Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Skín við sólu Skagafjörður

Þau undur og stórmerki gerðust í morgun að ég tók bílpróf. Og náði því. Þeir sem eiga leið um þjóðveg 75 Sauðárkrókur-Varmahlíð á mánudögum og fimmtudögum næstu vikur og mánuði mega því fara að vara sig á bláleitri Toyotu með skjaldarmerki Skagafjarðarhrepps í afturglugganum.

Þegar ég svo fór á skrifstofu sýslumanns í hádeginu að sækja bráðabirgðaakstursleyfið sem nauðsynlegt er að hafa í farteskinu næstu vikuna spurði afgreiðsludaman hvort ég væri orðin sautján. Er það furða að maður sé enn spurður um skilríki í Ríkinu.

Síðustu vikur hafa verið annasamar með afbrigðum. Mér líkar vel í nýja starfinu. Krakkarnir 37 eru hressir og taka mér með miklu jafnaðargeði, líka þegar ég dengi í þá tækniæfingum með dulúðlegum heitum eins og "fingraleikfimi" og "jarðgangaborun". Fyrir utan kennsluna hefur mér tekist að þrífa íbúðina hátt og lágt, fara í reisu á Akureyri og Húnavelli með Valorrahöll og á þorrablót með Hönnu og hennar fólki - þaðan sem við fórum reyndar áður en menn fóru að slást og brjóta klósett.

Svo fann ég þessa prýðilegu hlaupabraut í flæðarmálinu.

Þetta verður alveg skidegodt.


Víóluskrímslið - Egon

Engin ummæli: