þurfti ég því á bílprófi að halda þar frekar en annars staðar.

Nú duga engar afsakanir. Bílprófið skal tekið og sveitarfélagsbíllinn á Sauðárkróki keyrður tvisvar í viku fram á vor. Ég get ekki sagt að mér finnist ég hafa öðlast aukna lífsfyllingu við þetta. Kannski er það bara vegna þess að ég verð aldrei aftur stikkfrí við heimferð af öldurhúsum og get ekki framar notið útsýnisins ótrufluð á ferð um landið.

Öss bara.

Víóluskrímslið - þræll blikkbeljunnar

Engin ummæli: