Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, febrúar 12, 2007

Skrautlegi dagurinn

Þegar ég mætti til kennslu í Varmahlíðarskóla síðastliðinn fimmtudag mætti mér krakkaskari í furðufötum, hver öðrum skrautlegri. Ég hugsaði lítt út í það enda aldrei að vita hvað þessum krökkum dettur í hug. Þess í stað fór ég beint upp í stofu, gekk frá draslinu mínu og hélt svo af stað að sækja fyrsta nemanda dagsins.

Stúlkan sú var heldur en ekki skrautlega klædd. Þegar ég hrósaði henni fyrir smekklegt fataval sagði hún mér upprifin að hún væri í skrautlegum fötum því að í dag væri SKRAUTLEGI DAGURINN. Svo mældi hún mig út og spurði: "hvernig vissir þú að skrautlegi dagurinn væri í dag?" Ég horfði niður á sjálfa mig og taldi 7 liti. Sagði svo barninu að hjá mér væru allir dagar skrautlegir.

Einu sinni fór ég á Schiphol að sækja dr. Tót í helgarfrí. Ég hafði gert mitt besta til að vera eins sæt og ég mögulega gat og hafði meðal annars keypt nýjar röndóttar sokkabuxur í tilefni heimsóknarinnar. Þegar dr. Tót kom fram í móttökusalinn fékk hann ofbirtu í augun af litavalinu - að eigin sögn. Mér persónulega finnst ekkert að því að vera í 15 litum sem passa ekkert endilega saman.

Það er nóg um svarta og grá tóna á veturna. Litir létta lund. Upp með rauðu bindin og grænu sokkana.


Víóluskrímslið - eins og regnbogi meistarans

Engin ummæli: